Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Bloggar

Stutt gaman skemmtilegt!

Stóra barnið mitt er á leiðinni heim.

Hann hefur verið í Austurríki á námskeiðum vegna fyrirætlaðs starfs við snjóbrettakennslu í Skíðaskóla í Ölpunum. Þeir hafa verið saman tveir Íslendingar og Hollendingur.

En svo í vikunni kom á daginn að það er ekkert að gera í þessum skíðaskóla.
Stórlega hefur dregið úr pöntunum.

Það er sem sagt kreppa þar líka. Færri foreldrar hafa ráð á að senda krakkana sína í skíðaskóla en áður.
Austurríska skíðasambandið gaf þær upplýsingar þegar þeir leituðu þangað eftir annarri vinnu að mun minna væri að gera núna en undanfarin ár svo það væri ekkert í boði nema uppvask og herbergjaþrif.

Eins gott og minn hefði nú haft af því þá eru launin svo lág að það er ekki viðunandi. Nú þarf að þéna og borga kostnaðinn af ævintýrinu. Þá er ekkert annað en að koma heim á hótel mamma.

Sem sagt bílfarmainnkaup í Bónus aftur á dagskrá,
en samt gott að fá púkann heim um jólin og allt það

xxx
Fía litla


Prjónakonu-jólalag

The 12 Days of Knitmas!

On the first day of Christmas
My true love sent to me
A Universal sweater machine.

On the second day of Christmas
My true love sent to me
Two turtle necks
And a Universal sweater machine.

On the third day of Christmas
My true love sent to me
Three French knits
Two turtle necks
And a Universal sweater machine.

On the fourth day of Christmas
My true love sent to me
Four needle sets
Three French knits
Two turtle necks
And a Universal sweater machine.

On the fifth day of Christmas
My true love sent to me
Five cashmere goats!
Four needle sets
Three French knits
Two turtle necks
And a Universal sweater machine.

(Moving right along)

On the [twelfth] day of Christmas
My true love sent to me
12 thrummers thrumming
11 purlers purling
10 llamas leaping
Nine knitters shopping
Eight bitches stitching
Seven hookers hooking
Six raglans blocking
Five cashmere goats!
Four needle sets
Three French knits
Two turtle necks
And a Universal sweater machine.


Helvítis jólakortin!

Eitt af því sem mér leiðist alltaf alveg hrikalega að gera fyrir jólin er að skrifa jólakortin.

Einu sinni fannst mér það rosa gaman. Bjó alltaf til stemmningu í kringum þessa athöfn og fór í málið í tíma.
En nú er öldin önnur. Ég fárast við að skrifa þau á síðustu stundu. Geng svo um með samviskubitshnút í maganum vegna þess að ég óttast að viðtakendurinir fái ekki afhent fyrr en milli hátíða og skilji þá hvernig allt er í pottinn búið.

Svona er maður nú hégómlegur og lítil sál eftir allt saman.

Nema hvað..............
Svo er alltaf gaman að fá jólakort!

Reyndar eru jólakortin eitthvað sem ég vildi alls ekki vera án um jólin. Hjá okkur er sá háttur hafður á að snemma í desember strengjum við band á milli tveggja nagla a vegg inn á gangi. Svo þegar jólakortin fara að berast fara þau jafnóðum klemmast þau jafnóðum á snúruna með þvottaklemmum - sko án umslagsins.

Með þessu móti erum við að minnast þeirra sem við þekkjum allan desember en ekki bara á aðfangadagskvöld þegar allar móttökurásir í toppstykkinu eru lamaðar af ofáti og tilfinningadeyfð því ríkjandi ástand.

Svo eru til kort sem mann hlakkar alltaf til að fá.
Það er ekki síst kortið frá Huldu (810 hér á blogginu) og Hannesi. Í því er nefnilega alltaf frumsamin jólavísa á hverju ári.

En allt á sér margar hliðar í henni veröld og jólakortin eru engin undantekning.

Í gær kom hið árlega jólakort frá Gunnu stöng og co.
Gunna stöng var með mér í 11 ára bekk. Viðurnefnið fékk hún vegna þess hve mjóslegin hún var á þeim tíma. Þið sem ekki eruð komin af barnsaldri vitið kannski ekki að Gunna stöng er kærasta Stjána Bláa sem var daglegur gestur á þeim heimilum sem keyptu Moggann í gamla daga.

Við Gunna urðum miklar vinkonur þetta ár og höfum alltaf vitað af hinni síðan. Nú síðustu árin reyndar með títtnefndum jólakortum.

NEMA HVAÐ........ Á kortinu í ár er mynd af Gunnu og eiginmanninum, Unnari litla og Ragnheiði Helgu og dóttur hans frá því áður. En svo er þarna líka fullvaxinn karlmaður (eða annað er ekki að sjá svona af myndinni) sem ég kann engin deili á.

Getur verið að þetta sé svona opið og frjálslegt samband?
Verð ég ekki bara að hringja í hana Gunnu?
Eða hvað?
xxx
Fía litla


Finnst ég bara verða að gera þessa játningu áður en ég fer í háttinn!

Ég horfði ekki á Silfrið á sunnudaginn og ég hef ekki horft á fréttir í þrjá daga.
Í dag skoðaði ég bara menningarumfjöllun og störnuspá og sjónvarpsdagsskránna í Mogganum.

Gerðist hamhleypa til verka, bakaði og bjó til konfekt og undirbjó sultu/chutney/smjör- gerð fyrir morgundaginn.

Er samt dáldið hrædd um að ég fari til helvítis út af þessu skeytingaleysi..........
Sjáumst
xxx
Fía litla


Fallegur en leiðinlegur maður = stórslys!

Ég hitti svo hrikaleiga leiðinlegan mann um helgina að ég veit þið trúið því ekki!
Það sem meira er, ég þurfti að tala heillengi við hann þótt mér væri það þvert um geð. Stöðu minnar vegna í þessu tilfelli gat ég ekki staðið upp og hundsað hann.

Hann er litlu eldri en ég.
Fyrrverandi Hvergerðingur.
Þótti svívirðilega myndarlegur og þykir sjálfsagt enn. Hefur veit ég farið nokkuð langt á lúkkinu en á að baki 3 misheppnuð hjónabönd.
Ég er ekki hissa - það er ekki hægt að vera nálægt svona köllum!

Hann er ógeðslega montinn.
Einn af þessum mönnum sem halda að þeirra köllun í lífinu sé að kenna konum sitt lítið af hverju um það hvernig veröldin snýst.

Það skelfilegasta af öllu var svo að mamma hans var á staðnum og mændi aðdáunaraugum á afkvæmið allan tímann. Allt sem hann sagði tók hún undir annað hvort með jáum eða látbragði.
Ég hélt í alvöru að hún myndi standa upp á einhverjum tímapunkti og laga á honum hárið eða eitthvað.

Hræðilega á sumt fólk bágt!

Er sjálfsbyrgingsháttur ekki bara það ömurlegasta sem nokkrum manni getur lagst til á lífsleiðinni?
Það er alla vega fötlun að vera svona hryllilega leiðinlegur.

Viljiðið segja mér frá því ef ég er svona svo ég geti brugðið mér afsíðis og klárað þetta.
xxx
Fía litla


Segið ykkur úr Þjóðkirkjunni!

Jæja þá er runninn upp laugardagur fínn og fagur.

Smá hugmynd til ykkar sem eruð ósátt:

Ég hef áður lagt til að fólk segi sig umvörpum úr Samfylkingunni. Nú legg ég tvennt til.
Segið ykkur úr Sjálfstæðisflokknum!
(veit að þetta er mun róttækara en að segja sig úr S þar sem hjarðeðlið er sterkara þarna mengin)

En helst af öllu SEGIÐ YKKUR ÚR ÞJÓÐKIRKJUNNI!

Þetta segi ég ekki bara af því að ég sé svo mikill rebel. Nei heldur vegna þess að þessi stofnun sem þjóðkirkjan er er einn af valdastólpum samfélagsins frá fornri tíð. Þar fyrir utan er hún sterklega tengd íhaldsöflum Vestrænna ríkja bæði sögulega og hugmyndafræðilega.

Þið getið trúað á Jesú Krist alveg bara eins mikið og þið viljið en samt sem áður sagt ykkur áhyggjulaus úr manngerðri stofnun eins og Þjóðkirkjunni. Jesús býr ekki þar!

Að gefa frat í stofnanir er það eina sem við getum gert í stöðunni. Við getum hundsað verslanir og fyrirtæki. Við getum hins vegar ekki snert Alþingi að því er virðist því það hefur verið tekið af þjóðinni. Við þurfum að sætta okkur við að fólkið sem situr þar hefur tekið valdið sem við gáfum því og misnotað það. Við getum ekki hróflað við dómstólum þar sem það er utan okkar lögsögu. Við getum ekki hróflað við neinu sem heyrir undir ráðuneytin af sömu ástæðu.

En við getum gefið skít í batterí eins og Þjóðkirkjuna.
Fjöldaúrsögn myndi skipta máli.
xxx
Fía litla


Þjóðin og fræðin

Þessar vísur sendi hún Tóta frænka mér.
Þær eru einn af þessum textum/afurðum þjóðarinnar sem enginn á en allir skilja. Hverjum sem er er heimilt að taka slíkan texta í sína þjónustu. Enginn takmörk eru fyrir endursköpunarmöguleikunum. þar sem höfundurinn er enginn er frelsið algert.

Svona er þjóðfræði skemmtileg.

.
Glitnisgaur kom fyrstur,
gráðugur í öll bréf.
Hann laumaðist í vasana
og lék með fólksins fé.

Hann vildi sjúga þjóðina,
-þá varð henni ekki um sel,
því greyið var sko afæta,
-það gekk nú ekki vel.

2.
Björgúlfsaur var annar,
með gráa hausinn sinn.
-Hann skreið úr skipi hafsins
og skaust í bankann inn.

Hann faldi sig í Rússlandi
og froðunni stal,
meðan bjórmeistarinn átti
við Yeltsín gamla tal.

3.
Bjármann hét sá þriðji,
böðullinn sá.
Hann krækti sér í milljarða
þegar kostur var á.

Hann hljóp með þá til Noregs
en hirti ekki um sjóðina,
sem féllu hver af öðrum
við sjáum núna slóðina.

4.
Sá fjórði, Bændasleikir,
var fjarskalega sljór.
Og ósköp varð hann leiður,
þegar bankadruslan fór.

Þá þaut hann eins og Welding
og þotuna greip,
og flaug með henni í London
því krónan var svo sleip.

5.
Sá fimmti Smárasnefill,
var skrítið fjármagnsstrá.
-Þegar hinir fengu í nefið
hann barði dyrnar á.

Þeir ruku'upp, til að gá að
hvort gestur væri á ferð.
Þá flýtti' ann sér að pokanum
og fékk sér góðan verð.

6.
Sá sjötti Sigjónárna,
var alveg dæmalaus.-
Hann framundan rústunum
rak sinn ljóta haus.

Þegar fólkið vildi skýringar
á auralausum reikningum,
hann slunginn var að afsaka
og skyldi ei neitt í hlutunum.

7.
Sjöundi var Heiðarmár,
-sá var sjaldan sýndur,
ef fólkið vildi tal af 'onum
hann var alltaf týndur.

Hann var ekki sérlega
hnugginn yfir því,
þó þjóðarskútan maraði
þá hálfu kafi í.

8.
Baugabur, sá áttundi,
var skelfilega þver.
Hann hluta keypt'af bönkunum
með hluta úr sjálfum sér.

Svo lánaði hann sér milljarða
og yfir öðrum gein,
uns stóð hann á blístri
og stundi og hrein.

9.
Níundi var Nógafaur,
næmur á fé og snar.
Hann hentist út um heiminn
og hluti keypti þar.

Á enskum bita sat hann
í símaleik
og át þar hluti drjúga,
enga Breta sveik.

10.
Tíundi var Skallakjaftur,
tungulipur mann,
sem hamaðist á landslýð
og æsti upp hann.

Ef vammlegt var hvergi
né ósiðlegt að sjá,
hann oftast nær seinna
í það reyndi að ná.

11.
Ellefti var Stjórnaskelfir
-aldrei fékk sá kvef,
og hafði þó svo hláleg
og heljarstór eyru og nef.

Ef fnyk af féhyggju
ekki hann fann,
þá léttur, eins og reykur,
lyktina upp spann.

12.
Sólráður, sá tólfti,
kunni að spinna vef.-
Hann þingmannasveitina
sveigði í kosningaþref.

Hann krækti sér í fylgi,
þegar kostur var á.
En stundum reyndist enginn
akkurinn hans þá.

13.
Þrettándi var Kreppugeir,
-þá var komið kvöld,
alltaf kom hann síðastur
á bankahrunsöld.

Hann blekkti litlu börnin sín,
sem mótmæltu prúð og fín,
og trítluðu um bæinn
með spónaspjöldin sín.

xxx
Fía litla


Jólalegt jólafrí!

Ég veit ekki um ykkur en ég er komin í jólafrí frá því fyrir þremur mínútum síðan!
Þarf reyndar að vinna svolítið en það er bara skemmtilegt.

Nú get ég sem sagt farið að græja jólin. Mér minnir að maður setji upp aðventukrans og þrífi jafnvel rúður og gler á þessum árstíma. Eins hef ég heyrt um smákökubakstur og ætla að kynna mér það nánar.

Miðlungurinn minn spurði mig í kvöld hvort ég ætlaði ekki að halda upp á að vera komin í jólafrí. Ég þurfti ekki að hugsa mig um. Ég ætla að fara á fætur í fyrramálið og taka húskofann í gegn!
Það eru forréttindi að geta gert það á meðan aðrir vinna í hausinn á sér eins og almennilegt fólk.

Annars er ég bara brjálæðislega galin og glöð í augnablikinu............
xxxxxxxxxxxxxxxx
xxxxxxxxxx
xxxxxxxxxxxxxxxxxxxxxxxxxxxxxx

XXX
Fía litla


Sumir dagar.......

.......eru öðruvísi.

Dagurinn í dag er held ég einn af þeim.
Það hefur svo margt óvenjulegt gerst í dag og samt er klukkn bara 11:36.

Í dag vaknaði ég á undan eiginmanninum. Eins og það sé nú ekki alveg hreint frímerkilegt útaf fyrir sig þá fór ég líka framúr á undan honum!
Já ég sver að þetta er satt.

Svo fór ég í sturtu, skaust í bakaríið og borðaði morgunmat alein með Mogganum.
Það hefur ekki gerst í einhver ár held ég bara.

Svo var grapesafinn sem ég kreysti í morgun svo brjálæðislega góður að ég er bara alveg sannfærð um að þetta verður einn af þessum dögum. Þegar eitthvað er svona stórkostlegt þá bara getur ekki annað verið en að maður hafi hitt á töfrastund. Þið sem hafið ekki lært að elska grapesafa getið huggað ykkur við að þið eigið þess enn kost að upplifa að minnsta kosti eitt stórkostlegt fyrirbrigði til viðbótar. Það bara bíður eftir ykkur.

Ég sendi ykkur smá augnablik af töfrastundinni minni - núna!
xxx
Fía litla


Er til í að prjóna fyrir blek!

Fór í búðir í dag. Hef ekki gert það lengi. Það var sjokkerandi.

Að lesa um verðhækkanir er ekki það sama og að upplifa þær á buddunni.
Pappír í prentarann kostaði í dag ódýrastur 945 en síðast þegar ég keypti svoleiðis var hann á um 500 kallinn.
Svo ætlaði Jónheiður að kaupa sér gullpenna fyrir jólakortaskrif og önnur huggulegheit. Ódýrasti sem við rákumst á kostaði 685 krónur!

Ég fór fyrst og fremst í ritfangaverslanir af því að mig vantar svo blek í prentarann minn.
Heyrðu það er bara hvergi til!

Í einni búðinni var eftirfarandi tilkynning við blekrekkann: Athugið! Aðeins tvö hylki pr. einstakling.
það er sum sé vöruskortur lika.

Athyglisvert reyndar hvernig áherslurnar breytast eftir samfélagsgerðinni. Nú er það ekki rúgmjöl sem sárlega vantar í hvert kot heldur prentarablek.

En alla vega, er til í að prjóna fyrir prentarahylki af gerðinni HP 21.
Elsk´ykkur öll
xxx
Fía litla


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Soffía Valdimarsdóttir
Soffía Valdimarsdóttir
Bara ég sjálf hvort sem ykkur líkar það betur eða verr!
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband