Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2008

Nákvæmlega!

Jólin standast ekki sumrinu snúning. Hverjum er ekki drullusama um 3 daga frí í skítakulda bíðandi eftir VISA-timburmönnum og enn einu megrunarátakinu? Mætti ég þá heldur biðja um sumarfrí í næturlausu algleymi uppi á Íslandi.

Stjúpur og grillilmur og ísbíltúrar og hvítvín og humar og sláttuvélasinfó og eitthvað nýtt á prjónunum í sumarbústaðnum - þetta er lífið.

Íslensku jólasveinarnir eru löngu dauðir og þessi ameríski er fluttur. Kapitalisminn flutti hann hreppaflutningum. Nýtt heimili hans er Verslunarmiðstöðin þín og mín stjarna allra barna. Á meðan er Jesús gleymdur og grafinn eins og lærið sem varð eftir holunni í brúðkaupinu hérna um árið þegar veislugestir voru orðnir of fullir til að borða matinn sinn þegar til átti að taka.

xxx
Fía litla


mbl.is Skilnaðarbylgja að hausti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Móðurleg umhyggja á LItla-Hrauni

Alveg líst mér stórvel á Margréti Frímannsdóttur í sæti fangelsisstjóra á Litla-Hrauni. Ekki það að Margrét á víða erindi en hefur ekki alltaf haft sem erfiði. Þegar hún bauð sig fram til formennsku í Alþýðubandalaginu um árið fannst mér ekki hægt annað en að ganga í þau samtök svo ég gæti haft áhrifa á úrslit kosninganna. Allir vita hvernig það fór. Hún vann og var og er guðmóðir Samfylkingarinnar.

Sú hugmynd öll var hin ágætasta en úrvinnslan hefur að minnsta kosti ekki ennþá tekist betur en svo að mér líst ekkert á þann graut sem úr varð og ekki myndi ég vilja eiga pottinn þótt ég fengi greitt með honum. Enda fór svo að Margrét þreifst ekki of vel innan um flokkssystkini sín og þaðan af síður í karlaveldinu á Alþingi. það finnst mér nú heldur hrós en last verð ég að segja en hafði samt af því nokkrar áhyggjur lengi vel að þessi kostakona findi ekki kröftum sínum og hæfileikum farveg okkur hinum til heilla.

En núna er mín kona sko heldur betur komin á réttan stað. Hún hefur á örfáum mánuðum innleitt vannýttar en vel þekktar aðferðir í betrun fanga á Íslandi. Með móðurlegu innsæi og umhyggju lætur hún hyggjuvitið ráða og reynir að veita þeim það sem þá hefur sjálfsagt skort alla sína ævi; tilfinningu um gagnsemi og tilgang og að vera hluti af heild, að tilheyra og gera gagn.

Til verksins er kallað einvalalið. Margrét hússstjórnarskólastýra kennir þeim að þrífa, Úlfar villimaður sér um eldamennskuna og svo síðast en ekki síst veitir Auður Ottesen þeim tilsögn í ræktun matjurta.

Þetta líst mér á. Maður fær endurnýjaða trú á mannkyn þegar fólk eins og Margrét Frímannsdóttir lætur að sér kveða. Það er bara að hún fái vinnufrið fyrir einhverjum helvítis pungrottum með viðskiptafræðipróf í brjóstvasanum.

Ég ætla að gefa í söfnun fyrir gróðurhúsi á Litla-Hrauni (101-26-171717 minnir mig - annars í blöðunum í dag einhversstaðar)
En þú?
xxx
Fía litla


Konur

Gamlar, ungar, litlar, stórar, fríðar, grófar, penar, fróðar, bjartar, dimmar, liprar, stífar, kátar, ferskar, teknar..........

Það koma miklu fleiri konur í safnið mitt heldur en karlar. Það er gott. Þær næra mig. Þeir karlar sem gefa sig á tal við mig vilja nánast undantekningalaust ausa yfir mig úr viskubrunni sínum. Ógeðslega þreytandi hugsanagangur að þurfa alltaf og trúa því hreinlega að maður sé til þess fæddur að mennta og bæta kvenkyns fólk sem verður á vegi manns. Eitthvað subbulegt við þetta svei mér þá.

En konurnar - þær hafa annan tilgang, allavega flestar. Þær vilja brosa, spjalla, hrósa, stundum tuða en oftast deila með mér upplifun sinni eða einhverju úr lífinu.

Vildi bara deila þessu með ykkur
xxx
Fía litla


Til hamingju við öll.....

......með að stærstu ferðahelgi arsins skuli vera lokið nokkurn vegin slysalausri. En fyrir ykkur sem voruð i útilegu, smá leiðbeiningar um það hvernig má fá enn meiri huggulegheit út úr einni slíkri:

The loaded mini-van pulled in to the only remaining campsite. Four children leaped from the vehicle and began feverishly unloading gear and setting up the tent. The boys rushed to gather firewood, while the girls and their mother set up the camp stove and cooking utensils.

A nearby camper marveled to the youngsters' father, "That, sir, is some display of teamwork."

The father replied, "I have a system: no one goes to the bathroom until the camp is set up."


Ég þoli ekki undirlægjur!

Fann þetta innan um glósur sem ég er að nota núna. Sennilega 2-3 ára gamalt. Fyndið - ég gæti alveg eins og miklu frekar hafa skirfað þetta um Samfylkinguna í dag:

Ég þoli ekki undirlægjur! Hver liggur undir öðrum allt sitt líf? Sumar undirlægjur eru kannski meira utanílægjur. Það er, þær standa kannski í lappirnar í eiginlegum skilningi en þær hengja sig utan á einhvern annan og dragnast þannig viljalaust í gegnum lífið. Framsóknarflokkurinn er dæmigerð utanílægja. Ekki vantar þá lappirnar því eins og allir vita er Framsóknarflokkurinn fjórfættur. Þó er sá galli á gjöf Njarðar að fæturnir vilja hver í sína áttina án þess þó að vera sérstaklega átthagir yfirleitt. Þess vegna hefur hausinn ákveðið að fjórfætlingurinn skuli taka sér far með stefnufastari aðilum. Þannig hefur hann ákveðið að setja á sjálfan sig múl og fá Sjálfstæðisflokknum í hendur tauminn.


Já er það?!

Ég brá mér nú í bíltúr upp á Skaga í gær og var komin þangað um fimm leytið. Ég lýg því ekki að það varð varla nokkur hræða á vegi mínum þarna í miðbænum í heilan klukkutíma. Ég er ekki hissa þótt allt hafi farið á besta veg því þetta allt var bara ekki neitt neitt.

Það mátti reyndar sjá írsku fánalitina út um allan bæ, einn algerlega yfirgefin hoppukastala og annan með 12-15 hræðum í biðröð við, nær alveg yfirgefinn paint-ball völl, og einhvern slatta af misdrukknum börnum og unglingum. Markaðurinn var að pakka saman og þar sögðu mér tvær konur sem ég þekki að fólk hefði lítið keypt og stemmningin verið slöpp yfirleitt þessa helgi.

Það undarlegasta var þó að hvergi nokkurs staðar heyrði ég írska tónlist. Eina tónlistin semég heyrði frá klukkan fimm til vel rúmlega átta (þá gafst ég upp og fór) var amerískt smástelpupopp af aumustu sort sem barst mér út um gluggann á bíl á þvottaplani. Ekki einu sinni á veitingahúsinu sem ég fór á (bara sko vegna þess að kaffihúsið í miðbænu var almyrkvað og LOKAÐ) var boðið upp á tónlist og hvað þá írska.

Reyndar var eitt ennþá undarlegra. Það var hvergi nokkurt einasta upplýsingaskilti eða bækling eða ör eða álíka vegvísa að finna og trúið mér, ég gáði.

Grínið er svo að ég ætlaði að nota daginn til að taka myndir af fólki í lopapeysum og taka við það örviðtöl um slíkar peysur. Mér hafði nefnilega verið sagt það í síma af einum aðalumsjónarmanni og gott ef ekki framkvæmdastjóra hátíðarinnar, að lopapeysur væru mjög algengur fatnaður á Írskum dögum og auðvitað skyldugalli á ballið um kvöldið. Þetta ball heitir einmitt Lopapeysan og átti að byrja kl. 11. Þegar ég sá umgjörðina um það (eftir að hafa bæði spurst til vegar og hreinlega rambað á algerlega óauglýst svæðið) leist mér ekki betur en svo á að ég bara brenndi heim í Húrígúrí, skrúfaði niður rúðuna og andaði að mér blómailmi í bland við hveralyktina.

Allt í allt sá ég heil 11 stykki lopapeysur þarna og þar af eina ermalausa. Ég held ég sé ekkert á leiðinni upp á Skaga neitt alveg á næstunni!


mbl.is Allt gekk eins og best verður kosið á írskum dögum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Blómstrandi bær

Undanfarna viku kom ég í Þorlákshöfn, Selfoss, Mosfellsbæ, Reykjavík og á Akranes. Hvergi var eins blómlegt á að líta og í blómabænum mínum Hveragerði.

Smekkvísi og drífandi er það fyrsta sem mér dettur í hug þegar ég sé allt sem búið er að fegra við Breiðumörk og víðar í bænum mínum. Nú skammast ég mín ekki fyrir að vera Hvergerðingur.

Vel gert Hveragerðisbær!

xxx
Fía litla


Fyrir hverju snobbar þú?

Á hverjum morgni vaknar þú á einhverjum stað sem þú telur þig eiga eða hafa valið sem þinn í lengri eða skemmri tíma.Þú notar klósett og burstar tennur, þværð þér og klæðir þig. Allt þetta þarfnast ýmissa hluta sem þú telur vera þína eigin eða ætlaða þér. Svo færðu þér kannski morgunmat og lest blöðin. Hvoru tveggja virðist þitt á þeirri stundu.

Hins vegar er ekkert í rauninni þitt eða mitt. Allt er bara það sem það er og það er hluti af mun stærra samhengi en því hver á hvað. Eignarrétturinn skiptir engu máli. Hann er eyðandi afl. Að borga fyrir hlutina uppsett verð flækir annars mjög einfaldan veruleika. Allir hlutir eru sameiginlegir og hafa átt sér marga eigendur og mörg líf ef út í það er farið.

Tannkremið til dæmis. Í fyrstu er það bara hugmynd einhvers einhvers staðar. Svo er það hráefni sem sennilega er í eigu margra. Svo þegar það er saman komið í verksmiðjunni verður það eign eigenda hennar. þaðan fer það svo til heildsalans sem á það um stund. Frá honum til smásalans. Þú kaupir það og ferð með það heim til þín. Nú átt þú það. Í hvert skipti sem þú notar það gefurðu til baka svolítinn hluta af þessu tiltekna tannkremi. Þú þiggur og gefur í hvert einasta skipti sem þú gerir eitthvað.
Þetta á við um allt sem er. Hluti, hugmyndir og jafnvel tilfinningar.

Allt sem er hefur verið og mun verða.
Þetta er allt ein hringrás og þú ert aðeins örlítil arða af öllu því sem er.
Maðurinn er ekki efstur í ímynduðum píramída heldur staðsettur einhvers staður á hringferlinum sem er á stöðugri hreyfingu og þess vegna hvorki mikilvægari eða ómerkilegri en neitt annað

Það sem skiptir máli: Við - saman - okkar - allra - allt - heild -
Það sem skiptir ekki máli: ég/þú - einn/eitt - mitt/þitt

Allt sem við gerum hefur afleiðingar. Í hvert skipti sem við gerum eitthvað sem gengur þvert á innri sannfæringu, siðferði eða brýtur gegn almannaheill með einhverjum hætti erum við að raska hringferlinu. Þetta á við um allt.

Að bregðast ekki við innrás segjum hvítabjarnar í mannabyggð með náttúrulegum hætti heldur fara af stað með einhvern fáránlegan farsa til þess að við lítum betur út í augum einhverra sem við óttumst eða snobbum fyrir er dæmigerð hegðun sem raskar jafnvægi alls sem er. Samt gerum við þetta öll - snobbum jafnvel bæði upp og niður ef því er að skipta.

Að verja sig með orðum eða gjörðum er eðlilegt, náttúrulegt. Að verða reiður og gusa úr sér er eðlilegt, náttúrulegt. Hvoru tveggja er gagnlegt þegar upp er staðið. Hins vegar er skaðlegt að brugga öðrum eða öðru launráð og dvelja við illgirnislegar hugsanir. Að segja hlutina opinskátt er heiðarlegt, þarft, eitthvað sem kemur af stað hreyfingu og þess vegna gagnlegt.

Já-fólk og hamingju-hórur eru því huglaust fólk en ekki þroskað, í betra jafnvægi, jákvæðara eða betra en annað fólk. Að þykjast alltaf vera jákvæður og sanngjarn, yfirvegaður og hamingjusamur er hræsni og lygi og þess vegna skaðlegt athæfi.

Vertu leiður þegar þú ert leiður, reiður þegar þú ert reiður og komdu hreint fram.
Þá nýturðu þess svo miklu betur að vera glaður þegar þú ert glaður og hamingjusamur og jákvæður þegar þú ert í alvöru hamingjusamur.

xxx
Fía litla


Jólin klikka aldrei.........

jólin klikka aldrei! Sönglar Sigurður Heiðar frændi minn á 5 ári á meðan hann kubbar einbeittur eitthvað merkilegt úr þroskaleikfangakubbunum í safninu mínu. Jónheiður Anna mín og Sóldís Anna frænka mín og systir Sigga Heiðars eru þarna líka og flissa að vitleysunni í krakkaskítnum litla.

Jú! Segi ég. Einu sinni þegar ég var held ég 13 ára frekar en 12 þá klikkuðu jólin. Allir héldu að ég væri orðin svo mikil pæja að ég fékk bara eitthvað drasl í jólagjöf og ekki eina einustu bók!

Stelpurnar hvá í kór og svo segir Sóldís: Já og jólin mannstu þegar við komum til ykkar um kvöldið og þú varst búin að setja englahár á jólatréð - það var alveg ömurlegt! Oj já! bætir Jónheiður við og við ræðum þessi ömurlegheit eitthvað aðeins.

Það er vandlifað í þessari veröld. Þessi jól var eiginmaðurinn búinn að vera meira og minna veikur allan desember og fékk með herkjum að koma heim um blájólin og áramótin með því skilyrði að hann væri keyrður á spítalann tvisvar á dag í lyfjagjöf. Ég var að klára stúdentinn og hafði rúma viku til að græja jólin. Aldrei slíku vant hafði ég ekki byrjað að hugsa fyrir þeim í ágúst-september. Það var sem sagt brjálað að gera og í öllum áhyggjunum af honum Óla mínum ákvað ég að gleðja hann alveg sérstaklega þessi jól.

Hann hafði oft talað um það hvað jólatréð heima hjá honum var fallegt þegar búið var að dryssa englahárinu yfir það og ljósin á seríunni tindruðu í gegn. Ég kannaðist svo sem alveg við þetta en mig minnir að englahársnotkun hafi verið lögð af á mínu heimili um leið og jólastjörnurnar, hyasintur og alvöru lifandi jólatréð. það varð að gera vegna þess að Anna systir var með ofnæmi. (andskotans ónæðið alltaf af þessum smábörnum - það var nú ekki fyrir ekki neitt að maður þoldi ekki þetta skrípi)

Nema hvað að þegar við erum öll saman komin þarna á aðfangadagskvöld, foreldrar mínir, systir mín og co og svo við auðvitað þá eru allir röflandi og tuðandi yfir þessu helvítis englahári. Ég man ekki hvað það voru margir sem fóru í sturtu fyrir miðnætti en alla vega var Óli mjög illa haldinn og varð að leggja sig eftir sína á meðan ég reyndi að ryksuga mesta ósómann á brott.

jú jólin geta sko klikkað - og gera það helst þegar maður er eitthvað að rembast.
Næst er ég að spá í að vera bara rallhálf allan desember í konfektgerð og föndri í bland við jólahlaðborð og glöggpartý og sjá hvernig það verkast í mannskapinn.

xxx
Fía litla


Hvert ert þú að fara?

Allur heimurinn víkur úr vegi fyrir þeim manni sem veit hvert hann er að fara!

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Soffía Valdimarsdóttir
Soffía Valdimarsdóttir
Bara ég sjálf hvort sem ykkur líkar það betur eða verr!
Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.12.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 56444

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband