Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2008

Elsku hjartans Ingibjörg Sólrún ekki halda áfram þessum skrípaleik - við erum öll hrædd og það er ósmekklegt að misnota ástandið í kosningabaráttu framtíðarinnar!

Á mbl.is er vitnað í orð Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur þar sem hún segir meðal annars að áfallastjórnun sé lokið.

Hverjum í ósköpunum gagnast svona þvættingur?
Hvaðan skyldi hún hafa þessa speki?

Ég held hann gagnist engum og spekin er áreiðanlega komin frá norska PR sérfræðingnum.

Hvað á það að þýða að bjóða manni upp á þetta yfirborðskennda bull?
Hvers vegna brjóta núsitjandi stjórnmálaleiðtogar þjóðarinnar ekki odd af oflæti sínu og stíga niður til okkar fólksins í auðmýkt og segja:

Fyrirgefið okkur, við vissum ekki hvað við gerðum - nú skulum við hjálpast að!

Það væri þó svo sannarlega í anda þeirrar trúar sem ríkið hampar og rekur og ekki síst í anda jólanna sem vofa nú yfir landsmönnum sem ægiskuggi áhyggna og ótta.

Ég bið í það minnsta þig Ingibjörg Sólrún að breyta rétt og brjóta ekki fleiri hjörtu.
Það er ekkert svigrúm fyrir kosningabaráttu núna elsku vina.
Ekki gera þetta..........
xxx
Fía litla


Geggjun!

Fregnir hafa borist af því að Alþjóðageðheilbrigðisstofnunin hyggst veita íslenska ríkinu sérstök hvatningarverðlaun í viðrkenningarskyni fyrir einstaka framgöngu sína á sviði atvinnumála geðfatlaðra.

Í tilkynningu frá nefnd á vegum stofnunarinnar segir meðal annars að Íslendingar hafi í gegnum tíðina þótt hafa skapað sér ákveðna sérstöðu á sviði geðheilbrigðismála. Langt sé síðan athygli stofnunarinnar var vakin á sérstakri afstöðu Íslendinga til annars vegar þáttöku geðfatlaðara í stjórnmálum landsins og nú hin síðari ár ekki síður atvinnuþáttöku geðfatlaðra.

Viðurkenningu þessa fái íslenska ríkið og í raun þjóðin öll hins vegar nú fyrir þá einstöku og aðdáunarverðu ákvörðun og staðfestu sína að veita geðfötluðum færi á að starfa jafnvel í efstu embættum þjóðarinnar. Slíkt verði að telja frammúrstefnukennt og afar athyglisvert í ljósi viðhorfa alþjóðasamfélagsins til geðfatlaðra almennt.

Geir H. Haarde forsætisráðherra hefur verið boðið að veita verðlaununum viðtöku í næstu viku fyrir hönd íslensku þjóðarinnar og hefur hann tilkynnt með stolti að þau muni verða varveitt í Seðlabanka Íslands þangað sem rekja megi tilurð útnefningarinnar.

Fyrir hönd gapandi þjóðar
xxx
Fía litla


Ægishjálmur til verndar ævisöguritara.


Ég risti hér með ægishjálm mikinn af þeirri gerð sem veitir vernd gegn ofríki hvers kyns yfirvalds bæði veraldlegs og andlegs, í skrifpúlt mitt Guðjóni og hans afkomendum til handa sem og allri íslensku þjóðinni.

Sé mér ekki annað fært en að biðja ritara ævisögu Ólafs Ragnars Grímssonar, Guðjóni Friðrikssyni og allri hans fjölskyldu blessunar hér á opinberum vettvangi í þeirri von að fjöldahreyfing mun skapast um þann gjörning.
Megi allar góðar vættir þjóðar vorrar til lands og sjávar halda hlífiskyldi yfir manninum sem hefur skapað sér illvilja veika mannsins í Svörtuloftum.

xxx
Fía litla


Ekkert helvítis miðjumoð meir!

Einkennilegt hvað maður þroskast lítið.
Allt fer bara í hringi og maður endar þar sem maður byrjaði.

Þegar ég var yngri og að ég hélt vitlausari lýsti ég því einu sinni yfir í partýi við misjafnar undirtektir að ég fengi velgju og auminjgahroll þegar ég hlustaði á svensk-sósíal-demókratískan-miðjumoðs-velling Alþýðuflokksins á þeim tíma.

Ég var dálítið æst minnir mig þegar ég hvæsti að allt væri betra en helvítis miðjumoð - það væri aumingjaskapur og geldingsháttur í pólitík að taka ekki skýra afstöðu.
(í dag myndi ég flokka þetta sem áhrif póstmodern-froðufræða á jafnaðarmenn á norðlægum slóðum :) :) en hvað um það)

Í dag veit ég að ég var ekki vitlausari þá heldur hreinni og heilbrigðari í hugsun. Með tímanum stækkaði minn litli rass og varð feitur og pattaralegur í þægindunum sem af því hljótast að snöflast værukær og dofinn í gegnum lífið með það eitt í huga að hafa það betra í dag en í gær.

Nei ég var sko ekki vitlausari þá!

Miðjumoð er helvítis aumingjaskapur og geldingsháttur í pólitík!
Takið meðvitaða afstöðu
Mér er slétt sama hvar þið kjósið að standa - bara ef þið liggið ekki
xxx
Fía litla


Já sumir eru svo sannarlega veikari en aðrir!

Í tilefni umfjöllunar Fréttablaðsins í dag um bréf Davíðs Oddsonar til Ólafs Ragnars Grímssonar vegna meintra ágalla á ráðahag þess síðarnefnda og eiginkonu hans langar mig að rifja upp ummæli bugaðs föðurs geðveiks drengs.

Drengurinn var kominn í öryggisvistun eftir að hafa ítrekað reynt að verða foreldrum sínum að fjörtjóni.
Í þetta skiptið hafði honum nánast tekist það.

Faðirinn sagði frá því örvinglaður hvernig þau höfðu barist fyrir vistun sonar síns í gegnum tíðina á þeim forsendum að hann væri hættulegur. Um málið sagði hann meðal annars þetta:

Það er sorglegt til þess að vita að geðveikir fá enga hjálp fyrr en þeir hafa framið óafturkallanlega glæpi!

Maður hefði nú haldið að sumir hefðu betri sambönd en aðrir og ættu því ekki að þurfa að ganga lausir meðal almennings þess vegna.
Að ekki sé nú talað um þá glæpi sem sumir hafa framið og eru bæði svívirðilegir og óafturkallanlegir!

En hvern fjandan veit ég
xxx
Fía litla


Vonbrigði og væntingar

Þegar þínir nánustu svíkja þig svíður það mun meira og lengur en þegar einhver sem þú hefur enga tilfinningalega tengingu við eða væntingar til gera það.

Þess vegna er ég og hef verið sárreið út í Samfylkinguna um skeið og það batnar ekki þessa dagana. Mig hryllti við því þegar hún gekk til stjórnarsamstarfs við Sjálfstæðisflokkinn.

Nú verður tekið til sögðu sumir og voru spenntir og ánægðir eins og litlir krakkar í sumarbyrjun. En það hvarflaði ekki að mér að svo yrði. Má vera að nú sé ég bara svona svartsýn og kaldlynd en ég skynjaði og las út úr öllu brölti þessa fólks í síðustu kosningahrinu að þau ætluðu sér í stjórn ef þau mögulega gætu með hvaða tilkostnaði sem vera vildi - jafnvel með því að jarða hugsjónir og svíkja fólkið sitt.

Nákvæmlega það gerðist svo þegar í stjórnarsetu var komið. Engin tiltekt, engin inngrip í eitt eða neitt, engar meiriháttar stjórnarfarslegar breytingar urðu hvorki í orði né á borði. Viku eftir viku mánuð eftir mánuð horfðum við á fólkið okkar sem við kusum verða sífellt froðukenndara í sínu symbósíaska sambandi við Sjálfstæðisflokkinn.

Mestum vonbrigðum af þeim öllum olli Ingibjörg Sólrún mér þá og gerir núna í hverri viku, jafnvel daglega. Hvert fór hún konan sem stóð upp og bauð körlum birginn í ættar- og hirðsamafélaginu Íslandi? Hvert fóru skelegg tilsvör og hækkandi raddstyrkur í hlutfalli við slagkraft orða sem fluttu boðskap réttsýni og heilbrigðrar hugsunar sem var svo auðvelt að samsama sig við, trúa og umfram allt treysta?

Samfylkingin er því miður stjórnmálaaflið sem klúðraði big-time í mínum huga.
Það er í réttu hlutfalli við væntingarnar svo ég get sennilega sjálfri mér um kennt.

Kannski að ég fari bara aftur niður á þann stað þar sem ég treysti engum nema sjálfri mér.
Ef við þurfum öll að gera það eins og lítur út fyrir um þessar mundir hvernig samfélag munum við þá eiga hvert við annað?
Er það framtíð barnanna okkar að búa í samfélagi þar sem traust og trú eru úrelt gildi - klisjur í sögubókum og endurminningum afa og ömmu?

Mig hryllir við ástandinu og ég er reið út í Samfylkinguna.
Ekki af því að henni sé allt að kenna heldur af því að ég leyfði mér að treysta, trúa og vona.

Ég er fífl!
xxx
Fía litla


Bara svona rétt áður en ég skríð upp í ........

.........langar mig að deila með ykkur girnilegu lesefni.

Var að klára að lesa Mávahlátur eftir Kristínu Marju Baldursdóttur vegna ritgerðar sem vonandi fæðist um og upp úr helginni.

Kristín er með betri íslenskum rithöfundum síðari ára. Karítas án titils er einhver skemmtilegasta og best skrifaða bók sem ég hef lesið í mörg ár. Óreiðu á striga á ég eftir að lesa og hlakka mikið til - kannski bara um jólin. Og svo Mávahlátur sem ég hafði ekki lesið, aðeins horft á myndina. Hún er líka frábær.

Hljómar kannski annarlega en Kristín skrifar bækur um konur fyrir konur af svo mikilli snilld að það næstum synd. Sú mynd sem hún dregur upp af þjóðlífi í bókum sínum er einstök, ekki langt frá HKL að gæðum og stílfegurð en þó með allt öðrum hætti. En af því að kvenheimurinn er svo alger í bókum Kristínar þá efast ég um að karlar geti notið þeirra og fari því á mis við þjóðlífslýsinguna góðu.

Hljómar kannski hrokafullt eða kvenrembulega en er bara satt og ekkert slæmt.
Er ekki Sven Hassel til dæmis svona kalla-kall sem konur fatta ekki?

Annars bara góða nótt og dreymi ykkur vel
xxx
Fía litla


Úbs! Ég er kannski bara svolítið eins og þessi frauka

Kona nokkur, róttækur feministi er á leiðinni í skólann í strætó. Ungur maður brosir til hennar og stendur upp. Það fýkur snögglega í konuna og hún skellir unga manninum niður í sætið og segir: Alveg dæmigert með ykkur kalla, haldið að þið séuð herramenn ef þið standið upp fyrir konu. Þú þarft sko ekkert að vera gera þig breiðan góurinn, ég þekki svona gaura eins og þig.

Maðurinn er orðlaus og situ hljóður. Stuttu síðar reynir hann að standa upp aftur en konan stoppar hann og spyr hvort hann sé eitthvað tregur, hvort hann nái þessu ekki?

hann sest aftur gáttaður og orðlaus. Segir svo á endanum: heyrðu góða, ég veit ekki hvað þú ert að pæla en ég er komin þremur stoppustöðvum frá þeirri sem ég ætlaði út á einmitt þegar þú komst inn.

xxx
Fía litla


Djöfull fara kallar í taugarnar á mér!

Sá góði siður að halda hurðinni fyrir næsta mann er mikið iðkaður og þarfur í Háskóla Íslands. Þar úir og grúir af hurðum og maður er á stöðugum þvælingi á milli bygginga allan liðlangan daginn.

Sjálf held ég alltaf hurðinni fyrir næsta mann á eftir mér, færi mig til hliðar með kaffibollann í röðinni á meðan ég geng frá veskinu oní tösku og annað svona taka-tillit-dót sem mér finnst gefa lífinu gildi og bæta heiminn.

En ég gjörsamlega þoli ekki kalla og krakkaskratta sem troðast fram fyrir mig á göngu til að opna hurðir fyrir mig.

Hver fjandinn haldiði að þið séuð?
Og hvern fjandann teljið þið mig vera?

Nei ég meina það. Þetta er bara svo hallærislega tilgerðarlegt og skelfilega eitthvað tuttugasta öldin og bara gjörsamlega óþolandi með öllu!
Tvisvar núna með stuttu millibili er ég bókstaflega búin að ganga á einhverja kallabjána og í annað skiptið hálf hrasa með fangið fullt af bókum og þunga tösku á bakinu.

En í dag tók nú alveg steininn úr.
Á leiðinni upp á fjórðu hæð í Árnagarði ávarpar mig miðaldra maður og spyr hvort hann eigi að halda á töskunni minni!!!
Ég gjörsamlega missti málið - ekki lengi þó því ég sagði nei takk með stóru Neii, tveimur galopnum augum og galopnum munni.

Held það sé kominn tími fyrir hinn helminginn af mannkyninu að jafna sig á sjálfum sér - jei þið eruð voða æðislegir en allt hefur sín takmörk - líka æðislegheit karlkyns.

Finnið ykkur eitthvað að gera greyin mín
xxx
Fía litla


Freudian-slipp ársins!

Í Kastljósinu í gær sagði Valgerður Sverrisdóttir nokkurn vegin orðrétt eftirfarandi um sölu ríkisbankana á sínum tíma og mögulegar misgjörðir stjórnvalda við þann gjörning allan saman:

Sala bankanna fór fram samkvæmt leiðbeiningum og undir EFTIRSJÁ erlendra ráðgjafa.........

það er gott að vita að þetta hyski er ekki samviskulaust með öllu

xxx
Fía litla


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Soffía Valdimarsdóttir
Soffía Valdimarsdóttir
Bara ég sjálf hvort sem ykkur líkar það betur eða verr!
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband