Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Bloggar

Af mannvitsbrekkum og ráðherrum.

Verð að játa það að undanfarið hafa fasískir tendensar dúkkað upp í sálartetrinu hvað eftir annað.

Til dæmis í gær við að horfa á Guðlaug rassapa heilbrigðisráðherra útmála stefnu sína hvað varðar einkavæðingu/ekki einkavæðingu heilbrigðismála á Íslandi.

Get bara ekki að því gert að það hefur margsinnis hvarflað að mér þegar ég hlusta á til dæmis Guðlaug og ekki síður dýralækninn hvort ekki væri jafnvel æskilegt að skikka ráðherraefni í greindarvísitölupróf svona áður en lyklaafhending fer fram.

Ekki þannig að Stanford-Binet sé einhver algildur mælikvarði á manngæsku eða hæfileika fólks nema síður sé. En þegar um svona mikilvæg embætti er að ræða held ég að vitsmunaleg geta verði að vera til staðar.
Fjölgreindarkenningin hans þarna sem ég man aldrei hvað heitir, Garner eða eitthvað, er massafín og á oftast betur við en verða ráðherrar ekki að skríða upp fyrir meðallag í vinnsluhraða?
Jú er það ekki?

Hrokafullt - já vissulega. En hvað með almannaheill?
Er réttlætanlegt að hvaða prímati sem er geti tekið sæti í fámennum hópi framkvæmdavaldsins?

xxx
Fía litla


Á kannski bara að leggja niður Alþingi?

Njörður P. Njarðvík var einn af gestum Egils Helgasonar í Silfrinu í gær.

Hann skrifar stundum greinar um þjóðfélagsmál í blöðin. Reyndar líka um íslenskt mál en það er önnur saga. Venjulega finnst mér hann skýra hlutina frekar en hitt. Ég er oft sammála honum. Hann segir hluti sem aðrir hafa kannski sagt áður en þegar Njörður fer um þá höndum verða þeir skiljanlegir og gegnsæir.

Undanfarið hefur hann rætt stöðu lýðræðis á Íslandi. Hann segir að það sé ekki til staðar. Það er rétt.

Í lýðræðisstjórnskipulagi eða þingræðis kannski öllu heldur á framkvæmdavaldið að fylgja eftir og koma til framkvæmda ákvörðunum löggjafarvaldsins. Þannig er það ekki í dag og hefur ekki verið lengi.
Alþingi er í raun eins og stór skrifstofa sem vinnur úr því sem framkvæmdavaldið réttir þar inn á borð hverju sinni.

Í þessu ljósi eru nýtilkomnir aðstoðarmenn alþingismanna óþarfir. Sú fyrirskipan er hlægileg sé raunverulegt vægi þingsins og þá um leið þingmannanna athugað.

Þingið hefur áður verið í sömu stöðu.

Allt frá einveldistökunni 1662 og fram til loka 18. aldar var það afgreiðslukontór og samkomuhús heldri manna. Þegar Alþingi var lagt af á sínum tíma var svo komið að menn sinntu ekki einu sinni mætingarskyldu. Á síðasta þinginu sem haldið var á Þingvöllum voru samankomnar örfáar hræður til skrafs og ráðagerða. Ástand Lögréttu var með þeim hætti að ekki var þar líft vegna dragsúgs þannig að Magnús Stephensen stóð upp og tilkynnti að hann væri farinn heim og þeir sem vildu hafa eitthvað um afgreiðslu eftirstandandi mála þingsins að segja gætu komið með sér ef vildu.

Þá var þingið aðeins afgreiðslustaður og umsagnaraðili.
Konungur og embættismenn hans voru framkvæmdarvaldið. Alþingi hafði samkvæmt hefð eitthvert málamyndalöggjafarvald.

Svona er þetta líka í dag. Það eina sem er öðruvísi er að þinghúsið heldur vatni og vindi og að kóngurinn er ekki erlendur. Við höfum reyndar ekki einn sýnilegan kóng en hirðin er vissulega bæði til og mjög sýnileg.

Eigum við ekki bara að leggja niður Alþingi?
Skiptir þessi sýndarmennska einhverju máli?

xxx
Fía litla


Til hvers?

Þessa dagana fæ ég mig ekki til að skrifa um kreppu á Íslandi.
Ég finn mig heldur ekki í því að tjá mig um barnsmorð á Gaza. Mig brestur kjark í báðum tilfellum.

Í fyrra tilfellinu finnst mér ekki nægileg ástæða til.
Í hinu síðari eru ástæðurnar nægar en ég of lítil.

Hins vegar finnst mér ekki úr vegi að tala um það til hvers við gerum og erum.

Til hvers er ég og hvaða tilgang hefur tilvera mín yfirleitt?

Hef ekki hugmynd.
Veit þó að það hefur eitthvað með heilindi og kærleika að gera.
Læt ykkur vita ef ég kemst að niðurstöðu.

Sennilega er tilgangur hverrar manneskju sá sannastur að lifa í náungakærleika frá degi til dags. Ekki bara á tillidögum eða rétt á meðan samviskan er friðuð með gjöfum í góðgerðastarf.

Ég veit um eina konu sem ekki lifði til einskis.
Hún hét Bergþóra Árnadóttir og sendi frá sér dásamlegar texta- og tónsmíðar. Um slíkt veit ég ekki mikið en ég veit að diskurinn sem ég gaf sjálfri mér í jólagjöf endurvarpar sannri manngæsku og heilindum til mín í hvert skipti sem hann fær að hljóma.

Ég held áfram að leita...........
xxx
Fía litla


Í dag er þetta helst

Gat illa vaknað í morgun - börnin of sein í skólann - ergó=nýtt ár, sama móðurómyndin!

Bjarni Ármannsson skilar klinkinu - so?

Samtök kristinna trúfélaga biður fólk að láta ljósin loga - alveg sjálfsagt, já já já.

Mogginn í dag: Þáttur um landbúnað og byggðastefnu vs. Evrópusambandið skreyttur með íslensku lopapeysunni.

Lestur annarinnar hefst fyrir alvöru í dag - umfangið er ævintýri líkast og þó er ég ekki farin að líta einu sinni í áttina til lesefnis framhaldsnámskeiðsins um ævintýri og samfélag.

xxx
Fía litla


Árið!

Gleðilegt ár þið öll þarna úti og takk fyrir það gamla!

Ég nenni bara ekki fyrir mitt litla líf að blogga þessa dagana, sorry!

xxx
Fía litla


Ýmislegt jákvætt í myrkrinu

Nú hefjast brátt strætóferðir á milli Hveragerðis og Reykjavíkur. Næsta önn er reyndar svo einkennileg hjá mér að ég þarf aðeins að mæta tvo daga í viku. Þetta hefur aldrei raðast svona áður. Er auðvitað mjög glöð með þetta en strætó verður ekki eins mikilvægur fyrr vikið. En frábært fyrir alla hina.
Gott framtak!

Svo verður þrettándahátíð í litla gúrkubænum mínum. Blysför að Hamrinum með álfum sjálfsagt og huggulegheitum. Líka gott framtak.
Stend mig að því að velta því óþarflega mikið fyrir mér hvernig álfabúningarnir ættu nú helst að líta út. Held stundum að menntun flæki bara málin frekar en hitt :) :)

Svo gleðst ég yfir tiltektartilburðum nýs bankastjóra Kaupþings. Nú hafa 5 toppar fengið að fjúka í aðgerð sem hann kallar skerpingu skila á milli gamla og nýja bankans.
Ég tek ofan fyrir honum!

Og svo síðast en ekki síst fagna ég innilega frá mínum innsta kjarna dómi sem féll yfir barnaníðingi í gær. Skrýmslið fékk 8 ár sem er met í þessum efnum.
Ég treysti því að samfangar hans geri honum lífið lítt bærilegt á meðan á afplánun stendur.

Sennilega er Guð til eftir allt saman................
xxx
Fía litla


Fordómar gegn fordómum ?!

Nú virðist mér sem þjóðernishyggja sé mjög í uppsveiflu að minnsta kosti á Íslandi. Reyndar víða um heim, en það er augljósast sem liggur beint fyrir fótum manns.

Þjóðernishyggja er bannorð í munni margra fávísra manna í þessum heimi!

Þjóðernishyggju er spyrnt saman við alls kyns sullumbull eins og til að mynda rasisma og nasisma.

Þetta eru hins vegar hugmyndafræðilega aðskilin fyrirbrigði þótt svo sögulegar staðreyndir á borð við Síðari heimsstyrjöldina tengi þau órjúfanlegum böndum.

Þjóðernishyggja lýtur að því mannlega atferli okkar allra að leitast við að vera sérstök en um leið hluti af heild. Við beitum öll sömu aðferðum í þessu skyni. Við beitum aðgreiningu til að skilgreina hvað er okkar og hvað ekki. Þeir sem eru öðruvísi en VIÐ, þ.e. hegða sér öðruvísi, eru öðruvísi á litinn jafnvel, hafa annan húmor, aðrar matarvenjur, tala önnur tungumál, önnur trúarbrögð o.s.frv. o.s.frv. Verða HINIR.

Menn skipta fólki upp í tvo hópa: VIÐ og HINIR.

Að aðhyllast þjóðernishyggju er í raun ekki annað en að leggja áherslu á menningu og sérkenni ákveðina hópa sem hafa svo kölluð þjóðríki á bak við sig og hafa með tímanum fengið nafnið ÞJÓÐ.

Þjóðríkið varð til þegar þörf þótti á að styrkja nýja samfélagsgerð Evrópu í kjölfar iðnvæðingar og sívaxandi borgarmenningar.

Þjóð er fyrst og fremst hópur. Ýmislegt gerir hóp að þjóð. Í mínum huga er það ekki síst sameiginleg menning sem gerir hóp að þjóð. Það er ekki túlkun allra. Sumum finnst landfræðilegar forsendur grundvallaratriði í skilgreiningu þjóða.

Þetta er allt saman einstaklingsbundið enda eins og B. Anderson sagði svo eftir var tekið þá er þjóð ímyndað pólitískt og félagslegt fyrirbrigði.

Ef við viljum ekki viðurkenna að við séum þjóð hvað þá með aðra hópa sem við tilheyrum?
Átt þú í erfiðleikum með að viðurkenna að þú sért annaðhvort karl eða kona?
Ertu barn eða fullorðinn, eða er það eitthvað loðið?

Nei við getum vel leyft okkur að vera þjóð ef við viljum það - og ef við þorum !!!
Það er ekkert ljótt við þjóðernishyggju.
Hún er alls staðar í kringum okkur í núinu.

Þorir þú?
xxx
Fía litla


Að finna strauma og stefnur eflast og hringa sig um daglegt líf fólksins.

Í öllum hug- og félagsvísindum er mikilvægur kostur að vera næmur á tíðarandann, geta fundið hvernig hjörtun slá.

Það skiptir miklu fyrir allan heildarskilning á mönnum og málefnum að geta litið yfir sviðið og skynjað leikinn jafnvel þótt tjaldið hafi verið látið falla fyrir jafnvel öldum og árþúsundum síðan.

Nákvæmlega svona er þetta lika í pólitíkinni. Þess vegna eru oft á tíðum dýrmætustu sprautur flokkanna ekki þeir sem sitja í eldlínunni heldur þeir sem vinna bak við tjöldin við að lesa og hugsa.

Á umbrotatímum eins og í dag spretta fram gríðarlega margir svona hugsuðir meðal almennings.
Sumum finnst þeir lítilsgildir og jafnvel hlægilegir.
Það eruð þið hins vegar ekki kæri almenningur.
Hjörtun ykkar slá ekki til einskis.

Takturinn sem sá sláttur gefur á eftir að fylla sögubækur og verða sporbraut mikilla persónulegra og opinberra uppgötvanna.
Í dag getum við lesið dagblöðin, horft á fréttirnar, lesið bloggin, spjallað saman augliti til auglitis og fundið á eigin skinni hvernig straumar og stefnur eru að mótast og eflast og hvernig þær hringa sig um daglegt líf fólksins í landinu.
Þetta er hægt vegna þess að kvikan í okkur er svo opin.
Við erum svo varnarlaus.

Nú þurfum við að stoppa reglulega og hlusta eftir takti hvors annars.
Við þurfum að stilla saman sláttinn svo hann að lokum verði þungur og kraftmikill óstöðvandi flaumur.

Hlustaðu.............
xxx
Fía litla


Líður að hefndum?

Skelfing er dautt yfirbragðið á litla þorpinu mínu nú um stundir!

Að sumu leyti má líklega segja að samstarf/dugleysi núsitjandi bæjarstjórnar/stjórnarandstöðu sé ánægjulegt. Hljómar vissulega mótsagnakennt -enda er það það.

Í fyrsta skipti frá því ég man eftir mér hreinlega er brostið á með miklum kærleikum vinstri/hægri, rauðum/bláum og óþægum/þægum í bæjarmálapólitíkinni í Hveragerði.
Hún er sum sé liðin í bili sú tíð að í hvert skipti sem maður brá sér út fyrir bæjarmörkin var maður spurður í háðungartón hvernig gengi í pólitíkinni í Hveragerði.

Í HVERAGERÐI HAFA MENN JÚ LÖNGUM SLEGIST BÆÐI INNAN FLOKKS OG UTAN UM VÖLDIN YFIR AKKÚRAT ENGU !!!

En núna eru allir vinir - af því að það er kreppa!

Einmitt. Mér er sem ég sjái nú þennan skrípaleikinn endast eitthvað.

Og jæja sveiattan jæja, kannski að það endist nú samt fram að næstu kosningum, eða kosningabaráttu öllu heldur.
En hver er afleiðingin?

Alger stöðnun í hálfdauðum bæ er það sem út úr þessu ástarsambandi fæst og ekkert annað!
Meira að segja Bláhver, málgagn Sjálfstæðisfélagsins kom varla út fyrir jólin að þessu sinni sem hann hefur þó gert með nokkrum sóma í árafjöld. Einn fölblár einblöðungur með prumpskrifum fáeinna embættisskrúfa var það sen kom í lúguna mína.

Og ekkert frá (mínu) fólki á vinstri vængnum - að minnsta kosti ekki í mitt hús.

Samstaða pólitík er aldrei annað en yfirvarp! Slíkt leiðir aðeins af sér stöðnun og dauða!

En þetta er ekki bara svona í mínu litla sveitaþorpi. Það er nú mergurinn málsins.
Það eru allir hættir að þora að vera til í þessu landi.
Það er allt samfélagið lagst í miðjumoð og doða.
Við erum öll deyjandi - andlega!

Embættismenn rændu okkur aleigunni og ærunni á meðan við sváfum móksvefni hins sprengsadda manns.
Þegar við röknuðum úr rotinu og áttuðum okkur í augnablik og kröfðumst réttlætis gáfu þeir okkur loforð um skil og efndir - skipuðu skilanefndir.

Það stendur hins vegar stórlega á bæði skilum og efndum.
Nú hlýtur brátt að líða að hefndum!!!
xxx
Fía litla


Kóngur einn dag

Bóndinn á afmæli í dag eins og allar aðrar Þorláksmessur alla vega síðan við kynntumst (og það er orðið helvíti langt síðan!)

Þennan dag rembumst við druslurnar á heimilinu við að vakna fyrstar. Markmiðið er að vekja manninn með gjöfum og helst af öllu bakaríisbakkelsi líka. Það vill nú sjaldnast svo til að það síðarnefnda takist en hefur þó komið fyrir.
Í morgun tókst það ekki.

En í bakaríið fór ég þó og afmælisbarnið fékk allt sem honum finnst best.
Hann fékk líka að lesa Moggann fyrstur.
Við þá iðju settist hann við borðsendann eins og ALVÖRU HÚSBÓNDI að eigin sögn. Við hin létum lítið fyrir okkur fara og sögðum ekki orð þótt við kæmumst ekki um þar sem hann blokkaði helstu gönguleiðir í eldhúsinu.

Maður er nefnilega alráður einn dag þegar maður á afmæli á þessu heimili.
Það er óspart notað af títtnefndu afmælisbarni enda hann með eindæmum kúgaður alla aðra daga ársins eins og hann lætur í veðri vaka við hvert tækifæri þennan dag.

Sem sagt spennandi dagur framundan í konungsríki Óla Toll

xxx
Fía litla


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Soffía Valdimarsdóttir
Soffía Valdimarsdóttir
Bara ég sjálf hvort sem ykkur líkar það betur eða verr!
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband