Færsluflokkur: Bloggar
4.12.2008 | 13:00
Eitthvað er undarlegt í þessu öllu saman!
Ég hef satt að segja sjaldan verið eins herfilega kjaftstopp og í dag - reyndar í tvígang.
Fyrst þegar ég sá forsíðu Moggans með hótun Davíðs um endurkomu í pólitík og svo þegar fregnir bárust af því að hann bæri fyrir sig bankaleynd.
Nú get ég ekki orða bundist.
Eins hallærislegt og það kann að vera að vera með samsæriskenningar þá bara verð ég að spyrja:
Hvaða tök hefur Davíð Oddsson á valdamiklum einstaklingum þessa lands, svo valdamiklum að það er ekki óhætt að hrófla við honum???
Maðurinn er vissulega fársjúkur og það má ekki vera vondur við aumingja en þetta er orðið gott!
xxx
Fía litla
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
3.12.2008 | 18:49
Bara svona af því að ég veit að þið hafið svo gasalega mikið við þessar upplýsingar að gera.......
.........þá ætla ég rétt sem snöggvast að öskra hérna smá upplýsingar um stöðu mála í turnherberginu.
Er nefnilega í þessum töluðu orðum að ljúga saman síðustu ritgerð annarinnar. Hún á að hafa eitthvað með norræna trú að gera. Okey faire enough eins og konan sagði.
En þar sem mér er gjörsamlega þrotinn allur móður og þessi ritgerð á að vera heldur styttri en ég er vön þá er ég í miklum vanda. Það er ekki svo ýkja mikið mál að ljúga sig út úr 15-20 síðna skrifum. Þá getur maður sagt það í löngu máli sem maður hefur ekki greind eða getu til að sjóða niður í tvær til þrjár málsgreinar.
Það er bara tvennt í stöðunni núna:
Annað er að vera lágstemmdur og einlægur (lesist: láta það sjást í textanum að maður veit ekkert um hvað maður er að þvaðra)
Hitt er að slá um sig með sniðugheitum og kjafthætti (lesist: þetta er aðeins of cheap umræðuefni fyrir mig af því að ég er svo gríðarlega merkileg manneskja og hef þess vegna möguleika á einhverju meira spennandi að gera í kvöld en að röfla um þetta norrænu-trúar-kjaftæði)
Hvort ætli sé vænlegra til árangurs?
xxx
Fía litla
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
3.12.2008 | 08:51
Lögverndaðir perrar og góðir kennarar
Þá hefur enn einn klerkurinn verið sýknaður af kynferðislegri misnotkun á kvenfólki.
Það er ljóti andskotinn hvað það er lögverndað fyrirbrigði að vera perri.
Það er öllu ljótari andskoti hvað það er lögverndað fyrirbrigði að vera prestur.
Suma daga langar mig ekki að vera á fótum. Það er allt ranglátt, ljótt og öfugsnúið. Til hvers að reyna sitt besta í samfélagi sem hampar þeim umfram öðrum sem brjóta af sér?
Samt er glæta þarna einhvers staðar.
Ég geri ráð fyrir því að kennarar svona nokkuð almennt geri sér grein fyrir því hversu mikilvæg stétt þeirra er. Grunar jafnvel að margir hverjir séu í starfinu einmitt af því að á þeirra skólagöngu hafi góður kennari haft þau áhrif að viðkomandi fékk áhuga á að verða sjálfur kennari og hafa jákvæð áhrif á börn.
Í aðstæðum eins og þeim sem ríkja á Íslandi í dag er fólkið sem hugsar um börnin okkar mikilvægara en nokkru sinni áður. Að veita þeim tækifæri til að tjá sig um málefni líðandi stundar og svo aftur að fá útrás í skapandi starfi, það skiptir miklu.
Mín börn koma heim úr skólanum á hverjum degi með eitthvað jákvætt í farteskinu. Dóttir mín til dæmis er í handmennta-lotu núna. Hún kemur heim með nytjahluti í hverri viku sem hún ætlar að gefa í jólagjafir eða notar sjálf. Kannski ekkert nýtt en samt finnst mér ástæða til að ræða svona lagað einmitt núna.
Dótið sjálft er þó ekki það sem skiptir mestu. Það er innrætingin. Hún er til dæmis uppfull af því núna að það sé mjög margt hægt að gera fyrir litla peninga. Saumavélin mín er kominn upp á borð og hún rótar í öllu mínu dóti eftir álitlegu hráefni í meistaraverk.
Sjálf kenndi ég mínum krökkum að prjóna þegar þau voru 5-6 ára en þau tvö yngri uppgötvuðu það í skólanum hvað það er skemmtilegt og gefandi. Það hefur eitthvað með kennsluna eða öllu heldur kennarann að gera. Með því að prjóna eða suma jólagjafir handa vinum og vandamönnum fá börnin þessa dýrmætu hugmynd um að þau séu að gera gagn.
Ég bið ekki um meira - og þó, verð að segja að mér þótti álíka vænt um komment frá syni mínum á dögunum. Hann sagði sem svo að íslenskukennarinn sinn væri: alveg skemmtileg - hún er allavega með eðlilegan húmor!
Skapandi, gefandi og skemmtilegir kennarar, getur þetta orðið eitthvað betra?
xxx
Fía litla
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.12.2008 | 13:52
Veit svei mér ekki.......
Mig hefur satt að segja hálft í hvoru langað að setja hér inn hamingjusókir til ykkar allra í tilefni dagsins.
Kem mér ekki í það.
Full kaldhæðið i ljósi aðstæðna..........
Sleppi því þess vegna.
Set í staðinn eina athugasemd eða spurningu sem á í raun betur við:
Hvað ætli þess verði langt að biða að friðsemd borgarana breytist í ófrið og ófriðurinn í ofbeldi?
xxx
Fía litla
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
28.11.2008 | 08:55
Elsku fólk!
Vildi ekki láta það hjá líða að benda ykkur á að Pollýanna er komin út í endurútgáfu og ætti að vera í bókabúðum as we speak.
Smá Pollýönnu-speki:
Handalausa Pollýanna: Hey frábært nú þarf ég aldrei aftur að klippa neglurnar!
Fótalausa Polýanna: Engir fætur, enginn fótasveppur!
Atvinnulausa Pollýanna: Súper-dúber þá þarf ég ekki að kaupa nýjar rafhlöður í vekjaraklukkuna mína!
Vitlausa Pollýanna: Hva, þetta reddast!
xxx
Fía litla
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.11.2008 | 08:50
Nei ekkert um typpi í þessum pósti
Ég er nýbyrjuð að lesa bók sem mér líst vægast sagt vel á.
Ný jörð eftir Ekhard Tolle er bókin og er skilst mér afar vinsæl víða um heim.
Hún byggir auðvitað á gömlum grunni eins og allt gott í veröldinni en er um margt nýstárleg. Eða að minnsta kosti er höfundurinn ófeiminn við að setja fram afleiddar hugmyndir sínar um breytt og betra mannkyn.
Það er alveg nauðsynlegt að lesa svona andlegt fóður við og við að ég tali nú ekki um í prófa- og ritgerðalotum.
Langaði bara að deila þessu með ykkur í morgunsárið
xxx
Fía litla
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
26.11.2008 | 13:24
Hvernig ætli typpi komi að gagni við gjaldkerastörf í banka umfram til dæmis brjóst?
Gleymdi þessu smáræði í síðustufærslu.
xxx
Fái litla
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
26.11.2008 | 12:29
Hvers virði ert þú?
Ég hef verið að velta því fyrir mér eins og sjálfsagt margir hvar verðmætin í landinu liggja í raun og hvernig megi nýta þau til bjargar.
Þá er ég ekki að tala um peninga heldur verðmæti.
Samkvæmt minni alþýðuhagfræði eru framleiðsuþættir þjóðar auðlindir hennar, framleiðslufyrirtækin eða vélakosturinn sem í þeim er og mannauðurinn sem felst í hvers kyns hugviti, þekkingu og vinnuafli öðru.
Nú bögglast dálítið fyrir mér satt að segja hvað það er sem nákvæmlega er skilgreinandi þegar kemur að því að verðmeta vinnuaflið. Er það greindarvísitalan, líkamlegur styrkur eða burðarþol manneskju, leiðtogahæfileikar, skipulagshæfileikar, færni í mannlegum samskiptum, menntun, færni á tæknisviði eða kannski heilbrigð skynsemi sem kemur til kasta þeirra sem skera úr um verðmat ?
Ætli það sé ekki sitt lítið af hvoru sem sker úr um það hversu verðmæt manneskja er og hlýtur það ekki líka að fara svolítið eftir því nákvæmlega hvaða verkefni henni er ætlað að leysa ?
Jú sennilega er þetta nokkurn vegin svona.
En hvernig stendur þá á því að þetta verðmat endurspeglast ekki í launum vinnuaflsins?
Hvernig stendur á því að tveir krakkar í framhaldsskóla eru ráðnir til afleysinga í segjum bankaútibúi úti á landi þar sem þau sitja hlið við hlið og vinna sömu störfin, allt eins - nema launin?
Hvernig stendur á því að hann fær um 35% hærri laun en hún?
Skoðum verðmatsforsendurnar aðeins:
Hefur hann hærri greindarvísitölu? Kannski en mér er ekki kunnugt um að sumarafleysingafólk fari í greindarpróf í atvinnuviðtölum.
Er hann líkamlega sterkari eða hefur meira burðarþol? Já það er ekki ólíklegt. Hins vegar er hæpið að það skipti miklu máli í gjaldkerastarfi í banka.
Hefur hann meiri leiðtogahæfileika, skipulagshæfileika, færni á tæknisviði, færni í mannlegum samskiptum eða er hans skynsemi heilbrigðari en hennar? Það má bara vel vera. Þó efast ég um að þessar upplýsingar allar saman hafi legið fyrir þegar þessir krakkar voru ráðnir til starfa.
Hvað er þá eftir? Já, að er menntunin. Hefur hann meiri menntun en hún? Nei þau eru bæði á framhalsskólastigi sem reiknast sem eitt skólastig samkvæmt öllum kjaratöflum sem ég hef séð óháð því á hvaða ári nemandi er nákvæmlega.
Hvað er það þá sem ræður þessu verðmati? Af hverju fær hann um 35% hærri laun en hún?
Nú er hann væntanlega ekki með brjóst. Getur verið að brjóst verðfelli fólk almennt? Nei sennilega ekki því það ku gefa vel í aðra hönd að sýna á sér brjóstin fyrir pening.
En hvað getur þá valdið þessu?
Eigum við kannski að skoða hvað það er sem hann hefur sem hún hefur ekki?
Mér dettur bara tvennt í hug: meira af líkamshárum, sérstaklega í andlitinu og svo typpi.
Aha - þetta hlýtur að vera svarið!
Ég sem sagt sem kona gæti hagnast verulega af því einu saman að verða mér út um aukin hárvöxt í andliti og typpi. hvað er nú til ráða?
Eitthvað minnir mig ég heyra um það í gamla daga að Nivea og jafnvel Atrix krem líka jyki hárvöxt. Eins það að raka sig reglulega, til dæmis á efri vörinni, það gæfi á endanum skeggrót.
Ókey þetta er reynandi - en þá vantar typpið.
Hvar fær maður typpi? Veit það einhver? Fær maður alvöru typpi við kynskiptaaðgerð? Er að dýrt? Geta allir farið í svoleiðis aðgerð sem óska eftir því? Er hægt að fá typpi án þess að fara í skurðaðgerð? Getur maður keypt typpi af dauðum manni og látið græða það á? Þarf typpið að vera lifandi og virka til að teljast alvöru? Gæti gervityppi kannski komið að sömu notum? Skiptir máli hvernig það er á litinn? Svart eða bleikt? Stórt, lítið, mjótt eða svert?
Eru öll typpi gjaldgeng? og svo framvegis og svo framvegis..................
Samkvæmt óútskýrðum launamun kynjanna á Íslandi í dag (18% síðast þegar ég vissi) skiptir stærð, litur eða lögun typpisins ekki máli. Það eina sem skiptir máli er að hafa svoleiðis hangandi framan á sér.
Athugið!
Typpi óskast fyrir lítinn pening. Nánari upplýsingar veitir undirrituð. Er í skránni.
xxx
Fía litla
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.11.2008 | 09:10
Segið ykkur úr Samfylkingunni!
Á borgarafundinum í gærkvöldi stóðu nokkur atriði upp úr að mínu mati.
Fyrst og síðast auðvitað málflutningur Margrétar Pétursdóttur verkakonu sem var frískandi og kveikti vonir um að ekki sé öllu lokið.
Þorvaldur Gylfason er alltaf frábær. Minn heittelskaði eiginmaður vill fá þann mann í seðlabankann og deilir þeirri skoðun greinilega með Össuri Skarphéðinssyni. Sammála þeim um það.
Einar Már hins vegar talaði mínu máli umfram aðra í gær þótt svo mælska hans hafi kannski stundum verið meiri.
Hann sagði það skýrt sem ég hef verið að böglast við að tjá mig um á stundum að vonbrigðin með Samfylkinguna eru svo stór og mikil vegna þess að úr þeirri átt væntir maður heilinda, réttsýni og heilbrigðrar skynsemi.
Það gerir enginn heilvita maður slíkar kröfur á Sjálfstæðisflokkinn. Þjóðin veit að Sjálfstæðisflokkurinn er hagsmunasamband fjármagnseigenda og valdapósta í samfélaginu sem á rætur sínar að rekja allt aftur til Þjóðveldis. Við væntum einskis af Sjálfstæðisflokknum. Það eina sem hann hefur með sér er óljós aðkenning að sannleika þess efnis að Sjálfstæðismenn kunni betur að ávaxta peninga en annað fólk.
Nú hefur það verið afsannað í eitt skipti fyrir öll!
En hún Ingibjörg Sólrún Gísladóttir þarf verulega að fara að hugsa sinn gang.
Ég skældi í koddann minn daginn þann sem núsitjandi ríkisstjórn tók við völdum. Næstu daga var þungt í mér. Ég var sannfærð um eins og svo margir fleiri að þessi ráðahagur væri slæmur. Enginn mannlegur máttur getur snúið mér frá þeirri skoðun að við þær aðstæður sem voru uppi þá í íslenskum stjórnmálum var engin leið fyrir Samfylkinguna að ganga til þessa samkurls nema skilja við sig flest sín helstu stefnumál og þá um leið heilindi.
Sú hefur líka orðið raunin.
En Einar Már bað Ingibjörgu að leggjast nú undir feld sinn og breyta rétt. Svo gæti hún að fornra manna sið blótað nýfrjálshyggjunni á laun með Geir sínum. Hann bað hana að bregðast ekki fólkinu sínu.
Hann snupraði konuna fyrir okkur sem erum svekkt og sár út í Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur formann Samfylkingarinnar fyrir að bregðast þeirri vonarglætu sem vasklega framganga hennar á ýmsum tímum hafði kveikt með okkur sumum hverjum.
Nú er ég ekki lengur meðlimur í Samfylkingunni en ég skora á fólk í þeirra röðum að segja sig umvörpum úr flokknum og senda þannig þau skilaboð að ekki sé starfað þar af þeim heilindum sem til er ætlast. Skýrari skilaboð en úrsögn er ekki hægt að senda.
Sendið póst á samfylking@samfylking.is með úrsögn og örstuttri skýringu á ástæðum hennar
Ég skora á ykkur að hjálpa til við að koma flokksforystunni í skilning um að störf þeirra eru ekki þóknanleg félagshyggjufólki hvorki á vinstri vængnum eða miðjunni.
Með von um betri Samfylkingu og betra Ísland
xxx
Fía litla
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
24.11.2008 | 18:27
Egill, fálkinn og fullorðnir karlmenn sem geta ekki hætt að leika sér.
Það er náttúrulega eitthvað stórkostlega mikið að ef Egill Helgason fær ekki Fálkaorðuna árið 2008 fyrir framlag sitt til eflingar og þróunar lýðræðis í landinu.
Ef að handboltastrákarnir áttu skilinn fálkann fyrir að leika sér á bankastyrkjum út um allan heim þá veit ég ekki hverjir eiga hann skilinn.
Það er auðvitað fyrirséð að nú munu í náinni framtíð einungis þeir stunda dýr sport sem virkilega hafa til þess ástríðu. það munu ekki margir verða til í að borga fullorðnum mönnum fyrir að leika sér í kreppunni.
Þetta er auðvitað stórgott mál.
Íþróttir munu jafnvel verða nákvæmlega það en ekki sá gróðavonarpyttur sem þær hafa verið í síauknum mæli undanfarna tvo áratugi eða svo.
Kannski að ég röfli aðeins um íþróttir fyrst ég er byrjuð......
Þegar ég var minni en ég er í dag bæði í sentimetrum og kílóum stundaði ég einar fjórar íþróttir líklega á einum eða öðrum tíma fyrir utan sund og leikfimi í skólanum.
Rósa frænka var reyndar orðin ískyggilega þaulsetinn gestur síðustu árin mín í grunnskóla en það er önnur saga og vandræðalegri.
Ég æfði sund í eitt ár og fannst það æðislegt.
Hætti þegar ég átti að keppa á móti númer tvö.
Ég æfði fimleika í ein þrjú ár.
Þurftum aldrei að keppa, bara halda skemmtilegar sýningar fyrir foreldra og nemendur einu sinni á ári.
Hætti þegar ég fékk þá flugu í höfuðið að sennilega væri ekki mjög pæjulegt að vera í fimleikum og lúðrasveit orðin þrettán ára gömul.
Svo æfði ég badminton með Guðnýju frænku í tæpan vetur.
Það var brjálæðislega gaman!
Það var svo brjálæðislega gaman að við pissuðum báðar niður oftar en einu sinni á æfingum á meðan Brynja og Kjartan Þór og Siggi bróðir voru að slást um titlana daginn út og daginn inn.
Hætti með látum og yfirlýsingum daginn áður en ég átti að keppa á fyrsta mótinu.
Að lokum æfði ég blak á Flúðum.
Varð skólameistari með mínum bekk (allt auðvitað af því að ég var svo góð - búin að læra reglurnar og allt)
Hætti þegar milliskólamótið átti að hefjast.
Nú er tvennt í stöðunni. Annað hvort var ég aumingi eða ég vildi fá að vera barn, njóta lífsins og ekki þurfa stöðugt að vera að sanna mig og mitt ágæti með stimplum annarra.
Mér er slétt sama hvað ykkur finnst
En ég hata keppnisíþróttir enn í dag.
Mér finnst að fullorði fólk sem vill leika sér eigi að standa straum af þeim kostnaði sem til fellur sjálft - og - mér finnst að Egill Helgason eigi að fá fálkann fyrir að vera það sem hann er: Stórkostlegur!
xxx
Fía litla
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Færsluflokkar
Bloggvinir
- 810
- leifurl
- latur
- hjolaferd
- birgitta
- katrinsnaeholm
- vefritid
- ragnarfreyr
- dofri
- halkatla
- svavaralfred
- kolgrima
- svala-svala
- helgafell
- bjarnihardar
- brell
- salkaforlag
- brjann
- gattin
- brandarar
- ebbaloa
- eddabjo
- kokkurinn
- gudmundurhelgi
- hallarut
- snjolfur
- disdis
- holmdish
- haddih
- kreppan
- jenfo
- larahanna
- lillagud
- loaloa
- rutlaskutla
- klarak
- vilborg-e
Tenglar
Þjóðfræði
- Oral Tradition Allt um munnlega hefð
- Snopes Sögusagnir
- Árnastofnun Íslensk fræði
- Þjóðbrók Félag þjóðfræðinema
- Félag þjóðfræðinga
- Sagnanet Um íslenskar fornbókmenntir
- Sagnagrunnur Íslenskar sagnir
- Orðanet Samheitaskrá Árnastofnunar
- Orðabók Háskólans
- Spurningalistar Þjóðminjasafnsins
- Þjóðminjasafnið
Íslensk prjónablogg
prjónakonur
- sheep in the city
- sittin´here knittin
- string theory
- nake-id knits
- Harpan
- 2 pinde
- Norræn prjónablogg
- purlbee
- erleperle
- Hey Lucy
- Prjónakona
- Hun som köber for meget garn
- innblástur
- Nevernotknitting
- Eva Anette
- heilög belja
- Hot needles
- Splityarn
Gagn og gaman
- pink by post
- Rowan
- Knotions
- Modern country
- Syko
- Seiðkona.is
- Náttúra.is
- SarahLondon
- Soliga
- Aldís bæjarstjóri
- Raverly
- Handprjónasambandið
Hugleiðsla
- Zen Hugleiðsla
- Zen leiðbeiningar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (27.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar