Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Bloggar

MND-dagurinn er í dag

Af því tilefni minnist ég nágrannakonu minnar, Maggýar, sem féll fyrir þessum hræðilega sjúkdómi í nóvember 2005.

Hún lifði lífi sínu í yfirveguðu rólyndi sem ég öfundaði hana oft af löngu áður en ég kynntist henni nokkuð að ráði. Ég sá hana fara hjá eldhúsglugganum mínum með stelpurnar sínar og skynjaði fumleysið og þolinmæðina sem þessi ágæta kona bjó yfir í svo ríkum mæli.

Þessir eiginleikar nýttust Maggý vel þegar sjúkdómurinn barði að dyrum. Hún bar harm sinn með reisn og styrkti tengslin við fjölskylduna og þá sem stóðu henni næst í stað þess að hrinda frá sér. Hún virtist sýna þessum vágesti sem MND er furðulegt umburðarlyndi og þolinmæði.

Ég þakka fyrir að hafa fengið að kynnast Maggý og læra af lítillæti hennar og gæsku. Öllum þeim sem berjast við MND og aðstandendum þeirra sendi ég ósk um góðar stundir og mildi í hjarta í erfiðum aðstæðum.

xxx

Fía litla


Stopp nú!

Skamm Soffía, skamm!

Nú bara má ég ekki kaupa neitt sem heitir garn meira í bili. Ekki eina einustu hnotu. Mér brá nefnilega í brún í gærkvöldi þegar ég fór í gegnum lagerinn á loftinu. Svo virðist sem á einum eða öðrum tímapunkti hafi ólíklegasta garn virst mér ómótstæðilega girnilegt, svo girnilegt að það varð að fylgja mér heim.

Þetta er orðið gott í bili. Nú þarf að virkja þessi hughrif sem urðu til þess að kortið flaug upp úr veskinu á sínum tíma í það að skapa eitthvað úr hráefninu.

Ef þú sérð mig í garnbúð þá endilega gríptu inni í og sláðu á fingurna á mér.

xxx Fía litla


Já, og til hamingju með daginn konur !

Ykkur órar ekki fyrir öllu því skemmtilega sem á daga mína hefur drifið undanfarna daga. Kannski af því að ég hef ekki nennt að blogga. Ég nenni því varla enn svo þið verðið bara að taka mig trúanlega.

Svo hefur auðvitað líka margt skelfilega vont og dapurlegt gerst að undanförnu, en ég er svo lánsöm í lífinu að ekkert af því hefur snert mig  og mína beinlínis að svo stöddu. Ég verð svo þunglynd og máttfarin andlega ef ég gef mig að öllum þeim hörmungum sem ganga yfir fólkið í landinu mínu þessa dagana að í eigingirni minni hef ég mikið til kosið að láta það liggja.

Þess í stað hef ég minnst þeirra sem á þurfa að halda í kyrrðarstundinni minni á hverjum morgni. Ég er svo einföld sál að ég trúi því að það geri gagn.

Svona bara ef þið ekki trúið mér hvað ég á gott líf þá skal ég til dæmis segja ykkur það í fréttum að ekki einasta á ég góða fjölskyldu mín megin heldur er tengdafamilían ekki síðri. Í gær kom ég heim úr heimsókn frá mágkonu minni í Önundarfirði þar sem slektið var saman komið til að fylgjast með örverpinu hennar lofa því á sjálfan þjóðhátíðardaginn að leitast við að hafa Jesús að leiðtoga lífs síns. Það var bara gaman og presturinn var ekki einu sinni leiðinlegur.

Svo slapp ég svona í kaupbæti við að verða vitni að þeim neyðarlega gjörningi að sjá þjóð mína halda upp á meint sjálfstæði sitt.

Lánið leikur við mig - og já, til hamingju með daginn í dag systur mínar allar um allt land!

xxx Fía litla


Helvítis fokking fokk!

Ég vaknaði því miður í vondu skapi í morgun.
Hef ekki hugmynd um af hverju.
(kannski af því að ég asnaðist til að lesa blöðin í gær, horfa á fréttirnar og svo Kastljósið í ofanálag. Djöfull er verið að taka mann hressilega í þurrt rassgatið þessa dagana - og sjálfsagt bara rétt að byrja !!!)

Kíkti svo í Moggann og Fréttablaðið og nú er ég brjáluð - alveg sjóðandi bandvitlaus í skapinu.
Mál og menning er að flytja og þá jafnvel burt af Laugaveginum!

Hvern fjandann á maður þá að vilja niður í bæ?
Í Iðu kannski til að kaupa pólitískt réttþenkjandi bókmenntaslys og túristabækur með harðspjöldum og krúttmyndum í bak og fyrir?

Andskotans, helvítis helvíti!
Fær ekkert að vera í friði í þessu fjandans gúanóríki?!

Farin að lesa um forspárgáfu völvunnar í Völuspá - kannski er einhverja svölun að finna í því - hvern fjandann veit ég!
xxx
Fía litla


Er kúkur köllun eða.......?

Halló fallega fólk!

Í dag hef ég eytt ófáum mínútum ef ekki klukkutímum í það að spa´í hvort það geti verið að ákveðnar starfsstéttir séu göfugri en aðrar. Drullu-skíta-plummera-meindýraeyðandi-stíflulosandi-kúkaskítakallar hafa verið mér ofarlega í huga í þessu sambandi svo ekki sé meira sagt.

Getur það verið að það séu markaðslögmál sem ráða því að sumir ákveða að gera það að ævistarfi sínu að smásjármynda rörin sem kúkurinn úr okkur hinum rennur um til sjávar?
Getur það verið að lögmálið um framboð og eftirspurn sé svona öflugt - bara náttúrlögmál eiginlega?

Nei ég spyr bara svona alveg úforvarendis af því ég veit ekki meir.

Eníveis - svo er ég líka búin að vera að pæla dáltíð í því svona í leiðinni hvort ég verði nokkurn tíma fullorðin.
Veit ekki alveg um það
xxx
Fía litla


Ókeypis

Bara að láta ykkur vita að það er opið alla daga í Listasafni Árnesinga frá kl. 12-18 og það kostar ekkert inn.

Nú stendur yfir ljósmyndasýning 8 íslenskra myndlistarmanna. Glæsileg sýning.

Næsta sýning opnar 5. júlí og verður samsýning á verkum Gerðar Helgadóttur og Nínu Tryggvadóttur. Þar verða snertifletir lífs og listar þessara tveggja stórmenna í íslenskri listasögu til umfjöllunar en þeir munu helstir vera stórborgin París og biskupsstóllinn í Skálholti.

Koma svo, ekki vera feimin - það þarf ekki í sparifötin eða stellingarnar til að koma við hjá okkur.
xxx
Fía litla


Hæ, ég er komin aftur!

Síðastliðinn fimmtudag brá ég mér í klippingu. Það væri kannski ekki í frásögur færandi nema fyrir þær sakir að ég þurfti að láta farva mig í leiðinni.

Það er nefnilega þannig að þótt svo allt láti undan síga sem sigið getur á mínum gamla skrokki þá neitar hárið á mér að grána. Í hvert skipti sem ég fer til hennar Guðrúnar Eiríku minnar spyr ég eftir gráu hárunum. Svarið er alltaf það sama: Nei ég get ekki séð nein grá hár ennþá.

Ég hlakka nefnilega svo til að fá grátt hár. Það er vegna þess að gráu hárin eru pínulítið grófari og þá um leið meðfærilegri en mitt fíngerða beibí-mjúka biðukolluhár. En það lætur sum sé á sér standa svo ég fer reglulega í strípur sem gefur sama effect og gráu hárin myndu gera alveg ókeypis og fyrirhafnarlaust.

Nema hvað - ég bað um að láta dekkja á mér hárið!

Ef ég hefði nú bara tekið eftir svipbrigðum míns kæra klippara og hlustað eftir hikorðum og viljað sjá augnasamtal þeirra systra Guðrúnar og Jóhönnu hefði ég líklega ekki ekki haldið þessu til streitu.
Útkoman var vægast sagt skelfileg.

Svo skelfileg að þegar ég vaknaði á föstudagsmorgun og leit í baðspegilinn klossbrá mér illilega. Hvað mannfýla það var sem starði á móti mér svefnbólgnum augum undan hangandi augnlokum var mér bara fyrirmunað að átta mig á. Ekki tók betra við um kvöldið. Ég hristi af mér mesta hrollinn og mætti galvösk í lokahóf hjá þjóðfræðinni. þar var mér vel tekið en þó með varfærnislegum spurningum á borð við: Varstu að láta lita þig?, og kannski ekki alveg eins varfærið: HVAÐ KOM FYRIR ÞIG!?

En verið alveg róleg, í morgun fór ég og lét gera mig að blondínunni sem ég er víst hvort sem mér líkar það betur eða verr.

Ég hlakka til að vakna í fyrramálið
xxx
Fía litla


Séra Soffía þjónar fyrir altari

Ég þori varla að segja þetta upphátt - en í draumum næturinnar var ég í hlutverki prests!

Þannig var að eftir hálf mislukkað bankarán við þriðja mann (sem ég flæktist einhvern vegin í með óskiljanlegum hætti reyndar) brá ég á það ráð að fara huldu höfði í gervi prests í Grafarvogsprestakalli.

það skipti engum togum að þá þegar eftir að ég hafði tekið við embætti skall á með messu eldriborgara þar í sveit. Húsið var smekkfullt af kannski síður smekklegum frúm og steggjum sem mændu eftirvæntingarfull upp á mig þar sem ég stóð á sviðinu skjálfandi af sviðskrekki og iðrun vegna nýafstaðins glæpaverknaðar.

Því háttaði þannig til að uppsetningin var líkt og í félagsheimili út á landi. Fólkið sat sitt hvoru megin upp við veggina við dúklögð borð og sötraði kaffi úr hvítum bollum með mynd af kirkjunni sinni í forgrunni. Gólfið var því autt fyrir miðju alla leið til enda salarins gengt mér hvar vinnuveitandi minn Jésús, tróndi ábúðarfullur á krossinum.

Ég upphóf svo raust mína og tilkynnti að í dag yrði messuhald með óhefðbundnum hætti - opið bænahald með skemmtiatriðum var dagsskipunin. Viðbrögðin létu ekki á sér standa. Kliður fór um salinn og vanþóknunar- og tortrygnisvip brá fyrir að mýmörgum reynsluskornum andlitum viðstaddra.

Að því sögðu lét ég mannskapinn fylgja mér í léttum leikfimiteygjum og hugleiðsluæfingum. Ekki leið á löngu þar til kona nokkur vel við aldur gekk fram á gólfið og kastaði sér niður í einkennilegum ham sem einkenndist af krampakenndum hreyfingum og upprópunum af óskiljanlegum toga.

Þegar ég rétt hafði sleppt þeirri hugsun að nú færi ég fyrst örugglega til helvítis vaknaði ég, merkilegt nokk, þokkalega útsofin og óvenju spræk.

Ekki skil ég upp eða niður í þessum draumförum mínum. Það segi ég alveg satt. Dettur helst í hug að væntanleg ferming miðlungsins míns valdi þessum ósköpum.

Geðveik? Tja ég skal ekki segja..........
xxx
Fía litla


Ég drap mann í nótt -

- sko í draumi!
Hann er víðfrægur meðhjálpari - sko í alvörunni.

Morðvopnið var grænn kúlupenni. Honum stakk ég á kaf í hjartað á honum en hann bar fyrir sig gullfallega ævintýrabók í kremlituðu bandi með gylltum stöfum. Blóðið seytlaði í blómlaga mynstur á kápuna út frá pennanum. Mér fannst liturinn fara vel við lit bókarinnar - það er að segja áður en blóðið tók að storkna.

Ég man ekkert af hverju ég drap hann. Þarna var samankomið heilmikið af fólki bæði á meðan verknaði stóð og svo á eftir. Við drukkum kaffi úr sægrænum bollum með Múmínálfamyndum á. Ég elska Múmínálfana.

Meðhjálparinn sat þarna bara dáinn og glápti álkulega út í loftið eins og hann ætti einhvern vegin ekki beint heima á þessari samkundu. Enginn skipti sér af honum.

Einhver krakki vildi fara að gera mál úr því undir kvöld að maðurinn væri svo skrítinn á litinn og hvort við ættum ekki að hringja í lækni. Enginn tók undir - enda var komið grand saman við kaffið á þessum tímapunkti.

Svo vaknaði ég.
Klukkan var tólf:fimmtán, á hádegi.

Það er gott að vera komin í skólafrí
xxx
Fía litla


Frammistöðukvíði?

Það er eins gott að það komi sterkt útspil hvað varðar skuldir heimila og fyrirtækja frá þessari ríkisstjórn þegar hún loksins drullast til að lýsa yfir tilvist sinni og koma sér að verki.

Mig er farið að gruna að fólkið sé svo hrætt við það sem bíður þess að það lengi í stjórnarmyndun af ásettu ráði. Skil það reyndar mjög vel. Það er ekki við geðslegu búi sem þetta aumingjans fólk tekur.

En hvað um það, þetta vilduð þið og nú skulið þið fara að vinna vinnuna ykkar kæra fólk
xxx
Fía litla


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Soffía Valdimarsdóttir
Soffía Valdimarsdóttir
Bara ég sjálf hvort sem ykkur líkar það betur eða verr!
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband