Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júní 2009

Sumir eru kannski aðeins meira 2007 á því en aðrir........

Eiginmaðurinn og miðlungurinn flugu með Icelandair til London í morgun.

Góðvinur eiginmannsins kom því þannig fyrir að þeir sátu í flugstjórnarklefanum í flugtaki og lendingu en þess á milli gæddu þeir sér á Sagaclass-veitingum og nutu lífsins við videogláp og tímaritalestur. Miðlungurinn er æstur í að læra flug þannig að þetta er eins konar fyrsta kennslustund í náminu ef af verður.

Í fyrra fór þessi sami eiginmaður með frumburðinn til New York í rúman sólarhring á sömu kostakjörum. Þeir sem sagt skruppu í orðsins fyllstu merkingu út að borða í New York.

Við mæðgurnar reynum bara að hugga okkur við einhvern Bónus-gjörning á grillinu í kvöld þar sem það er ekki bjótt manni í geimið........

xxx

Fía litla

Fía litla


Kvennaljómi undir Kömbum

Það hefur vonandi ekki farið fram hjá neinum að blóma- og garðyrkjuhátíðin Blóm í bæ verður haldin um helgina í Hveragerði.

Þetta eru þó ekki Blómstrandi dagar sem haldnir verða síðustu helgina í ágúst, heldur er þetta ráðstefnu-, keppnis- og sýningarvettvangur fyrir fagaðila í græna geiranum. Það verður allt mögulegt um að vera sem glatt getur augu leikmanna. Víkingabrúðkaup á Fossaflöt skilst mér sé að verða heitasti viðburðurinn svona fyrirfram.

Allt er þetta stórskemmtilegt (en umdeilt í kreppunni vitanlega). Hins vegar finnst mér rétt að þið vitið líka - svona svo þið verðið ekki hrædd - að í litlu húsi undir Kömbum mun fara fram önnur ekki ómerkilegri hátíð. Þangað munu flykkjast brottfluttar meyjar á besta aldri með þau afkvæmi sín sem enn eru ekki farin að skammast sín fyrir að láta sjá sig með mæðrum sínum. Ekki á ég von á því að blómaskreytilist verði iðkuð á þessari samkundu svo nokkru nemi enda verða þáttakendur væntanlega uppteknir við þá iðju yndislega að kýla vambir og sálartetur af hjartans list.

Þannig að ef þið sjáið óvenju skæran bjarma lýsa upp himinn í efra þorpinu verið ekki hrædd. Þetta er bara kvennaljómi.

xxx

Fía litla


Nei, ég ætla ekki á Facebook!

Bara í gær spurðu þrír mig að því hvort ég ætlaði ekki á Fésið.

Að flykkjast á Fésið hver sem betur getur finnst mér bara ekki skömminni skárri hjarðeðlishegðun en sú sem leiddi til þess óskapnaðar að allt kvenkyns frá 0-95 ára gekk í lillabláu sumarið hérna um árið, og að allir tóku allt of mikil lán og keyptu, fellihýsi, fartölvur og flatskjái í hvert herbergi árið 2007.

Það getur vel verið að einhverjum finnist ég vera rammsnobbaður radical með snert af mikilmennskubrjálæði fyrir vikið en ég fer bara andskotann ekkert á Fésið!

xxx

Fía litla


Smámenni og önnur hvunndagsósekja

Um helgina kom ´guð´ í safnið mitt!
Hann var af þeirri gerðinn sem er með typpi hangandi framan á sér. Hann heldur greinilega að það gefi honum aukið vægi í tilverunni vesalings maðurinn.

Á innan við 10 mínútum (sem þó virtust a.m.k. 5 klukkutímar) sagði hann mér hvernig ætti að reka listasafn, hella uppá og draga að viðskiptavini almennt, Svo sagði hann tveimur guttum hvernig þeir ættu að leika sér með kubbana í krakkakróknum.
Að endingu vatt hann sér svo inn í sal og sagði tveimur blásaklausum konum á miðjum aldri allt um það hvernig ætti að taka ljósmyndir og þá um leið auðvitað hvaða mynda þær ættu og mættu njóta af þeim sem væru til sýnis í safninu og hvaða ekki. Hann sagði þeim skýrt og skilmerkilega hverjar væru fallegar og hverjar ljótar, hverjar væru vel teknar og hverjar ekki.

Ég hef ekki enn til dagsins í dag hitt nokkurn kvennmannsbúk sem vogar sér að haga sér með þessum hætti. Svona kallar eru hins vegar alltaf annað slagið að verða á vegi mínum.
Held bara hreinlega ég dræpi mig ef ég væri karll!

Hins vegar komu svo 4 bretar á sextugsaldri til mín í gær og vildu vita eitt og annað um efnahagsástandið hjá hinum almenna Íslendingi - hvort blankheitin væru í alvörunni eða bara í heimsfréttunum. Þeim fannst nefnilega svo skrítið hvað allir bílar á götunum væru nýir og flottir.

Já, sko - þeir voru nebblega keyptir 2007 útskýrði ég og reyndi að virka þokkalega greindarleg í þeirri annars víðáttu vandræðalegri stöðu sem mér fannst ég vera stödd í fyrir hönd minnar smánuðu þjóðar.

Það er gott að það sé kominn mánudagur með rigningu. Það heldur manni kannski réttu megin við strikið.
xxx
Fía litla


MND-dagurinn er í dag

Af því tilefni minnist ég nágrannakonu minnar, Maggýar, sem féll fyrir þessum hræðilega sjúkdómi í nóvember 2005.

Hún lifði lífi sínu í yfirveguðu rólyndi sem ég öfundaði hana oft af löngu áður en ég kynntist henni nokkuð að ráði. Ég sá hana fara hjá eldhúsglugganum mínum með stelpurnar sínar og skynjaði fumleysið og þolinmæðina sem þessi ágæta kona bjó yfir í svo ríkum mæli.

Þessir eiginleikar nýttust Maggý vel þegar sjúkdómurinn barði að dyrum. Hún bar harm sinn með reisn og styrkti tengslin við fjölskylduna og þá sem stóðu henni næst í stað þess að hrinda frá sér. Hún virtist sýna þessum vágesti sem MND er furðulegt umburðarlyndi og þolinmæði.

Ég þakka fyrir að hafa fengið að kynnast Maggý og læra af lítillæti hennar og gæsku. Öllum þeim sem berjast við MND og aðstandendum þeirra sendi ég ósk um góðar stundir og mildi í hjarta í erfiðum aðstæðum.

xxx

Fía litla


Stopp nú!

Skamm Soffía, skamm!

Nú bara má ég ekki kaupa neitt sem heitir garn meira í bili. Ekki eina einustu hnotu. Mér brá nefnilega í brún í gærkvöldi þegar ég fór í gegnum lagerinn á loftinu. Svo virðist sem á einum eða öðrum tímapunkti hafi ólíklegasta garn virst mér ómótstæðilega girnilegt, svo girnilegt að það varð að fylgja mér heim.

Þetta er orðið gott í bili. Nú þarf að virkja þessi hughrif sem urðu til þess að kortið flaug upp úr veskinu á sínum tíma í það að skapa eitthvað úr hráefninu.

Ef þú sérð mig í garnbúð þá endilega gríptu inni í og sláðu á fingurna á mér.

xxx Fía litla


Já, og til hamingju með daginn konur !

Ykkur órar ekki fyrir öllu því skemmtilega sem á daga mína hefur drifið undanfarna daga. Kannski af því að ég hef ekki nennt að blogga. Ég nenni því varla enn svo þið verðið bara að taka mig trúanlega.

Svo hefur auðvitað líka margt skelfilega vont og dapurlegt gerst að undanförnu, en ég er svo lánsöm í lífinu að ekkert af því hefur snert mig  og mína beinlínis að svo stöddu. Ég verð svo þunglynd og máttfarin andlega ef ég gef mig að öllum þeim hörmungum sem ganga yfir fólkið í landinu mínu þessa dagana að í eigingirni minni hef ég mikið til kosið að láta það liggja.

Þess í stað hef ég minnst þeirra sem á þurfa að halda í kyrrðarstundinni minni á hverjum morgni. Ég er svo einföld sál að ég trúi því að það geri gagn.

Svona bara ef þið ekki trúið mér hvað ég á gott líf þá skal ég til dæmis segja ykkur það í fréttum að ekki einasta á ég góða fjölskyldu mín megin heldur er tengdafamilían ekki síðri. Í gær kom ég heim úr heimsókn frá mágkonu minni í Önundarfirði þar sem slektið var saman komið til að fylgjast með örverpinu hennar lofa því á sjálfan þjóðhátíðardaginn að leitast við að hafa Jesús að leiðtoga lífs síns. Það var bara gaman og presturinn var ekki einu sinni leiðinlegur.

Svo slapp ég svona í kaupbæti við að verða vitni að þeim neyðarlega gjörningi að sjá þjóð mína halda upp á meint sjálfstæði sitt.

Lánið leikur við mig - og já, til hamingju með daginn í dag systur mínar allar um allt land!

xxx Fía litla


Helvítis fokking fokk!

Ég vaknaði því miður í vondu skapi í morgun.
Hef ekki hugmynd um af hverju.
(kannski af því að ég asnaðist til að lesa blöðin í gær, horfa á fréttirnar og svo Kastljósið í ofanálag. Djöfull er verið að taka mann hressilega í þurrt rassgatið þessa dagana - og sjálfsagt bara rétt að byrja !!!)

Kíkti svo í Moggann og Fréttablaðið og nú er ég brjáluð - alveg sjóðandi bandvitlaus í skapinu.
Mál og menning er að flytja og þá jafnvel burt af Laugaveginum!

Hvern fjandann á maður þá að vilja niður í bæ?
Í Iðu kannski til að kaupa pólitískt réttþenkjandi bókmenntaslys og túristabækur með harðspjöldum og krúttmyndum í bak og fyrir?

Andskotans, helvítis helvíti!
Fær ekkert að vera í friði í þessu fjandans gúanóríki?!

Farin að lesa um forspárgáfu völvunnar í Völuspá - kannski er einhverja svölun að finna í því - hvern fjandann veit ég!
xxx
Fía litla


Er kúkur köllun eða.......?

Halló fallega fólk!

Í dag hef ég eytt ófáum mínútum ef ekki klukkutímum í það að spa´í hvort það geti verið að ákveðnar starfsstéttir séu göfugri en aðrar. Drullu-skíta-plummera-meindýraeyðandi-stíflulosandi-kúkaskítakallar hafa verið mér ofarlega í huga í þessu sambandi svo ekki sé meira sagt.

Getur það verið að það séu markaðslögmál sem ráða því að sumir ákveða að gera það að ævistarfi sínu að smásjármynda rörin sem kúkurinn úr okkur hinum rennur um til sjávar?
Getur það verið að lögmálið um framboð og eftirspurn sé svona öflugt - bara náttúrlögmál eiginlega?

Nei ég spyr bara svona alveg úforvarendis af því ég veit ekki meir.

Eníveis - svo er ég líka búin að vera að pæla dáltíð í því svona í leiðinni hvort ég verði nokkurn tíma fullorðin.
Veit ekki alveg um það
xxx
Fía litla


Höfundur

Soffía Valdimarsdóttir
Soffía Valdimarsdóttir
Bara ég sjálf hvort sem ykkur líkar það betur eða verr!
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband