Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, október 2008

Victoria Moran var frábær!

Sumt fólk er einfaldlega betra en annað fólk.

Í fyrradag fékk ég mail frá Victoriu um að fyrirlesturinn stæði til um miðjan dag á fimmtudeginum. Sennilega var ég á lista yfir þá sem sátu námskeiðið hjá henni hérna um árið.

Nema það að þrátt fyrir að auðvitað væri ég eins og sandkorn á strönd þessarar frægu og vinsælu konu þá ákvað ég samt að svara með örstuttu bréfi og segja henni að ég kæmist ekki, að ég harmaði það og vildi þakka henni og bjóða velkomna.

Þegar ég kom heim úr skólanum eftir langt og erfitt próf gat ég ekki hugsað mér að ráðast í húsverkin alveg strax svo ég kíkti í póstinn minn.

Þar var mjög persónulegt bréf frá Victoriu sem útskýrði að tímasetning fyrirlestrarins hefði verið misskilningur, hann væri á dagskrá kl. 7 - eftir klukkutíma sem sagt. Nú ef ég kæmist ekki þá vildi hún endilega hitta mig í kaffi eftir fyrirlesturinn eða daginn eftir. Í því skyni gaf hún mér upp herbergisnúmeriðsitt á Grand Hótel og einkamailið sitt. Ég svaraði og hljóp út í bíl.

Fyrirlesturinn var frábær! Hvetjandi, hughreystandi og gefandi.
Hún bar Íslendingum kveðju konu frá Litháen sem hafði sent henni tölvupóst vegna fyrirhugaðs fyrirlestrar á Íslandi. Kveðja var á þá leið að hún vildi að fólk á Íslandi vissi hvað Litháar væru þakklátir Íslendingum fyrir stuðningin þegar þeir lýstu yfir sjálfstæði sínu á tíunda áratugnum. Victoria sagði okkur líka hvernig það hefði snert sig að lesa um að hin pínulitla Færeyska þjóð vildi rétta fram hjálparhönd á erfiðum tímum.

Hún faðmaði mig eins og ég væri fjöldkyldumeðlimur, spurði mig spjörunum úr og þegar ég sagðist vera í þjóðfræðinámi vildi hún sérstaklega fá mig til að segja sér frá innihaldi og boðskap Hávamála og Íslendingasagnanna sem ég reyndi að gera eftir bestu getu.

Það sem upp úr stendur þó eftir kvöldið er skerping á þeirri tilfinningu sem hefur búið með mér lengi, kannski alltaf, að allur heimurinn sé ein heild og að okkur beri að koma fram við allt og alla í ljósi þess.

Vildi að ég hefði haft tíma til að hala ykkur með mér í gær..............
lovjúol
xxx
Fía litla


Inngrips er þörf!

Ég legg til að 42 manna lið erlendra sérfræðinga á sviði hagstjórnunar verði fengnir til að taka við sjoppunni.

30 í stað alþingismannanna, 3 í Seðlabankann og 3 í hvern ríkisbanka.

Við erum hvort eð er búin að tapa sjálfstæðinu ef við vorum þá einhvern tíma sjálfstæð ef út í það er farið.
Málið er að krosseignatengsl og valdablokkir smita allt stjórnkerfið eins og það leggur sig og það verður ekki hægt að halda fermingarveislur, árshátíðir eða ættarmót á Íslandi í 50 ár ef þetta fólk á að taka til hvert hjá öðru.

Þessi aðgerð kallar á 63 + 3 +1 +1 +1 uppsagnir eða samtals 69 manns. Annað eins gerist nú þessa dagana.

Ég sé enga aðra lausn........
xxx
Fía litla


Verð að segja ykkur!!!

Viktoria Moran verður með fyrirlestur á Grand Hotel á morgun held ég frekar en um helgina. Hún hefur verið beðin að koma og tala kjark í fólk á erfiðum tímum og á stefnumót við Geir Haarde skilst mér um helgina líka.

Ef þú mögulega getur taktu þátt. Þessi kona er stórvirki!
Ég sat helgarnámskeið hjá henni síðast þegar hún var á Íslandi, 98 eða 99 held ég og hún breytti lífi mínu. Ég meina það, hún breytti lífi mínu! Í hvert skipti sem ég sé mynd af henni eða verður hugsað til hennar hlýnar mér.

Ég kemst ekki vegna andskotans endalausra anna í skólanum en vil svo gjarnan að þú njótir nærveru og kærleika þessarar einstöku konu sem smitar alla sem hana hitta.

Skelltu þér - ég verð með þér í anda............
xxx
Fía litla


Ber er hver að baki........

Hugsið ykkur bara, Færeyingar eru að hlaupa undir baggann með okkur. Þessi litla þjóð sem á sig ekki einu sinni sjálf.

Maður verður bara auðmjúkur og skammast sín.
En þúsund þakkir kæru Færeyingar

xxx
Fía litla


Að bera nafn með rentu

Það hvað við heitum er órjújfanlegur hluti af okkur en hefur samt ekkert með okkar innri mann að gera.
Samt getur nafn orðið til þess að eitt og annað festist við mann.

Til dæmis er ég löngu orðin ónæm fyrir bröndurum um Soffíu frænku úr Kardimommubænum en samt hefur vargatítlustimpillinn aldrei máðst af mér (skil ekkert í þessu !!!).

Get samt ekki að því gert að vera pínulítið fúl stundum út í foreldra mína fyrir að skíra mig ekki í höfuðið á fleiri formæðrum mínum en minni elsku bestu Ömmu Fíu heitinni.

Fordæmin eru nóg. Til dæmis Hétu þrjár þeirra Þórunn sem er náttlega gríðarlega voldugt nafn.
En svo eru líka dæmi um Járngerðar og Arnþrúðir í sjóðnum.

Ein lítil skotta í fjölskyldunni heitir til dæmis Arnþrúður Kristín, önnur Arnheiður Soffía, sú þriðja Þóranna Vala og ein til sem heitir Rannveig Arna. Þetta eru alvöru nöfn á alvöru konur.

Hver hefði til dæmis vogað sér að setja frekjustimpil á: Arnþrúði Soffíu eða Þórunni Járngerði ?

Í dag kalla ég mig sjálf oftast Fíu vegna þess að hún Amma Fía var einhver jákvæðasta, fallegasta og æðrulausasta manneskja sem ég hef nokkru sinni kynnst. Það er því ærið verkefni að gera sig verðugan að bera það nafn með rentu.

xxx
Fía litla


Jú það er rétt hjá ykkur.....

........sem sáuð mig burðast með marga marga poka úr Bónus, stóra barnið mitt er komið heim frá Asíu.
Hann er alveg eins og þegar hann fór, bara svolítð úfnari um hausinn og töluvert þreyttari.

Sleginn yfir stríðsháttum Cambódíumanna og ofbeldi í Víetnamstríðinu, pínu svekktur með margrómaða matarmenningu Taílands og fullkomlega heillaður af mannlífinu á Balí.

Annars bara sæll og glaður með að vera kominn heim í rúmið sitt og til mömmu sinnar vitanlega..............

mamman er ekkert leið heldur
xxx
Fía litla


Finnst það ætti að banna þetta!

Haldiði að það sé ekki komin ritgerða- og prófatörn eina ferðin enn.

Mér telst til að þetta sé tólfta önnin mín í röð.
Svo eruð þið hissa á því að ég vilji bara prjóna og borða súkkulaðikökur............

xxx
Fía litla


Heimur versnandi fer - eða kannski ekki?

Í dag tölum við mikið um íslenska þjóð, þjóðargjaldþrot, þjóðarskútuna og fleira sem byggir á hugmyndinni um heild sem markast af þjóðerni, þjóðlandi o.þ.h.

Fyrirbrigðið þjóð, þjóðríki og þjóðerni er alls ekki gamalt. Eiginlega eru rætur þess í frönsku byltingunni og Upplýsingu þeirrar sömu þjóðar á 18. öld.

Þá gætti ákveðinnar heimshyggju í hugmyndafræði Frakka og eins í Ameríku. Hugmyndir um jöfnuð voru hátt skrifaðar og áttu að verða hvati mikilla framfara í öllu tilliti þar sem menntun skipaði heiðurssess. Þannig voru soldið sömu hugmyndafræðilegu forsendur sem lágu að baki byltingarinnar í Frakklandi og sjálfstæðisyfirlýsingarinnar amerísku.

Hugmyndin var fögur og varð sannarlega hvati mikilla framfara en andsvarið var ekki langt undan.

Hugsuðir í Þýskalandi með Herder í fararbroddi vildu meðal annars í krafti öfundar í garð Frakka gera skýrari greinarmun á menningu ólikra hópa. Með umræðu þeirra á milli varð svo til eitthvað sem hefur verið kallað þjóðernishyggja sem byggir á grunnstólpum þjóðar og þjóðernis meðal annars.

Allir vita hvernig það fór allt saman.

Íslendingar öðluðust til að mynda sjálfstæði sitt í krafti hugmynda 19. aldar um þjóðríki og þjóðerni. Allt frá þeim tíma hefur vaxandi sérhagsmunahyggja og einstaklingshyggja ríkt í blandi við gríðarlega neysluhyggju sem hefst kannski með plastbyltingunni á þriðja áratug 20. aldar.

Einhvers staðar hérna í sögunni kemur svo fram fyrirbrigði sem venjulega kallast Heimsvæðingin. Það er bæði svo nálægt manni í tíma og eins og ekki síður svo óáþreifanlegt fyrirbrigði að ég á erfitt með að skynja það. Spekingarnir segja að hún markist af kannski umfram annað þeim hraða sem upplýsingar fara á um heiminn. Sannarlega fara upplýsingar hratt á milli staða en hvort það dregur úr mikilvægi landamæra og menningarlegum mun á milli þjóða efast ég stórlega um. Slíkt kann að hafa verið í spilunum á einhvejum tímapunkti en varð held ég aldrei neitt raunverulegt ástand. Þvert á móti held ég að það sé fyrir þó nokkru farið að skerpa á menningarlegum mun ef eitthvað er.

Núna er röðin hins vegar komin aftur að heildarhyggjunni eða heimshyggjunni eins og vaninn er að kalla hana þegar hún ríkti á 18. öld. Svona rúllar hugmyndaboltinn í gegnum aldirnar og verður ekki stöðvaður. Enda ekki ástæða til.

Mér þykir bara svo forvitnilegt að velta því fyrir mér af hverju öfgarnar í hvora áttina sem er þurfa alltaf að verða svo miklar sem raun ber vitni áður en boltinn fer að rúlla í nýja átt.
Hvenær skyldi koma að því að almenn rausæishyggja í bland við heilbrigt innsæi og umhyggju nái fótfestu í heiminum?
Hvenær skyldi boðskapur allra þeirra trúarbragða sem maðurinn hefur smíðað ná eyrum fólks í alvörunni?
Hvenær ætli náungakærleikur og meðalhóf komist í tísku?

xxx
Fía litla


Skrítinn draumur

Mig dreymdi svo einkennilega í nótt.

Ég var á gangi og kom að langri brú yfir að því er mér fannst Ölfusá. Útundan mér sá ég tvo smástráka leika sér. Þegar ég var komin svo sem eins og miðja vegu á brúnni sá ég að leirljós hestur stekkur út í ánna. Þegar ég kíki ofan i vatnið sé ég strákana tvo. Áin var grunn og tær svo ég sá vel til þeirra. Þeir virtust vera að sökkva. Ég hljóp af stað en bölvaði því um leið að nú myndi sennilega rakna af prjónunum það sem ég var að prjóna á göngunni. Stakk mér út í og synti í átt til strákanna sem flutu til mín á móti straumnum. Þegar ég er rétt að ná til þeirra sé ég að annar hestur en sá ljósi er þarna líka. Þessi er dökkur og fylgir drengjunum eftir. Ég er komin alveg upp að strákunum og veit að mér muni takast að bjarga þeim þegar ég svo hrökk upp glaðvakandi.

Hver vill spreyta sig á þessum?
xxx
Fía litla


Meiri þjóðfræði

Þennan kveðskap fékk ég sendan frá henni Sædísi vinkonu minni í dag.

Þetta er höfundarlaust eins og strangt til tekið allt þjóðfræðiefni. Að semja og dreifa texta nafnlaust er ákveðin vísbending um að viðkomandi vilji hafa áhrif á samfélag sitt. Sá sem kemur fram undir nafni er einstaklingur sem þá um leið gefur textanum sitt samhengi og gildismat sem hægt er að rekja. Hins vegar gerir sá sem dreifir nafnlaust ekki grein fyrir sér og sínum heldur kemur fram sem rödd ef svo mætti segja. Sú rödd virkar frekar eins og almanarómur sem við vitum auðvitað að getur orðið gríðarlega sterkt afl í mótun hugmyndafræði og straumum í samfélaginu.

Meðfylgjandi voru tvær myndir. Önnur af íslenska skjaldamerkinu og hin af vinnandi lýð. (verð að fara að nenna að læra á myndahlutann á blogginu mínu!)

Svona hljóðar þetta:

(Á) lítilli eyju við heimsskautahjara
býr heimakær, vansvefta, auðtrúa þjóð.
Hún leit upp til ráðsmanna loðinna svara
sem loforðum öfugt í kok hennar tróð.

Þeir níddust á trausti og trúgirni okkar
- táldrógu sannlega helvítis til.
Og allt sem þeir gerðu, þeir gordrullsokkar
gerðu þeir flottræflum sínum í vil.

En frelsið er háðara boðum og bönnum,
en bláeygðir frjálshugar ímynda sér.
Þjóð mín var notuð af nýríkum mönnum
og nauðgað af útrásarvíkingaher..

Athyglisvert hvað ég hef fengið mikið af efni sent frá meðal annars Sædísi sem vinnur í banka. Það væri mjög spennandi þjóðfræðilegt rannsóknarefni að kanna hvort bankastarfsmenn hafi hlutfallslega fengið meira/minna af slíku efni eða samið kannski sjálfir núna á þessum síðustu og verstu.


Næsta síða »

Höfundur

Soffía Valdimarsdóttir
Soffía Valdimarsdóttir
Bara ég sjálf hvort sem ykkur líkar það betur eða verr!
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.4.): 2
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 16
  • Frá upphafi: 56234

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 15
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband