Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2008

Ég er komin heim!

Vitiði, það er heill heimur þarna úti á Veraldarvefnum sem snýst bara um garn og prjóna og konur.

Þetta eru alls konar konur sem lifa alls konar lífi. Ein er til dæmis svolítið leið núna af því að pabbi hennar fór í segulómskoðun á föstudaginn vegna þess að krabbameinslyfjameðferðin er hætt að virka. Hún fær ekkert að vita fyrr en eftir viku að minnsta kosti. En hún prjónar bara þangað til. Það vildi svo heppilega til að hún fór í vikunni sem leið í uppáhaldsgarnbúðina sína og byrgði sig upp.

Hinar konurnar í prjónakonuheiminum eru sumar að biðja fyrir henni og pabba hennar og ein er byrjuð að prjóna kaskeiti handa pabbanum ef hann skyldi eiga eftir að missa allt hárið.

Nokkrar konur sem prjóna eru líka mjög hrifnar af súkkulaði og eiga Makka en ekki PC. Sumar eru svo hrifnar af þessu tvennu að þær eru búnar að stofna súkkulaði-skipti-klúbb á netinu og ein býr til flotta miða utan um súkkulaðið sem hún sendir systrum sínum í klúbbnum í mjög flottu Macforriti.


Skrítin skrúfa

Einu sinni vann ég með konu sem var - ja - ekki eins og fólk er flest skulum við bara segja. Hún var samt ósköp indæl og gerði ekki flugu mein.

Eitt af því sem var einkennilegt í fari hennar var að hún klippti alltaf neglurnar á annarri höndinni en lét þær vaxa á hinni. Mér fannst það ekkert merkilegt í sjálfu sér - gerði eiginlega bara ráð fyrir því að hún spilaði á gítar eftir vinnu. Svo einu sinni þegar undirbúningur fyrir jólaskemmtun í fyrirtækinu stóð sem hæst datt mér í hug að spyrja hana hvort hún tæki svo ekki bara gítarinn með svona til vonar og vara. Heyrðu þá kom það í ljós að hún spilaði ekki og hafði aldrei gert.

Þetta olli mér miklu hugarangri þannig að einn daginn lét ég bara vaða og innti hana eftir þessu með neglurnar. Jú sjáðu nú til - ég get sko ekki ákveðið hvort ég á að vera með langar neglur eða ekki þannig að ég er bara með bæði!

Svo var það annað með þessa skrítnu konu. Hún reykti dáltið mikið. En það var ekki það skrítna heldur það að hún gerði það af svo mikilli innlifun og með alls konar serimoníum svo maður þurfti að passa sig að glápa ekki á hana.
Til dæmis áður en hún kveikti í sígarettunni. Þá bankaði hún svona í borðið eins og margir gera en hún bankaði alltaf 3 sinnum, stoppaði, svo aftur 3 sinnum, stoppaði og svo bankaði hún hratt og svo oft að ég gat aldrei talið skiptin sama hvað ég reyndi. Það sem var samt skrítnast var að hún gerði þetta alveg vélrænt og var í hrókasamræðum jafnvel við fólki í kringum sig á meðan á þessu stóð.

Svo reykti hún þannig að hún tók rettuna aldrei út úr sér á meðan hún brann upp. Maður beið alveg í spenningi eftir því að askan dytti af og niður á fötin hennar eða borðið. Sem hún og gerði auðvitað fyrir rest og þá brást það varla að maður missti akkúrat af því.


Orlofsbeiðni til handa Sjálfstæðismönnum

Fyrir ári síðan eða þann 25. mars gekk ég um allan bæ hér í Hveragerði í leit að graffi. Ég fann nánast ekkert. Það litla sem ég fann var ekki eiginlegt graffití heldur svokallað tagg. Munurinn er sá að graffítí er stærra bæði að efnistökum og umfangi. Bæði afbrigðin eiga það þó sameiginlegt að vera sett fram í opinberu rými og nánast undantekningalaust nafnlaust.

Núna hins vegar er bærinn allur útkrotaður hvar sem litið er. Það er sama er að sjá í Reykjavík þótt svo það sé ekki nýtilkomið eins og hér. En það er hins vegar mun meira núna heldur en nokkurn tíma áður.

Þetta er stórmerkilegt fyrirbrigði og full ástæða til þess að spá í það hvað veldur. Ég skil reyndar vel að þeir borgarar sem lenda í því að einvher taggar á útidyrahurðina á húsinu þeirra í skjóli nætur hafi ekki sérlega mikinn áhuga á að velta fyrir sér þeim samfélagslega lærdómi sem draga má hugsanlega af athæfinu - en það er greinilegt að eitthvað liggur í loftinu akkúrat núna sem skýrir þetta.

Tíska er auðvitað það fyrsta sem manni dettur í hug. En þetta er ekki svona einfalt. Graffití og tagg eiga það sameiginlegt að vera pólitísk athöfn í þeim skilningi að þrátt fyrir að um bein skilaboð sé ekki að ræða í formi yfirlýsingar til dæmis um ríkisstjórnina - þá er markmiðið alltaf að taka sér félagslegt vald sem einstaklingur í opinberu rými.

Þetta segir okkur það að sennilega er aukin tilhneiging akkúrat núna til að mótmæla þeim skráðu og óskráðu reglum sem gilda í samfélaginu um eignarétt og skilin á milli opinbers- og einkarýmis.

Mér finnst augljóst hvað er að gerast.

Áherslan á efnisleg gæði, eignarétt og skilyrislaust vald þeirra sem eiga meira en aðrir er orðin til þess að pöpulinn kýs að láta óánægju sína i ljós. Það gerir hann meðal annars með því að rjúfa mörkin á milli hins opinbera og þess sem er einka og skrifa í ´´stóru gestabókina´´ En hún er einmitt staðsett á mörkum þessara rýma: útveggir einkaheimila og fyrirtækja, sem sagt það sem ber fyrir augu vegfarenda sem eiga leið um sameiginlega rýmið í einhverju tilteknu bæjarfélagi.

Þetta er sennilega ekki meðvitað hjá þeim sem yngstir eru til dæmis, en atferlisfræðilegar rannsóknir í bland við þjóðfræði, mannfræði og fleiri félagsvísindi hafa sýnt að þetta er alþjóðlegt fyrirbrigði - eins konar varnarháttur þeirra sem minna mega sín.

Hefur þeim sem minna mega sín ekki bara fjölgað svona mikið undanfarin ár?
Hverjir hafa setið við eldakatlana að undanförnu?

Er ekki tími kominn á að gefa Sjálfstæðisflokknum frí ???


Vantar þig hefndargjöf en kannt ekki að reisa níðstöng? Ég á kettling - hafðu samband.

Kettlingarnir hennar Klöru keppast við að stækka þessa dagana. Krakkakvikyndin mín tjáðu mér það í morgun að einn væri búinn að opna augun.

Já er það svaraði ég og þóttist vera mjööög upptekin akkúrat það augnablikið. Ég óttast nefnilega meira en allt annað að þeim takist að kjafta mig inn á að fara að halda á þeim. Þá verð ég alveg í rusli yfir því hvað verður um grey-kvikyndis-ógeðin litlu.

En örvæntið ekki. Klakakvendið tórir um sinn. Mér er nefnilega enn sem komið er mun umhugaðara um örlög og afdrif húsgagna og innanstokksmuna en þriggja lítilla úrkynjaðra villikattaafkvæma sem nóg er til af í veröldinni og eru sjálfsagt fleirum til ama en gleði.

Grunnhyggni segir kannski einhver. Já en ég er bara svona innréttuð. Málið er ekki að ég sé eitthvað sérstaklega hænd að húsgögnunum mínum. Það er kannski miklu heldur það að ég hvorki nenni né vil þurfa að endurnýja bráðnauðsynlega hluti eins og sjónvarpssófann og hurðagerefti. Allt til þess að einhverjar þrjár fjölskyldur geti fengið sinn hvern kettlinginn til að sóða út hjá sér og laða að breimandi kattager með tilheyrandi óþrifnaði, hávaðamengun og ógeðsstybbu.


Vorið er komið

Og það glittir held ég bara í sumar líka hér í Hveragerði.

Alla vega finnst mér gaman að segja frá því að í local-blöðunum mínum í dag eru margar fréttir frá Hveragerði og það er óvenjulegt. Það sem er þó bæði óvenjulegra og sérstaklega skemmtilegt er að þær eru næstum allar jákvæðar og skemmtilegar.

Svo sá ég í morgun að það er farið að sjá í brum á trjánum í garðinum mínum.


Ísland í dag

Sumt fólk er svo fallegt að það þarf að fara inn á uglypeople.com til að jafna sig!

Sumt fólk er svo fallegt að það ætti að fá hærri laun en þessir ljótu!

Sumt fólk er svo fallegt að það getur ekki unnið!

Sumt fólk er svo fallegt að það þarf ekki að fara í skóla!

Sumt fólk er svo fallegt að það lærir aldrei að hugsa!

Sumt fólk er svo fallegt að maður grætur!

Sumt fólk er svo fallegt að Guð grætur!

Sumt fólk er svo fallegt að það tekur upp Lipstick Jungle!

Sumt fólk er svo fallegt að annað fólk vill kaupa það!

Sumt fólk er svo fallegt að það er til sölu!

Sumt fólk er svo fallegt að það vill ekki deyja!

Sumt fólk er svo fallegt að það ætti að vera í formalíni!

Sumt fólk er svo fallegt að það kýs alltaf Sjálfstæðisflokkinn!


Fylgishrun

Það kom fram samkvæmt skoðanakönnun Fréttablaðsins í dag að Samfylkingin hafi tapað um 9% fylgi.

Skyldi engan undra.

Það er alveg á hreinu að Samfylkingin hefur algerlega brugðist. Það skiptir engu hvort umhverfismál og þá stóriðjumál eru til umfjöllunar - tómt helvítis fokk og aumingjaskapur.

Ingibjörg Sólrún veldur mér þó meiri vonbrigðum en flest annað þessa dagana. Að heyra í henni og Geir Haarde í símavitali á dögunum einhvers staðar sunnan úr rassgati - Afganistan held ég svei mér þá - nota orðið VIÐ hvað eftir annað í merkingunni íslenska þjóðin í samkurli við hinar viljugu þjóðir sem heyja þetta stríð.

Ég held hún ætti að skammast heim til sín og taka til á stjórnarheimilinu heldur en að vera að þessu andskotans rugli. Ég get ekki ímyndað mér að Geir geri það - aðgerðaminnsti forsætisráðherra allra tíma.

Þetta fyrirgef ég ekki í bráð. Og að tveir (ég þori ekki að nota það orðbragð sem ég helst vildi um þá hér) kallar skyldu á sínum tíma voga sér að setja MIG á lista yfir þá sem vildu heyja þetta guðsvolaða stríð - það fyrirgef ég aldrei.

Og hvern fjárann er þetta fólk að vilja með að leggja ofuráherslu á kjör í öryggisráð hinna vitagagnslausu og máttlausu Sameinuðu þjóða þegar hér stendur ekki steinn yfir steini í efnahagsmálum þjóðarinnar. það er eins og það megi hvergi glitta í valdastöðu þegar sumt fólk er annars vegar þá missi það gjörsamlega allt vit og velsæmistilfinningu.

Skammist ykkar bara og gerið eitthvað í því að forsendur nýgerðra kjarasamninga bresti ekki heldur en að bjóða manni upp á þennan andskotans þvætting!

Nei, Samfylkinguna kýs ég ekki í næstu kosningum eins og ég gerði síðast - nú er það bara hard core vinstripólitík og ekkert helvítis hálfkák - ég kýs Vinstri græna næst og ég skora á ÞIG að gera það líka.


Ekki bara hægt að taka

Ég ætla ekki að fara að tjá mig neitt um innflytjendamál hérna svo það sé á hreinu.

Er búin að fá svo mikð ógeð á pólitík í augnablikinu að ég veit ekki hvort það jafnar sig. Meira að segja Ingibjörg Sólrún (sem var nú til skamms tíma mitt vonarblik í pólitísku hóraríi þessarar vegavilltu nýríku gerspilltu og sjálfhverfu þjóðar,þar sem ég er vinstrisinnaður umbótasinni sem hallast inn að miðju) er svoleiðis búin að drulla upp á hnakka í utanríkismálum að það er leitun að öðru eins fokki.

Mig langar hins vegar svona rétt að nefna það að framtíðarspár í atvinnumálum á Íslandi gera ráð fyrir að erlent vinnuafl muni þurfa að aukast um 5-15% á ári í einhver ár miðað við núverandi forsendur. Þetta hefur ekkert með það að gera hvort um frekari stóriðjuframkvæmdir verður að ræða eða ekki.

Málið er að Íslendingar eru hættir að nenna að fjölga sér. það skerðir líklega lífsgæðin að vera með fleiri en 2 börn pr. 300 fermetra fyrir nú utan þá skelfing að brjóstaskorurnar gætu hugsanlega eitthvað aflagast. Þess vegna eldist þjóðin hlutfallslega með hverju árinu.

Hvernig ætlar ÞÚ að taka á móti þeim sem eiga að koma hingað til lands svo að þú og þínir geti haldið áfram að fá topp heilbrigðisþjónustu og ókeypis háskólamenntun???


Þegar allir hugsa eins

Alveg er það hrikalega frústrerandi við ritgerðarvinnu að maður fær alltaf einhverjar hugmyndir sem búið er að mjólka svolieðis gjörsamlega til fulls að það er ekki á það bætandi.

Og þá er maður aftur á byrjunarreit nema hvað.

Núna til dæmis er ég að hita upp fyrir ritgerð um Hrafnkels sögu Freysgoða. Kenningar um munnlega hefð eru í forgrunni svona rétt eins og það sé ekki nógu strembið að fjalla um boðskap, persónusköpun eða stíl eða eitthvað álíka meðfærilegt.

Svo les ég textann sjálfan auðvitað fyrstan af öllum tiltækum heimildum í stöðunni. Bráðskemmtileg saga alveg hreint. Nú og þá er svona það eina sem situr eftir að sennilega sé nú þetta saga sem styrki ríkjandi samfélagsgerð með því að gera lýðnum ljóst að einu sinni höfðingi verði alltaf höfðingi og eins með smælingjana. Þannig sé nánast lífræn skipan fyrir hendi sem sé fyrirfram ákveðin og ekki orð um það meir.

Heyrðu! Haldiði að ég sé ekki bara búin að rekast á þessa röksemdafærslu sem meginstoð í annarri hverri heimild sem ég hef blaðað í til þessa.

Þar fór það ritgerðarefni fyrir lítið - andskotinn.


Komin yfir lystugt!

Einn félagi okkar úr Dölunum tók svona til orða um konuna sína þegar það var til umræðu að hún væri alveg að detta í fertugt - Jæja nú er kellingin bara að komast yfir lystugt!

Hann lifði af.

Óli hefur ekki látið sér neitt þessu líkt um munn fara í dag - ekki enn alla vega, eða ekki svo ég viti.
En ég er sem sagt fjórirnúll ára frá og með deginum í dag og allt þar til 18. apríl á næsta ári.

Það einkennilega er að akkúrat í dag er mér drullusama. En ég er búin að vera á svakalegum bömmer alveg frá því um jól í það minnsta. Það er fullt af fólki búið að segja mér að nú byrji fjörið eins og það sé eitthvað málið. Mig langar ekkert í neitt fjör. Ég vil bara hafa nógan tíma til að læra meira og meira og meira og meira - og hafa tíma til að gera öll mistökin sem þarf að gera - og svo tíma til að leiðrétta þau - og ..................................

Baráttukveðjur
Fía litla


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Soffía Valdimarsdóttir
Soffía Valdimarsdóttir
Bara ég sjálf hvort sem ykkur líkar það betur eða verr!
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 15
  • Frá upphafi: 56233

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 14
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband