Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, desember 2008

Ýmislegt jákvætt í myrkrinu

Nú hefjast brátt strætóferðir á milli Hveragerðis og Reykjavíkur. Næsta önn er reyndar svo einkennileg hjá mér að ég þarf aðeins að mæta tvo daga í viku. Þetta hefur aldrei raðast svona áður. Er auðvitað mjög glöð með þetta en strætó verður ekki eins mikilvægur fyrr vikið. En frábært fyrir alla hina.
Gott framtak!

Svo verður þrettándahátíð í litla gúrkubænum mínum. Blysför að Hamrinum með álfum sjálfsagt og huggulegheitum. Líka gott framtak.
Stend mig að því að velta því óþarflega mikið fyrir mér hvernig álfabúningarnir ættu nú helst að líta út. Held stundum að menntun flæki bara málin frekar en hitt :) :)

Svo gleðst ég yfir tiltektartilburðum nýs bankastjóra Kaupþings. Nú hafa 5 toppar fengið að fjúka í aðgerð sem hann kallar skerpingu skila á milli gamla og nýja bankans.
Ég tek ofan fyrir honum!

Og svo síðast en ekki síst fagna ég innilega frá mínum innsta kjarna dómi sem féll yfir barnaníðingi í gær. Skrýmslið fékk 8 ár sem er met í þessum efnum.
Ég treysti því að samfangar hans geri honum lífið lítt bærilegt á meðan á afplánun stendur.

Sennilega er Guð til eftir allt saman................
xxx
Fía litla


Fordómar gegn fordómum ?!

Nú virðist mér sem þjóðernishyggja sé mjög í uppsveiflu að minnsta kosti á Íslandi. Reyndar víða um heim, en það er augljósast sem liggur beint fyrir fótum manns.

Þjóðernishyggja er bannorð í munni margra fávísra manna í þessum heimi!

Þjóðernishyggju er spyrnt saman við alls kyns sullumbull eins og til að mynda rasisma og nasisma.

Þetta eru hins vegar hugmyndafræðilega aðskilin fyrirbrigði þótt svo sögulegar staðreyndir á borð við Síðari heimsstyrjöldina tengi þau órjúfanlegum böndum.

Þjóðernishyggja lýtur að því mannlega atferli okkar allra að leitast við að vera sérstök en um leið hluti af heild. Við beitum öll sömu aðferðum í þessu skyni. Við beitum aðgreiningu til að skilgreina hvað er okkar og hvað ekki. Þeir sem eru öðruvísi en VIÐ, þ.e. hegða sér öðruvísi, eru öðruvísi á litinn jafnvel, hafa annan húmor, aðrar matarvenjur, tala önnur tungumál, önnur trúarbrögð o.s.frv. o.s.frv. Verða HINIR.

Menn skipta fólki upp í tvo hópa: VIÐ og HINIR.

Að aðhyllast þjóðernishyggju er í raun ekki annað en að leggja áherslu á menningu og sérkenni ákveðina hópa sem hafa svo kölluð þjóðríki á bak við sig og hafa með tímanum fengið nafnið ÞJÓÐ.

Þjóðríkið varð til þegar þörf þótti á að styrkja nýja samfélagsgerð Evrópu í kjölfar iðnvæðingar og sívaxandi borgarmenningar.

Þjóð er fyrst og fremst hópur. Ýmislegt gerir hóp að þjóð. Í mínum huga er það ekki síst sameiginleg menning sem gerir hóp að þjóð. Það er ekki túlkun allra. Sumum finnst landfræðilegar forsendur grundvallaratriði í skilgreiningu þjóða.

Þetta er allt saman einstaklingsbundið enda eins og B. Anderson sagði svo eftir var tekið þá er þjóð ímyndað pólitískt og félagslegt fyrirbrigði.

Ef við viljum ekki viðurkenna að við séum þjóð hvað þá með aðra hópa sem við tilheyrum?
Átt þú í erfiðleikum með að viðurkenna að þú sért annaðhvort karl eða kona?
Ertu barn eða fullorðinn, eða er það eitthvað loðið?

Nei við getum vel leyft okkur að vera þjóð ef við viljum það - og ef við þorum !!!
Það er ekkert ljótt við þjóðernishyggju.
Hún er alls staðar í kringum okkur í núinu.

Þorir þú?
xxx
Fía litla


Að finna strauma og stefnur eflast og hringa sig um daglegt líf fólksins.

Í öllum hug- og félagsvísindum er mikilvægur kostur að vera næmur á tíðarandann, geta fundið hvernig hjörtun slá.

Það skiptir miklu fyrir allan heildarskilning á mönnum og málefnum að geta litið yfir sviðið og skynjað leikinn jafnvel þótt tjaldið hafi verið látið falla fyrir jafnvel öldum og árþúsundum síðan.

Nákvæmlega svona er þetta lika í pólitíkinni. Þess vegna eru oft á tíðum dýrmætustu sprautur flokkanna ekki þeir sem sitja í eldlínunni heldur þeir sem vinna bak við tjöldin við að lesa og hugsa.

Á umbrotatímum eins og í dag spretta fram gríðarlega margir svona hugsuðir meðal almennings.
Sumum finnst þeir lítilsgildir og jafnvel hlægilegir.
Það eruð þið hins vegar ekki kæri almenningur.
Hjörtun ykkar slá ekki til einskis.

Takturinn sem sá sláttur gefur á eftir að fylla sögubækur og verða sporbraut mikilla persónulegra og opinberra uppgötvanna.
Í dag getum við lesið dagblöðin, horft á fréttirnar, lesið bloggin, spjallað saman augliti til auglitis og fundið á eigin skinni hvernig straumar og stefnur eru að mótast og eflast og hvernig þær hringa sig um daglegt líf fólksins í landinu.
Þetta er hægt vegna þess að kvikan í okkur er svo opin.
Við erum svo varnarlaus.

Nú þurfum við að stoppa reglulega og hlusta eftir takti hvors annars.
Við þurfum að stilla saman sláttinn svo hann að lokum verði þungur og kraftmikill óstöðvandi flaumur.

Hlustaðu.............
xxx
Fía litla


Líður að hefndum?

Skelfing er dautt yfirbragðið á litla þorpinu mínu nú um stundir!

Að sumu leyti má líklega segja að samstarf/dugleysi núsitjandi bæjarstjórnar/stjórnarandstöðu sé ánægjulegt. Hljómar vissulega mótsagnakennt -enda er það það.

Í fyrsta skipti frá því ég man eftir mér hreinlega er brostið á með miklum kærleikum vinstri/hægri, rauðum/bláum og óþægum/þægum í bæjarmálapólitíkinni í Hveragerði.
Hún er sum sé liðin í bili sú tíð að í hvert skipti sem maður brá sér út fyrir bæjarmörkin var maður spurður í háðungartón hvernig gengi í pólitíkinni í Hveragerði.

Í HVERAGERÐI HAFA MENN JÚ LÖNGUM SLEGIST BÆÐI INNAN FLOKKS OG UTAN UM VÖLDIN YFIR AKKÚRAT ENGU !!!

En núna eru allir vinir - af því að það er kreppa!

Einmitt. Mér er sem ég sjái nú þennan skrípaleikinn endast eitthvað.

Og jæja sveiattan jæja, kannski að það endist nú samt fram að næstu kosningum, eða kosningabaráttu öllu heldur.
En hver er afleiðingin?

Alger stöðnun í hálfdauðum bæ er það sem út úr þessu ástarsambandi fæst og ekkert annað!
Meira að segja Bláhver, málgagn Sjálfstæðisfélagsins kom varla út fyrir jólin að þessu sinni sem hann hefur þó gert með nokkrum sóma í árafjöld. Einn fölblár einblöðungur með prumpskrifum fáeinna embættisskrúfa var það sen kom í lúguna mína.

Og ekkert frá (mínu) fólki á vinstri vængnum - að minnsta kosti ekki í mitt hús.

Samstaða pólitík er aldrei annað en yfirvarp! Slíkt leiðir aðeins af sér stöðnun og dauða!

En þetta er ekki bara svona í mínu litla sveitaþorpi. Það er nú mergurinn málsins.
Það eru allir hættir að þora að vera til í þessu landi.
Það er allt samfélagið lagst í miðjumoð og doða.
Við erum öll deyjandi - andlega!

Embættismenn rændu okkur aleigunni og ærunni á meðan við sváfum móksvefni hins sprengsadda manns.
Þegar við röknuðum úr rotinu og áttuðum okkur í augnablik og kröfðumst réttlætis gáfu þeir okkur loforð um skil og efndir - skipuðu skilanefndir.

Það stendur hins vegar stórlega á bæði skilum og efndum.
Nú hlýtur brátt að líða að hefndum!!!
xxx
Fía litla


Kóngur einn dag

Bóndinn á afmæli í dag eins og allar aðrar Þorláksmessur alla vega síðan við kynntumst (og það er orðið helvíti langt síðan!)

Þennan dag rembumst við druslurnar á heimilinu við að vakna fyrstar. Markmiðið er að vekja manninn með gjöfum og helst af öllu bakaríisbakkelsi líka. Það vill nú sjaldnast svo til að það síðarnefnda takist en hefur þó komið fyrir.
Í morgun tókst það ekki.

En í bakaríið fór ég þó og afmælisbarnið fékk allt sem honum finnst best.
Hann fékk líka að lesa Moggann fyrstur.
Við þá iðju settist hann við borðsendann eins og ALVÖRU HÚSBÓNDI að eigin sögn. Við hin létum lítið fyrir okkur fara og sögðum ekki orð þótt við kæmumst ekki um þar sem hann blokkaði helstu gönguleiðir í eldhúsinu.

Maður er nefnilega alráður einn dag þegar maður á afmæli á þessu heimili.
Það er óspart notað af títtnefndu afmælisbarni enda hann með eindæmum kúgaður alla aðra daga ársins eins og hann lætur í veðri vaka við hvert tækifæri þennan dag.

Sem sagt spennandi dagur framundan í konungsríki Óla Toll

xxx
Fía litla


Stutt gaman skemmtilegt!

Stóra barnið mitt er á leiðinni heim.

Hann hefur verið í Austurríki á námskeiðum vegna fyrirætlaðs starfs við snjóbrettakennslu í Skíðaskóla í Ölpunum. Þeir hafa verið saman tveir Íslendingar og Hollendingur.

En svo í vikunni kom á daginn að það er ekkert að gera í þessum skíðaskóla.
Stórlega hefur dregið úr pöntunum.

Það er sem sagt kreppa þar líka. Færri foreldrar hafa ráð á að senda krakkana sína í skíðaskóla en áður.
Austurríska skíðasambandið gaf þær upplýsingar þegar þeir leituðu þangað eftir annarri vinnu að mun minna væri að gera núna en undanfarin ár svo það væri ekkert í boði nema uppvask og herbergjaþrif.

Eins gott og minn hefði nú haft af því þá eru launin svo lág að það er ekki viðunandi. Nú þarf að þéna og borga kostnaðinn af ævintýrinu. Þá er ekkert annað en að koma heim á hótel mamma.

Sem sagt bílfarmainnkaup í Bónus aftur á dagskrá,
en samt gott að fá púkann heim um jólin og allt það

xxx
Fía litla


Prjónakonu-jólalag

The 12 Days of Knitmas!

On the first day of Christmas
My true love sent to me
A Universal sweater machine.

On the second day of Christmas
My true love sent to me
Two turtle necks
And a Universal sweater machine.

On the third day of Christmas
My true love sent to me
Three French knits
Two turtle necks
And a Universal sweater machine.

On the fourth day of Christmas
My true love sent to me
Four needle sets
Three French knits
Two turtle necks
And a Universal sweater machine.

On the fifth day of Christmas
My true love sent to me
Five cashmere goats!
Four needle sets
Three French knits
Two turtle necks
And a Universal sweater machine.

(Moving right along)

On the [twelfth] day of Christmas
My true love sent to me
12 thrummers thrumming
11 purlers purling
10 llamas leaping
Nine knitters shopping
Eight bitches stitching
Seven hookers hooking
Six raglans blocking
Five cashmere goats!
Four needle sets
Three French knits
Two turtle necks
And a Universal sweater machine.


Helvítis jólakortin!

Eitt af því sem mér leiðist alltaf alveg hrikalega að gera fyrir jólin er að skrifa jólakortin.

Einu sinni fannst mér það rosa gaman. Bjó alltaf til stemmningu í kringum þessa athöfn og fór í málið í tíma.
En nú er öldin önnur. Ég fárast við að skrifa þau á síðustu stundu. Geng svo um með samviskubitshnút í maganum vegna þess að ég óttast að viðtakendurinir fái ekki afhent fyrr en milli hátíða og skilji þá hvernig allt er í pottinn búið.

Svona er maður nú hégómlegur og lítil sál eftir allt saman.

Nema hvað..............
Svo er alltaf gaman að fá jólakort!

Reyndar eru jólakortin eitthvað sem ég vildi alls ekki vera án um jólin. Hjá okkur er sá háttur hafður á að snemma í desember strengjum við band á milli tveggja nagla a vegg inn á gangi. Svo þegar jólakortin fara að berast fara þau jafnóðum klemmast þau jafnóðum á snúruna með þvottaklemmum - sko án umslagsins.

Með þessu móti erum við að minnast þeirra sem við þekkjum allan desember en ekki bara á aðfangadagskvöld þegar allar móttökurásir í toppstykkinu eru lamaðar af ofáti og tilfinningadeyfð því ríkjandi ástand.

Svo eru til kort sem mann hlakkar alltaf til að fá.
Það er ekki síst kortið frá Huldu (810 hér á blogginu) og Hannesi. Í því er nefnilega alltaf frumsamin jólavísa á hverju ári.

En allt á sér margar hliðar í henni veröld og jólakortin eru engin undantekning.

Í gær kom hið árlega jólakort frá Gunnu stöng og co.
Gunna stöng var með mér í 11 ára bekk. Viðurnefnið fékk hún vegna þess hve mjóslegin hún var á þeim tíma. Þið sem ekki eruð komin af barnsaldri vitið kannski ekki að Gunna stöng er kærasta Stjána Bláa sem var daglegur gestur á þeim heimilum sem keyptu Moggann í gamla daga.

Við Gunna urðum miklar vinkonur þetta ár og höfum alltaf vitað af hinni síðan. Nú síðustu árin reyndar með títtnefndum jólakortum.

NEMA HVAÐ........ Á kortinu í ár er mynd af Gunnu og eiginmanninum, Unnari litla og Ragnheiði Helgu og dóttur hans frá því áður. En svo er þarna líka fullvaxinn karlmaður (eða annað er ekki að sjá svona af myndinni) sem ég kann engin deili á.

Getur verið að þetta sé svona opið og frjálslegt samband?
Verð ég ekki bara að hringja í hana Gunnu?
Eða hvað?
xxx
Fía litla


Finnst ég bara verða að gera þessa játningu áður en ég fer í háttinn!

Ég horfði ekki á Silfrið á sunnudaginn og ég hef ekki horft á fréttir í þrjá daga.
Í dag skoðaði ég bara menningarumfjöllun og störnuspá og sjónvarpsdagsskránna í Mogganum.

Gerðist hamhleypa til verka, bakaði og bjó til konfekt og undirbjó sultu/chutney/smjör- gerð fyrir morgundaginn.

Er samt dáldið hrædd um að ég fari til helvítis út af þessu skeytingaleysi..........
Sjáumst
xxx
Fía litla


Fallegur en leiðinlegur maður = stórslys!

Ég hitti svo hrikaleiga leiðinlegan mann um helgina að ég veit þið trúið því ekki!
Það sem meira er, ég þurfti að tala heillengi við hann þótt mér væri það þvert um geð. Stöðu minnar vegna í þessu tilfelli gat ég ekki staðið upp og hundsað hann.

Hann er litlu eldri en ég.
Fyrrverandi Hvergerðingur.
Þótti svívirðilega myndarlegur og þykir sjálfsagt enn. Hefur veit ég farið nokkuð langt á lúkkinu en á að baki 3 misheppnuð hjónabönd.
Ég er ekki hissa - það er ekki hægt að vera nálægt svona köllum!

Hann er ógeðslega montinn.
Einn af þessum mönnum sem halda að þeirra köllun í lífinu sé að kenna konum sitt lítið af hverju um það hvernig veröldin snýst.

Það skelfilegasta af öllu var svo að mamma hans var á staðnum og mændi aðdáunaraugum á afkvæmið allan tímann. Allt sem hann sagði tók hún undir annað hvort með jáum eða látbragði.
Ég hélt í alvöru að hún myndi standa upp á einhverjum tímapunkti og laga á honum hárið eða eitthvað.

Hræðilega á sumt fólk bágt!

Er sjálfsbyrgingsháttur ekki bara það ömurlegasta sem nokkrum manni getur lagst til á lífsleiðinni?
Það er alla vega fötlun að vera svona hryllilega leiðinlegur.

Viljiðið segja mér frá því ef ég er svona svo ég geti brugðið mér afsíðis og klárað þetta.
xxx
Fía litla


Næsta síða »

Höfundur

Soffía Valdimarsdóttir
Soffía Valdimarsdóttir
Bara ég sjálf hvort sem ykkur líkar það betur eða verr!
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband