Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2008

Elsku fólk!

Vildi ekki láta það hjá líða að benda ykkur á að Pollýanna er komin út í endurútgáfu og ætti að vera í bókabúðum as we speak.

Smá Pollýönnu-speki:

Handalausa Pollýanna: Hey frábært nú þarf ég aldrei aftur að klippa neglurnar!

Fótalausa Polýanna: Engir fætur, enginn fótasveppur!

Atvinnulausa Pollýanna: Súper-dúber þá þarf ég ekki að kaupa nýjar rafhlöður í vekjaraklukkuna mína!

Vitlausa Pollýanna: Hva, þetta reddast!

xxx
Fía litla


Nei ekkert um typpi í þessum pósti

Ég er nýbyrjuð að lesa bók sem mér líst vægast sagt vel á.
Ný jörð eftir Ekhard Tolle er bókin og er skilst mér afar vinsæl víða um heim.

Hún byggir auðvitað á gömlum grunni eins og allt gott í veröldinni en er um margt nýstárleg. Eða að minnsta kosti er höfundurinn ófeiminn við að setja fram afleiddar hugmyndir sínar um breytt og betra mannkyn.

Það er alveg nauðsynlegt að lesa svona andlegt fóður við og við að ég tali nú ekki um í prófa- og ritgerðalotum.
Langaði bara að deila þessu með ykkur í morgunsárið
xxx
Fía litla


Hvernig ætli typpi komi að gagni við gjaldkerastörf í banka umfram til dæmis brjóst?

Gleymdi þessu smáræði í síðustufærslu.

xxx
Fái litla


Hvers virði ert þú?

Ég hef verið að velta því fyrir mér eins og sjálfsagt margir hvar verðmætin í landinu liggja í raun og hvernig megi nýta þau til bjargar.
Þá er ég ekki að tala um peninga heldur verðmæti.

Samkvæmt minni alþýðuhagfræði eru framleiðsuþættir þjóðar auðlindir hennar, framleiðslufyrirtækin eða vélakosturinn sem í þeim er og mannauðurinn sem felst í hvers kyns hugviti, þekkingu og vinnuafli öðru.

Nú bögglast dálítið fyrir mér satt að segja hvað það er sem nákvæmlega er skilgreinandi þegar kemur að því að verðmeta vinnuaflið. Er það greindarvísitalan, líkamlegur styrkur eða burðarþol manneskju, leiðtogahæfileikar, skipulagshæfileikar, færni í mannlegum samskiptum, menntun, færni á tæknisviði eða kannski heilbrigð skynsemi sem kemur til kasta þeirra sem skera úr um verðmat ?

Ætli það sé ekki sitt lítið af hvoru sem sker úr um það hversu verðmæt manneskja er og hlýtur það ekki líka að fara svolítið eftir því nákvæmlega hvaða verkefni henni er ætlað að leysa ?

Jú sennilega er þetta nokkurn vegin svona.

En hvernig stendur þá á því að þetta verðmat endurspeglast ekki í launum vinnuaflsins?
Hvernig stendur á því að tveir krakkar í framhaldsskóla eru ráðnir til afleysinga í segjum bankaútibúi úti á landi þar sem þau sitja hlið við hlið og vinna sömu störfin, allt eins - nema launin?
Hvernig stendur á því að hann fær um 35% hærri laun en hún?

Skoðum verðmatsforsendurnar aðeins:

Hefur hann hærri greindarvísitölu? Kannski en mér er ekki kunnugt um að sumarafleysingafólk fari í greindarpróf í atvinnuviðtölum.

Er hann líkamlega sterkari eða hefur meira burðarþol? Já það er ekki ólíklegt. Hins vegar er hæpið að það skipti miklu máli í gjaldkerastarfi í banka.

Hefur hann meiri leiðtogahæfileika, skipulagshæfileika, færni á tæknisviði, færni í mannlegum samskiptum eða er hans skynsemi heilbrigðari en hennar? Það má bara vel vera. Þó efast ég um að þessar upplýsingar allar saman hafi legið fyrir þegar þessir krakkar voru ráðnir til starfa.

Hvað er þá eftir? Já, að er menntunin. Hefur hann meiri menntun en hún? Nei þau eru bæði á framhalsskólastigi sem reiknast sem eitt skólastig samkvæmt öllum kjaratöflum sem ég hef séð óháð því á hvaða ári nemandi er nákvæmlega.

Hvað er það þá sem ræður þessu verðmati? Af hverju fær hann um 35% hærri laun en hún?

Nú er hann væntanlega ekki með brjóst. Getur verið að brjóst verðfelli fólk almennt? Nei sennilega ekki því það ku gefa vel í aðra hönd að sýna á sér brjóstin fyrir pening.

En hvað getur þá valdið þessu?
Eigum við kannski að skoða hvað það er sem hann hefur sem hún hefur ekki?
Mér dettur bara tvennt í hug: meira af líkamshárum, sérstaklega í andlitinu og svo typpi.

Aha - þetta hlýtur að vera svarið!

Ég sem sagt sem kona gæti hagnast verulega af því einu saman að verða mér út um aukin hárvöxt í andliti og typpi. hvað er nú til ráða?
Eitthvað minnir mig ég heyra um það í gamla daga að Nivea og jafnvel Atrix krem líka jyki hárvöxt. Eins það að raka sig reglulega, til dæmis á efri vörinni, það gæfi á endanum skeggrót.
Ókey þetta er reynandi - en þá vantar typpið.

Hvar fær maður typpi? Veit það einhver? Fær maður alvöru typpi við kynskiptaaðgerð? Er að dýrt? Geta allir farið í svoleiðis aðgerð sem óska eftir því? Er hægt að fá typpi án þess að fara í skurðaðgerð? Getur maður keypt typpi af dauðum manni og látið græða það á? Þarf typpið að vera lifandi og virka til að teljast alvöru? Gæti gervityppi kannski komið að sömu notum? Skiptir máli hvernig það er á litinn? Svart eða bleikt? Stórt, lítið, mjótt eða svert?
Eru öll typpi gjaldgeng? og svo framvegis og svo framvegis..................

Samkvæmt óútskýrðum launamun kynjanna á Íslandi í dag (18% síðast þegar ég vissi) skiptir stærð, litur eða lögun typpisins ekki máli. Það eina sem skiptir máli er að hafa svoleiðis hangandi framan á sér.

Athugið!
Typpi óskast fyrir lítinn pening. Nánari upplýsingar veitir undirrituð. Er í skránni.
xxx
Fía litla


Segið ykkur úr Samfylkingunni!

Á borgarafundinum í gærkvöldi stóðu nokkur atriði upp úr að mínu mati.

Fyrst og síðast auðvitað málflutningur Margrétar Pétursdóttur verkakonu sem var frískandi og kveikti vonir um að ekki sé öllu lokið.

Þorvaldur Gylfason er alltaf frábær. Minn heittelskaði eiginmaður vill fá þann mann í seðlabankann og deilir þeirri skoðun greinilega með Össuri Skarphéðinssyni. Sammála þeim um það.

Einar Már hins vegar talaði mínu máli umfram aðra í gær þótt svo mælska hans hafi kannski stundum verið meiri.

Hann sagði það skýrt sem ég hef verið að böglast við að tjá mig um á stundum að vonbrigðin með Samfylkinguna eru svo stór og mikil vegna þess að úr þeirri átt væntir maður heilinda, réttsýni og heilbrigðrar skynsemi.

Það gerir enginn heilvita maður slíkar kröfur á Sjálfstæðisflokkinn. Þjóðin veit að Sjálfstæðisflokkurinn er hagsmunasamband fjármagnseigenda og valdapósta í samfélaginu sem á rætur sínar að rekja allt aftur til Þjóðveldis. Við væntum einskis af Sjálfstæðisflokknum. Það eina sem hann hefur með sér er óljós aðkenning að sannleika þess efnis að Sjálfstæðismenn kunni betur að ávaxta peninga en annað fólk.

Nú hefur það verið afsannað í eitt skipti fyrir öll!

En hún Ingibjörg Sólrún Gísladóttir þarf verulega að fara að hugsa sinn gang.
Ég skældi í koddann minn daginn þann sem núsitjandi ríkisstjórn tók við völdum. Næstu daga var þungt í mér. Ég var sannfærð um eins og svo margir fleiri að þessi ráðahagur væri slæmur. Enginn mannlegur máttur getur snúið mér frá þeirri skoðun að við þær aðstæður sem voru uppi þá í íslenskum stjórnmálum var engin leið fyrir Samfylkinguna að ganga til þessa samkurls nema skilja við sig flest sín helstu stefnumál og þá um leið heilindi.
Sú hefur líka orðið raunin.

En Einar Már bað Ingibjörgu að leggjast nú undir feld sinn og breyta rétt. Svo gæti hún að fornra manna sið blótað nýfrjálshyggjunni á laun með Geir sínum. Hann bað hana að bregðast ekki fólkinu sínu.

Hann snupraði konuna fyrir okkur sem erum svekkt og sár út í Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur formann Samfylkingarinnar fyrir að bregðast þeirri vonarglætu sem vasklega framganga hennar á ýmsum tímum hafði kveikt með okkur sumum hverjum.

Nú er ég ekki lengur meðlimur í Samfylkingunni en ég skora á fólk í þeirra röðum að segja sig umvörpum úr flokknum og senda þannig þau skilaboð að ekki sé starfað þar af þeim heilindum sem til er ætlast. Skýrari skilaboð en úrsögn er ekki hægt að senda.

Sendið póst á samfylking@samfylking.is með úrsögn og örstuttri skýringu á ástæðum hennar
Ég skora á ykkur að hjálpa til við að koma flokksforystunni í skilning um að störf þeirra eru ekki þóknanleg félagshyggjufólki hvorki á vinstri vængnum eða miðjunni.

Með von um betri Samfylkingu og betra Ísland
xxx
Fía litla


Egill, fálkinn og fullorðnir karlmenn sem geta ekki hætt að leika sér.

Það er náttúrulega eitthvað stórkostlega mikið að ef Egill Helgason fær ekki Fálkaorðuna árið 2008 fyrir framlag sitt til eflingar og þróunar lýðræðis í landinu.

Ef að handboltastrákarnir áttu skilinn fálkann fyrir að leika sér á bankastyrkjum út um allan heim þá veit ég ekki hverjir eiga hann skilinn.

Það er auðvitað fyrirséð að nú munu í náinni framtíð einungis þeir stunda dýr sport sem virkilega hafa til þess ástríðu. það munu ekki margir verða til í að borga fullorðnum mönnum fyrir að leika sér í kreppunni.
Þetta er auðvitað stórgott mál.
Íþróttir munu jafnvel verða nákvæmlega það en ekki sá gróðavonarpyttur sem þær hafa verið í síauknum mæli undanfarna tvo áratugi eða svo.

Kannski að ég röfli aðeins um íþróttir fyrst ég er byrjuð......

Þegar ég var minni en ég er í dag bæði í sentimetrum og kílóum stundaði ég einar fjórar íþróttir líklega á einum eða öðrum tíma fyrir utan sund og leikfimi í skólanum.
Rósa frænka var reyndar orðin ískyggilega þaulsetinn gestur síðustu árin mín í grunnskóla en það er önnur saga og vandræðalegri.

Ég æfði sund í eitt ár og fannst það æðislegt.
Hætti þegar ég átti að keppa á móti númer tvö.

Ég æfði fimleika í ein þrjú ár.
Þurftum aldrei að keppa, bara halda skemmtilegar sýningar fyrir foreldra og nemendur einu sinni á ári.
Hætti þegar ég fékk þá flugu í höfuðið að sennilega væri ekki mjög pæjulegt að vera í fimleikum og lúðrasveit orðin þrettán ára gömul.

Svo æfði ég badminton með Guðnýju frænku í tæpan vetur.
Það var brjálæðislega gaman!
Það var svo brjálæðislega gaman að við pissuðum báðar niður oftar en einu sinni á æfingum á meðan Brynja og Kjartan Þór og Siggi bróðir voru að slást um titlana daginn út og daginn inn.
Hætti með látum og yfirlýsingum daginn áður en ég átti að keppa á fyrsta mótinu.

Að lokum æfði ég blak á Flúðum.
Varð skólameistari með mínum bekk (allt auðvitað af því að ég var svo góð - búin að læra reglurnar og allt)
Hætti þegar milliskólamótið átti að hefjast.

Nú er tvennt í stöðunni. Annað hvort var ég aumingi eða ég vildi fá að vera barn, njóta lífsins og ekki þurfa stöðugt að vera að sanna mig og mitt ágæti með stimplum annarra.

Mér er slétt sama hvað ykkur finnst
En ég hata keppnisíþróttir enn í dag.

Mér finnst að fullorði fólk sem vill leika sér eigi að standa straum af þeim kostnaði sem til fellur sjálft - og - mér finnst að Egill Helgason eigi að fá fálkann fyrir að vera það sem hann er: Stórkostlegur!

xxx
Fía litla


Davíð vs. Jón Ásgeir

Svona fyrst ég er farin að tala um óhefðbundnar refsiaðgerðir.

Væri ekki alveg hreint skrambi ídeal fyrir blóðþyrstan almúgann að við reistum stórt búr úr öryggsgleri á Austurvelli og settum þá félaga Davið og Jón Ásgeri þar saman og skelltum í lás?

Það er hægt að útfæra þetta á ýmsa lund svo öllum líki.

Til dæmis finnst sumu fólki gaman að súmóglímu þannig að þeir væru á fullorðinsbleyjum einum klæða.

Svo til að þóknast félagsvísindunum væri hljóðupptaka af samskiptum þeirra gerð svo hægt væri að gera rannsókn á atferli þeirra mannkyni til happs og heilla.

Nú svo eru það þeir sem hafa sérstakan áhuga á spontant-artmaking, ekki má skilja þá þá útundan. Því væri kjörið að skilja eftir hjá þeim skriffæri, pappír, hljóðfæri, pensla og liti.

Svo myndum við þjóðin geta skemmt okkur við a horfa á þá murka lífið hvor úr öðrum. Við gætum sett á stofn alþjóðlegan veðbanka því þetta er auðvitað hagsmunamál á heimsvísu.

Já og vitanlega myndum við bjóða á sérstaka hátíðarsýningu öllum þjóðarleiðtogum þeirra þjóða sem þessir aumingjar hafa tekið í þurrt rassgatið undanfarin ár. Sú sýning yrði á lokahnykknum, það er þegar annar dræpi hinn.

Ég sé reyndar beinar útsendingar, feitar sölur á sýningarétti = RÚV þyrfti ekki að manippulera áuglýsingamarkaðinn lengur. Hugsið ykkur allar gjaldeyristekjurnar. Og spennulosunina fyrir íslenskan alþýðulýð!

Rétt´upp hend sem fílar´etta!
xxx
Fía litla


Ég vil ekki sjá kosningar.

Eftir að hafa horft á Silfrið í gær held ég að við séum öll á miklum villigötum.

Það er vita tilgangslaust og úr öllu samhengi við valdastrúktúrinn í landinu að mótmæla fyrir framan Alþingishúsið fyrir nú utan að það er þar ekki nokkur kjaftur á laugardögum.

Mótmælin eiga að fara fram inni í höfuðstöðvum bankana. Það er nákvæmlega þar sem valdið er. þaðan er nú efnahagslegri framtíð einstaklinga, fyrirtækja OG RÍKISINS stjórnað. Þær ákvarðanir sem þar eru teknar ráðast af því hvaða hagsmunaaðilum þær geta þjónað í hverju einstöku tilfelli.

Af því að ég er nú svo gömul sem á grönum má sjá þá man ég vitanlega ekki hvað hann heitir viðmælandi Egils sem útskýrði svo snilldarlega í gær hvernig eignum félaga sem nú eru í eigu ríkisins (og þar með okkar allra) er ráðstafað. Það gengur þannig fyrir sig að án þess að spyrja kóng eða prest er gömlu hluthöfum þeirra leyft að kaupa hluti í hinu fallna félagi. Ekkert uppboð, engin útboð bara einkapartý.

Með þessu móti sitja skuldir félaganna (sem eru auðvitað ekkert annað en skuldir þessara umræddu hluthafa)
eftir hjá ríkinu - mér og þér - á meðan hinir nýju/gömlu félagar byrja alla hringavitleysuna upp á nýtt.

-----------Hvað er nú til ráða?----------------------

Ég legg til að þeir 63 þingmenn sem neita að víkja hvort eð er verði lokaðir inni í Alþingishúsinu eins og kviðdómendur í amerískri bíómynd og þeim ekki hleypt út fyrr en landi og þjóð hefur verið siglt út úr kreppunni.

Þeim til fulltingis er sjálfsagt að bæta við Davíð Oddsyni, restinni af stjórn Seðlabankans, gömlu bankastjórunum, helstu útrásarvíkingunum og stjórnendum Fjármálaeftirlitsins.

Ekki þarf að fara illa um mannskapinn. Bedda og eggjabakkadýnur á gólfin, skelegga ráðskonu í eldhúsið og grimman gangavörð legg ég til að genginu verði lagt til í úthaldinu.

Með þessu gætum við uppfyllt langþráðan draum eins af skósveinum frjálshyggjunnar. Björn Bjarnason ætti að gleðjast því til þess að áætlunin gengi upp þyrfti að virkja bæði víkingasveit og þann her sem hann hann á í leyni.

Það er kominn tími til að þið bragðið á eigin meðulum helvísk.
Þið hafið fangelsað fólkið í landinu og börnin okkar næstu áratugina og eigið sjálf skilið að dúsa fyrir þann verknað.

Fyrst engin sýnir auðmýkt eða vott af iðrun verður ekkert vasilín á Alþingi og húsvörðurinn grimmi verður enginn annar en STEINGRÍMUR NJÁLSSON.

xxx
Fía litla


Sex dagar ættu að duga.

Hún Marta smarta (sjoppueigandi í Hveragerði) sagði mér á dögunum að nú ætlaði hún að hafa lokað á fimmtudögum í einhvern tíma að minnsta kosti.

Já frábær hugmynd sagði ég og meinti það.

Lengi hefur mér þótt það álitamál að loka verslunum og þjónustufyrirtækjum almennt á sunnudögum. Þær hugmyndir hafa reyndar helst byggst á þeirri skoðun minni að hægja þurfi á samfélaginu og stuðla að betra og heilbrigðara fjölskyldulífi á Íslandi.

Núna hljómar þessi hugmynd sífellt betur og betur í mínum huga. Ekki bara það að sunnudagar yrðu þá vonandi fjölskyldudagar í stað Kringludaga áður heldur lækkaði þá líka launakostnaður fyrirtækja.

Annars er ég voða lítill hagfræðingur og veit ekkert um það hvaða raunáhrif þetta myndi hafa.
Held samt að Íslendingar upp til hópa eyði um efni fram og að þjónustustigið í landinu sé með því hæsta sem þekkist í heiminum.

Væri ekki góð lexía í nægjusemi bara að loka á sunnudögum til að byrja með?
xxx
Fía litla


Ást í kreppu

Í Mogga dagsins auglýsir Pilturinn eftir lágvöxnu smáfættu Stúlkunni sem hann var með í berjamó einn sunnudag í lok sumars.
Hjá honum á hún hvítt men á silfraðri festi ef hún vildi vera svo góð að hafa samband.

Við getum öll huggað okkur við það að lífið heldur áfram hvort heldur sem allt er í kalda koli eða ekki.

xxx
Fía litla


Næsta síða »

Höfundur

Soffía Valdimarsdóttir
Soffía Valdimarsdóttir
Bara ég sjálf hvort sem ykkur líkar það betur eða verr!
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband