Leita í fréttum mbl.is

Hvítabjarnarblús

Menn koma engu til leiðar nema vera virkir þjóðfélagsþegnar - Menn verða að þora að taka sjálfstæðar ákvarðanir!!!

Þetta sagði yfir-geðluðran og norsarinn Geir H. Haarde meðal annars í gær í tilefni dagsins.

Ja heyr á endemi! Er þetta ekki sami forsætisráðherrann og sá sem situr í þeirri sömu ríkisstjórn sem lét allt annað en eigin sjálfstæðu ákvarðanir og almennt hyggjuvit stýra sér og sínum í Hvítabjarnarsirkus I og II ???

Fyrr munu nú held ég háfar hlaupa á land og frómar jómfrúr fæða fimmbura en að þessir hugsjónalausu vesalingar í sjálfstæðis-samfylkingar-grátkórnum ógurlega taka sjálfstæða ákvörðun um nokkurn skapaðan hlut.

Ég skammast mín hreinlega fyrir að vera Íslendingur í dag. Verð að segja að mér fannst hjákátlegra en allt sem hjákátlegt getur orðið að þessi fíflagangur skyldi eiga sér stað á mesta pappakassadegi allra pappakassa -
17. júní.

Hvaða SJÁLFSTÆÐ þjóð lætur allt og alla aðra segja sér hvernig hún eigi að leysa vandamál sem koma upp í hvunndeginum? Hvaða heilvita manni dettur í hug að bíða eftir erlendum sérfræðingum sem fá ekki pössun fyrir krakkana sína til að afgreiða yfirstandandi vanda eins og þennan með þennan hvítabjörn þarna í gær? Hvers vegan dregur ekki eitthvað af þessu fólki sem fær laun fyrir að stýra og stjórna, hausinn út úr rassgatinu á Evrópusambandinu og NATÓ og tekur sjálfstæðar ákvarðanir svona einstaka sinnum?

Segi ekki fleira í bili. Er svo þrekuð eftir að fylgjast með miðaldra sænsk-sósíal-demókratískri stjórnmálakonu með íslenskt ríkisfang og rauðan makka sem sannar norrænan/keltneskan víkingauppruna hennar (því annað gerir það ekki) gera sig að örlagafífli fyrir framan alþjóð.


17. júní

Fjórir verðandi menn
rúnta
í túrkísgrænum willis
með blæjuna niðri.
Fáni lýðveldisins slæst til á húddinu,
gasblaðran á veltigrindinni reynir að slíta sig lausa.

Keyra fram og aftur Breiðumörk
- Austurmörk.
Með hárið beint aftur.

Frjálsir
í frjálsu landi,
njóta lífsins
í algleymi
allt þar til nýr dagur rennur upp
með tóman tank
og skyldur hversdagsins.

Er á meðan er............


Að kasta perlum fyrir svín

Helgin sem var að líða var ein af þessum fullkomnu.

Var í vinnunni á laugardag en svo í fríi á sunnudag. Laugardagurinn var einn af þessum dögum þegar allt gengur upp og meira til. Daginn þann fékk ég svo margar góðar hugmyndir og hrinti svo mörgu smáu en þarflegu í framkvæmd bæði innan kolls og utan að það er ekki einleikið held ég bara.

Ein hugmyndin (sem er reyndar óskilgetið afkvæmi annarrar ágætrar hugmyndar frá því fyrr um daginn) er svo stórkostleg að ég bara er alls ekki búin að jafna mig ennþá - og það sem meira er - hún er raunhæf!!! Það verður nú seint sagt um allar mínar hugdettur.

Þriggja tíma eldunarferli leiddi svo af sér eina af þessum dásamlegu máltíðum sem mér finnst svo gaman að galdra fram. Félagsskaðurinn var hins vegar ekki alveg í stíl við rest. Það var nefnilega þannig að við sátum 5 til borðs: Ég, eiginmaðurinn og krakkaskrípin 3. Karlarnir húktu sofandi eða ropandi eða fretandi fyrir imbakassann á meðan við mæðgurnar dúlluðum okkur við að pilla humar og tilheyrandi. Nú svo þegar maturinn var á borð borinn héldu þeir þessum skemmtilegum háttum bara áfram eins og ekkert væri sjálfsagðara. Ég segi nú ekki að það hafi verið sofið ofan í diskana en ropar og fretir voru á efnisskránni svo ekki fór framhjá neinum viðstöddum.

Ég segi það og meina það: Karlar eru og verða svín og ógeðisplebbar - má ég þá heldur biðja um kvenkyns félagsskap!!!

Sunnudagurinn var svo ekki síðri. Þá gerði ég það sem mér finnst jafnvel enn skemmtilegra en að elda og borða. Ég keypti eða öllu heldur pantaði nýtt leirtau og glös í tonnatali. Spurning hvort við mæðgurnar rekum ekki bara kallana út í bílskúr þegar við vígjum stellið.


Verðmætamat

Mikið búin að spá í verðmæti og verðmætamat eftir þennan jarðarhroll þarna um daginn.

Held að niðurstaðan sé sú að móðurmálið sé dýrmætasta eign hverrar manneskju.

Hvað finnst ykkur - getur það verið?


Eftir skjálftann

Skelfing er ég orðin leið á þessu skjálftatali!

Jú jú auðvitað er fólk hrætt en hvaða rugl er þetta? Það er ekkert drama í gangi - allir meira eða minna heilir eftir en eitthvað aðeins minna í leirtausskápunum.

Kannski er ég bara tík - veit það ekki - er alveg sama líka - nenni bara ekki að tala um þetta endalaust.

Ætlaði að bjóða 26 konum í boð í gær en hætti við þar sem ég sá fyrir mér misfullar kellingar að röfla um skjálftann fram á morgun. NENNI ÞVÍ EKKI!!!

Eitt fyndið að lokum:

frændi minn á 5 ári kom inn í herbergið sitt skömmu eftir skjálftann og sagði: Váááá - nú er þetta sko ekki mér að kenna!!!

xxx
Fía litla


Erum á uppleið!

Suðurlandið er í sókn í menningar- og menntamálum.

Listasafn Árnesinga í Hveragerði er á góðri leið með að verða stórvirki í íslensku menningarlifi. Ég finn hvernig andrúmsloftið breytist í þessa átt með hverri sýningunni og hverjum mánuðinum sem ég vinn þarna. Þetta er fyrst og síðast að gerast undir stjórn safnstjórans, Ingu Jónsdóttur. En það er líka stjórn safnsins að þakka. Það sem mér þykir þó vænst um er að sitjandi bæjarstjórn Hveragerðis og fulltrúarnir allir reyndar virðast átta sig og vera með í upphífingunni.

Eyrarbakki er smátt og smátt að verða aftur einhver helsta menningarmiðstöð landsins. Þar eru í fararbroddi kraftmiklir einstaklingar eins og alls staðar þar sem raunverulegur uppgangur á sér stað. Gónhóll og Húsið og Rauða húsið - allt perlur. Eyrarbakki er uppáhaldsstaðurinn minn á Íslandi - líka í rigningu.

Fjölbrautaskóli Suðurlands á Selfossi stendur í metnaðarfullri framþróunarvinnu í menntamálum. Þar hafa verið settar á stofn svokallaðar akademíur sem bjóða upp á sérstaka aðstöðu í ýmsum íþróttagreinum samhliða venjulegu bók- og verknámi sem skólinn býður upp á. Það sem mér finnst merkilegast þarna er að þessi nýbreytni tekur sérstaklega mið af þeirri tómstundaiðkun sem börnin á svæðinu hafa stundað hvað mest undanfarin ár. Þannig verður nám í FSu fýsilegri kostur fyrir þá krakka sem hyggja á framhaldsskólanám yfirleitt þar sem áhugamál þeirra er hluti af náminu.

Þetta er snilldarleg byggðastefna. Ekki einasta haldast krakkarnir svolítið lengur heima við heldur eykst aðsókn úr öðrum landshlutum líka í skólann.

Það er ekki allt vont í sveitinni...........


Mig skal ekki undra

Þetta er uppáhaldslagið mitt þá, núna og sennilega alltaf.................
mbl.is „Mest hugsað til Pink Floyd“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Endalaus hátíð!

Já það má nú segja.

Hvenær skildi maður gera sér fyllilega grein fyrir því hvað maður er lánsamur að lifa í landi þar sem frelsi til orðs og æðis er raunverulega mögulegt? Sennilega aldrei. En í dag komst ég nokkð nálægt því.

Morgunverkin mín á þessum ágæta degi voru nefnilega tvö eftirfarandi og þeim er að fullu lokið:

1. Sagði mig loksins úr Þjóðkirkjunni
2. Sagði mig loksins úr Samfylkingunni

Ja ef það er ekki tilefni til að skála núna þá veit ég ekki hvenær.
Er farin að fá mér morgunmat.......

Lifið heil
Skál !
xxx
Fía litla


Þarf að láta ballensera

Nú finn ég að litli svartálfurinn innan í mér er að ná yfirhöndinni. Ég veit það vegna þess að smám saman hefur fleira og fleiri orðið kaldhæðni minni að bráð og mig langar að rífa kjaft við forsetann. Mig langar að segja honum að einu sinni þegar hann hafði meiri teygjanleika í húðinni og átti færri vini í útlöndum þá hefði hann orðið brjálaður ef einhverjum hefði dottið í hug að biðja hann að skrifa undir plagg þess efnis að auðmenn og stórfyrirtæki þyrftu ekki að greiða söluhagnað.

Ég ætla að hugleiða tvöfalt á morgun!

Lifið heil
Fía litla


Að kunna að skammast sín

Það er mjög hollt að kunna að skammast sín. En það er ekki þar með sagt að allir skammist sín fyrir það sama.

Flestum sem ég þekki hefur þó verið kennt að skammast sín fyrir það meðal annars að segja ósatt og að troðast fram fyrir aðra. Samt kemur það auðvitað fyrir besta fólk að gleyma sér í hita leiksins og gera eitt og annað sem það svo ætti að skammast sín fyrir síðar. En það er bara svo mannlegt og skiljanlegt.

Tökum dæmi:

Segjum að ég væri í framboði í einhverju tilteknu ríki og væri þar bæði mjög áberandi og frambærileg - jafnvel svo frambærilega að hörðustu andstæðingar þess stjórnmálaafls sem ég byði mig fram fyrir gætu hugsað sér að kjósa mig. Svo myndi ég svara því aðspurð á framboðsfundi á elleftu stundu að ég ætlaði ekki að setjast beint í ríkisstjórastólinn að kosningum loknum heldur yrði áreiðanlega auglýst eftir einum slíkum ef mitt framboð bæri sigur úr býtum.
Nú nú - svo færu fram kosnigar og ég og mitt fólk myndum vinna þær. Svo nokkrum klukkustundum síðar bara eins og ekkert væri sjálfsagðara myndi ég vera orðin ríkisstjóri og engin auglýsing hefði komið þar við sögu.

Sennilega myndi mér líða óskaplega vel og finnast ég bæði dugmikil og ábyrgðarfull á þeirri stundu sem ég tæki við embættinu. En af því að ég er ég þá veit ég líka að þegar af mér rynni sigurvíman þá myndi ég skammast mín.

Ég myndi skammast mín vegna þess að ég hefði bæði sagt ósatt og troðist fram fyrir í röðinni.

Þess vegna myndi ég líka vera ofurviðkvæm fyrir allri gagnrýni af því að þannig líður mér þegar ég skammast mín. Sennilega myndi ég samt sem áður reyna að vera góður ríkisstjóri - ég vildi jú alltaf það besta fyrir ríkið mitt þótt ég gleymdi mér augnabliksstund á hátindi sigurvímunnar. Og viti menn, mér myndi takast það - ég væri alveg hreint ljómandi ríkisstjóri sem gerði margar góðar umbætur í ríkinu.

Að kunna að skammast sín segir ekki bara til um að viðkomandi sé vel upp alinn heldur líka að sá hinn sami hafi samvisku og réttlætiskennd. Sá sem skammast sín er ekki kaldrifjaður. Þess vegna er það gott fólk sem kann að skammast sín og er á verði gagnvart athugasemdum samborgara sinna um eigið athæfi. Ég fagna því að fólkið í kringum mig kann að skammast sín. Ég er þá ekki eins alein í minni skömm frá degi til dags.

Bestu kveðjur
xxx
Fía litla (Athugið! - Á þessu bloggi má gera athugasemdir)


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Soffía Valdimarsdóttir
Soffía Valdimarsdóttir
Bara ég sjálf hvort sem ykkur líkar það betur eða verr!
Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (13.7.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband