Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2008

Það var lagið!

Ja nú líkar mér lífið!

Local-blöðin mín bara með ánægjulegar og uppbyggjandi fréttir frá Hveragerði. Ferðaskrifstofan Fylkir flutt í bæinn og er hér með boðin velkomin. það er þessi sem er svo frábært að bóka frí í Danmörku í gegnum meðal annars.

Annars er glöggt gestsaugað því Fylkir tók eftir því við komuna að bæinn vantar sárlega miðbæ og að póstjónustan er einkennilega innréttuð svo ekki sé meira sagt.

Hvernig er það annars þið þarna úti. Auglýsir ekki pósturinn: alla leið heim? Við þurfum alltaf að sækja allan póst á afgreiðsluna í Sunnumörk en ég skal sveia mér upp á ef sendandinn er ekki búinn að borga fyrir hann heim að tröppum. Ég bara fer í þetta mál eftir prófin.

Ha´det bra
Fía litla


Vitiði

það eru smá svona söngleikja-dívu-tendensar í mér.

Ég get sagt ykkur það að þegar ég er að gera húsverkin og skipuleggja líf hinna fjögurra sem ég bý með um leið og ég reyni að láta skipulagið á mínu eigin ganga einhvern vegin upp - þá bara stundum ræð ég sko ekkert við mig og brest bara í söng út um alla íbúð.

Til dæmis í gær þá var ég að þvo ofnskúffu í vaskinum og skrifa innkaupalista og láta Jónheiði læra og skammast í Þóri og reyna að hringja í Óla til að minna hann á að kaupa brauð á heimleiðinni - og þegar ég opnaði ruslafötuna af einhverju tilefni sem ég man sko ekki lengur hvað var og sá að hún var ennþá stútfull upp í lok þótt ég væri búin að biðja Valdimar 4 sinnum um að fara með það út - þá bara allt í einu byrjaði það.

Með uppþvottaburstann í hendinni bara tók ég á rás og söng alveg neðan úr maga lítinn lagstúf með frumsömdum texta í svona englafalsettu - ég man ekki sjálf orðin en ef þið ímyndið ykkur þetta í slow-motion

Fertug kona í ágætum holdum - en ekki alveg eins vel gefin á hæðina kannski - með hvítan uppþvottabursta snýr sér á hæl og líður um eldhúsgólfið í söng og um leið og hún snýr sér skilur burstinn eftir glitrandi vatnsdropaslóð í lausu lofti sem fangar sólargeislana sem með lagni hafa náð að svindla sér leið inn um langskitna gluggana þannig að eitt augnablik lýsir undurfagur regnbogi upp litla húsið og börnin stoppa og horfa í andaktug á þessa sjón með litlu munnana sína galopna svo að munnvatnsdropar sjá sér leik á borði að gægjast út í frelsið þarna úti og......................................................................

Glætan! Ég HATA söngleiki! Ekkert er eins fíflalegt!

Jæja! - ég ætti kannski bara að halda áfram með ritgerðina.
Er nokkuð títt annars???


Prinsessan með prjónana.....

.....sagði mér það á dögunum að hún ætti við smá vandamál að stríða. Sko það er þannig að þegar hún ætlar bara að fara að versla í matinn eða sækja krakkana í skólann þá bara er hún kominn inn í sína hverfis-garnbúð áður en hún veit af og búin að skipta út tugum dollara fyrir garn. Það sem verra er er að hún býr sko í inner-city-Boston og hverfisgarnbúðin hennar er við hliðina á annarri garnbúð og þar ská á móti hinu megin við götuna er sú þriðja.

Þetta er reyndar alltaf eitthvað alveg dásamlegt garn sem býr yfir fullt af möguleikum en það gerir málið bara flóknara ef eitthvað er. Hún getur sko ekki sofnað á kvöldin fyrir hugmyndum eða hreinlega áhyggjum af garninu og hvað muni verða um það.

Það er nefnilega ekki sama garn og garn. Sumt garn er svo sérstakt að það á skilið sérmeðferð. Mikið skil ég hana vel. Enda erum við báðar prinsessur, hún með prjónana og ég á bauninni.

En svo er annað sem ég skil ekki alveg eins vel. Hún prjónaði allt of stóra bláa húfu með hauskúpumunstri á manninn sinn sem er dáltið pervisinn og gugginn að sjá svona á myndum alla vega. Ég hugsa að það hafi verið útsölugarn. Eða mistakagarn. Prinsessur gera nefnilega líka mistök við og við.


Með spreybrúsa að vopni

Já þetta er sannarlega hvimleitt en á sér skýringar. Leynt og ljóst er spreybrúsinn orðinn að vopni í - því miður - vonlausri baráttu lítilmagnans í þessu þjóðfélagi. Við þurfum að standa saman með öðrum hætti.

Ég blogaði um þetta á dögunum. Kíkið á það hérna neðar á síðunni undir fyrirsögninni ORLOFSBEIÐNI TIL HANDA SJÁLFSTÆÐISMÖNNUM.

Þeir eiga auðvitað ekki alla sökina en samt........................


mbl.is Röktu slóð krotaranna frá miðborg upp í Hlíðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Má maður segja vangefinn?

Dáltið pirrandi þegar veröldin breytist án þess að láta mann vita!

Til dæmis orð, eða hvað þau þýða og hvort það má nota þau og fleira svona smálegt. Eitt þannig orð er til dæmis vangefinn. Ég man að þegar ég var stelpa þá var vangefinn ekki ljótt orð. Selma systir besta vinar Jóns Odds og Jóns Bjarna var held ég vangefin - eða var hún þroskaheft kannski? En ókei þið vitið hvað ég meina.

Svo núna þá bara er vangefinn rosa ljótt orð og allt vitlaust ef einhver segir það einhvers staðar. Það á að vera niðrandi af því að það þýði það sama og að einhverjum sé minna gefið en öðrum og það má alls ekki af þvi að allir eiga að vera jafnir og jari jari ja. - Einmitt!

Þá skil ég þetta sem svo að sá sem maður segir að sé vangefinn sé kannski VANHÆFUR af því að viðkomandi hefur ekki hlotið sömu vöggugjafir og aðrir.

Ókei! Allt í lagi!
En hvað ef að ég myndi segja opinberlega að Dagfinnur Matthiesen væri vangefinn frjármálaráðherra en alveg örugglega súperflottur fiskasjúkdóma-sérfræðings-læknir?

Yrði þá allt brjálað eða?

Ég meina ég myndi pottétt fara með Gulla til Dagfinns ef hann færi að fljóta ofan á vatninu í búrinu sínu eða eitthvað. En ég myndi kannski ekki fara fyrst til hans ef ég ætti land sem væri á kúbunni og skuldaði geðveikt mikið í útlöndum og það væri bara allt í fokki heima hjá mér.


Undraheimur prjónandi kvenna

Ein af konunum sem á heima í Prjónakonuheiminum á Veraldarvefnum er að verða móðursystir. Hún er mjög spennt. Ég gæti sýnt ykkur myndir af barnafötunum sem hún er búin að prjóna en ég vil ekki stela frá henni. En ég get samt alveg sagt ykkur að þetta eru bleik föt þannig að systirin er alveg pottþétt að fara að eignast stelpu - eða ég vona það.

En alla vega þá er þetta ekki það eina sem þessi prjónakona hefur áhuga á. Hún er nefnilega líka í svona My Dexter swap package club með nokkrum öðrum prjónakonum.

Nýjasta Dexter Swap Package Club vinkona hennar - Megan, frá Seattle - sendi henni pakka í gær og hún var ekkert smá glöð. Í honum var eftirfarandi:

Ein sundurlimuð barbídúkka með eldrauðum naglalakksslettum
Ein plastsprauta
Einn hnífur
Einn pakki af sótthreinsandi klútum
Einn pakki af strimlum til að efnaprófa blóð eða piss kannski líka
Eitt par af einnota latexhönskum
Og ein hnota af mjög girnilegu prjónagarni


Ljóðrænir rukkarar í Grínville

Anna systir sendi mér þetta í gær:

Kæra sys!
langaði bara að senda þér einn af betri bröndurum bæjarstjórnarinnar hér í 810 Grínville. Þetta er auglýsing frá okkar háæruverðugu yfirvöldum sem birtist í Dagskránni um áramótin fyrir einverjum árum og ég hef ekki enn getað fengið af mér að henda af ísskápshurðinni minni.
kv. Anna Erla:

Kæri greiðandi fasteignagjalda!

Nú eru merk tímamót að renna upp. Þá er oft horft til baka um leið og skyggnst er til framtíðar. Látum ekki ógreidd fasteignagjöld verða til þess að spilla gleði okkar yfir því sem augun sjá.
Innheimtudeildin

Það er reyndar gaman að segja frá því að afi og amma í Hverahlíðinni höfðu það fyrir reglu alla tíð að gera allt upp fyrir áramót hversu tíkarlegt sem það var. Nýtt ár með hreint borð - tja ef maður gæti það nú!


Djöfull.....

......fannst mér ömurlegt að hlusta á hana Ingibjörgu Sólrúnu í Silfrinu í gær tala um að það verkefni sem brynni helst á stjórnvöldum að leysa núna væri að bæta lausafjárstöðu bankanna.

Bankarnir með KB banka í broddi fylkingar, eru búnir að taka þjóðina gjörsamlega í þurrt rassgatið með því meðal annars að fara offari á erlendum vettvangi og koma óorði á íslenska hagkerfið? Og svo eiga skattpeningarnir okkar að fara í að redda þessu máli!

Af hverju bauðst hún ekki bara til að fara heim til Sigurðar og skúra kofann hjá honum? Nú eða senda einhverjar verkakonur í það öllu heldur?
(Já já ég veit að þetta er ekki málefnalegt og voða naív og allt það - en mér er stórlega misboðið)

Það er ekki nóg með að stjórnvöld á Íslandi með Sjalfstæðisflokkinn í fararbroddi hafi gefið einkaaðilium bankana sem fólkið í landinu átti heldur horfðu þeir svo bara á hvernig fjármagni var dælt inn í samfélagið í fullkomnu ábyrgðarleysi.

Engar athugasemdir eða mótbárur komu svo frá ríkisheimilinu þegar bankarnir dunduðu sér við það að húkka gljáskeindann almúgann fastann með siðlausum ákvæðum um uppgreiðslugjöld á húsnæðislánum.

Mikið rosalega er ég orðinn þreytt á að láta traðka á mér.


Gaman að því!

Ég veit um fólk sem hefur gaman af grænmetisútskurði.

Svo er líka til fólk sem hefur gaman af því að fara í búning og vera einhver annar en það er í alvörunni. Sumt fólk þarf reyndar ekki búning til að skipta um gervi og svo er jafnvel til í dæminu að fólk hætti að vita hvort það er í þykjustunni eða ekki.

Sumt fólk vill líka verða stjórnmálamenn þegar það verður fullorðið á meðan sumir vilja alls ekki hætta að vera börn. Ég veit meira að segja um fólk sem er í stjórnmálum en er samt ennþá börn innan í sér.

Svo hefur mér verið sagt að það sé til fólk sem vill bara fara á fætur á morgnana og fara í vinnuna sína og vinna í 6-7 klukkutíma og fara þá heim og vera með fjölskyldunni sinni en samt eiga fyrir reikningunum.

Ég veit ekki hvort þetta síðasta er satt en ég hef gaman af fólki.


Hvar er þinn spegill?

Maður sem átti heima í rosalega stóru húsi og átti óvenju hægláta konu fór fram á faðernispróf af því að börnin hans 7 voru öll svo ljót.

Næsta síða »

Höfundur

Soffía Valdimarsdóttir
Soffía Valdimarsdóttir
Bara ég sjálf hvort sem ykkur líkar það betur eða verr!
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 56195

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband