Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, maí 2008

Í draumi sérhvers manns er fall hans falið..........

Ég er svo þreytt!

Mig dreymdi í nótt að ég væri að fara í flug og allt sem gat hugsanlega farið úrskeiðis gerði það eða eitthvað gaf í skyn að svo myndi fara. Ég bara nenni ekki að telja það allt upp.

Draumurinn endaði á því að ég sat inni á kontór hjá tveimur einkennisklæddum mönnum sem sneru baki í mig og töluðu eitthvað í hálfum hljóðum en samt þó nógu hátt til að þeir yfirgnæfðu tikkið í klukkunni svo ég gat ekki fylgst með tímanum líða.

Á meðan á þessu stóð drakk ég einhvern slatta af diet kóki og þurfti svo að kaupa meira þegar ég slapp frá köllunum sem varða að lokum til þess að ég gleymdi mér og missti af vélinni.

Ég held ég þurfi hjálp - ég er ekki að grínast!


Gungur!

Mér finnst satt að segja stórmerkilegt að fá ekki komment á síðustu færslu hér fyrir neðan. Þetta er nú svona alveg á mörkunum - í það minnsta dálítið ögrandi myndi ég segja svona í restina. En Það komu 69 ID inná í gær og bara 1 múkk!

Að sjálfsögðu er ég ekki að segja að kjósendur Sjálfstæðisflokksins SÉU fávitar en hvað á maður að halda.............?

Það er tvennt í stöðunni:

Annað hvort á fólk ekki orð yfir það hvað þessi kona er klikkuð og finnst ekki orðum eyðandi á hana

eða

það hefur einhverja skoðun sem það þorir ekki að viðra

Hvort heldur sem er skemmti ég mér konunglega hérna megin við skjáinn - það er alltaf gaman að hræra í skítnum!


Eru kjósendur Sjálfstæðisflokksins fávitar?

Við kjósum á 4 ára fresti fólk til að gæta hagsmuna okkar en það gerir svo eitthvað allt annað. Hagsmunir stórfyrirtækja á borð við bankana eru rétthárri en barnafjölskyldna til að mynda hjá þessu fólki sem hefur stjórnað landinu mínu undanfarið.

Bankarnir með Kaupþing í fararbroddi eru búnir að fara um fjármálamarkaði heimsins með þvílíku offari og græðgisbáli að íslenska þjóðin og hagkerfið hefurfengið óorð á sig sem seint mun vaskast af að fullu. Ég þakka guði fyrir að vera ekki að vinna hjá þessu skítafyrirtæki lengur - fyrr vildi ég vera atvinnulaus!

Lausafjárkreppa á heimsmarkaði er ekki það versta í stöðunni fyrir okkur smælingjana núna. Það sem er verst eru vextirnir á þeim lánum sem við höfum tekið nú þegar og svo auðvitað gengið. Hverjum er sú afarstaða að kenna?

Ég held að það sé helst við bankana að sakast. Umsvif þeirra og gjaldeyriskaup felldu krónuna - og þá sem leyfðu þessu að gerast - og nú logar allt.

Sami flokkurinn er búin að vera við stjórn hátt á annan áratug á meðan á öllu þessu hefur gengið. Nú sitja þessir dónar og klóra sér í hausnum og biðja okkur -smælingjana - að opna buddurnar til að bjarga bönkunum.

Hver á að bjarga mér og þér á meðan Sjálfstæðisflokkurinn kaupir sig inn í ríkistjórn eitt kjörtímabilið enn?

Hvað þarf eiginlega að gerast til þess að fólk átti sig á að það er eitthvað bogið við stjórnunarhætti Sjálfstæðisflokksins? Ætlum við kannski bara að bíða eftir því að heilbrigðisþjónustan verði seld undan okkur til einhverra fárra sem hafa aðstöðu til að græða á því? Og hvað þá? Á þá að sjá eftir öllu saman - þegar það er orðið of seint?

Ég skil þetta ekki!!!!!!

Ég skil ekki af hverju sama prósentutalan nánast í hverjum einustu kosningum kýs Sjálfstæðisflokkinn. Þetta er ekki eðlilegt! Minnir á hjarðhugsun af versta tagi. Mannskepnan er að vísu félagsvera en hjarðlifnaður er bara búið mál í þessum heimshluta.

Af hverju hugsar fólk ekki fyrir sig sjálft? Ef fleiri gerðu það myndu atkvæði skiptast mun jafnara á milli framboða - nokkurn vegin sama hvaða flokkar væru í boði. Á endanum yrðu bara tvær fylkingar, mestalagi þrjár sem gerir allt einfaldara og skilvirkara.

Eina skýringin sem ég hef á takteinunum núna er sú að fylgjendur Sjálfstæðisflokksins séu bara hreinlega þynnri þrettándi vitsmunalega en annað fólk!

Hana - þá er ég búin að segja það!


Ég er mamma mín!

Manstu þegar þú varst unglingur og mamma þín var í stuði?

Ég man það eins og gerst hefði í gær þegar mamma brast í söng með útvarpinu eða yfir pottunum og söng í sleifina kannski eða dillaði sér framan í mig. Þetta var hrikalegt!

Haldiði ekki að ég sé orðin mamma mín!!

Jú jú. Það er nefnilega þannig að miðlungurinn minn fer alveg á taugum þegar ég er í verstu köstunum. Ég má alveg reyta af mér brandarana og rífa kjaft við sjónvarpið - en að vera í stuði - nei þá fer hann alveg ´ikerfi.

Þetta er nýtt fyrir mér því sá elsti var ekkert að stressa sig yfir mér eða yfirleitt. En það er nú ekki aldeilis endalaust. Miðlungurinn sem sagt alveg við hliðina á sér út af mömmu sinni og örverpið að hita sig upp í það sama.

Þett´er geðveikt skemmtilegt!!!!!!!!!!!!!

Núna er ég alltaf í stuði meira og minna allan sólarhringinn - það er að segja þegar ég get vegna hláturskrampa.

Adíós amígós
Er´ekki allir í stuði?!


Ég vil fá póstinn minn!!!

Við í Hveragerði þurfum að sækja póst á afgreiðslustöðina sem búið að greiða fyrir heimsendingu á. Þetta eru ekki margar krónur á ári per. neytanda í landinu sem svona eru sviknar út en það er ekki það sem skiptir máli. Það sem skiptir hins vegar höfuðmáli er að standa vörð um réttindi sín á hverjum tíma.

Í gær talaði ég því við afar kurteisa konu á Selfossi. Hún er yfirmaður dreifingar á mínu svæði skilst mér. Það eina sem ég vildi fá skýrt og HEIÐARLEGT svar við var það hvort svo væri í pottinn búið að það væri búið að greiða fyrir póstinn heim að húsdyrum sem ég þyrfti svo að sækja sjálf á pósthúsið. Já eða nei!

Ekki gat hún orðið við þessu konuskinnið heldur reyndi að snúa kurteisilega út úr fyrir mér. Svo benti hún mér á að hringja í þjónustustjóra Íslandspósts. Það hafði ég reyndar reynt áður en ég hringdi á Selfoss en stúlkan á símanum vissi ekki hver gengdi þeirri stöðu.

Nú hringdi ég fjórum sinnum til viðbótar í Lilju - en sú á Selfossi reyndist vita nafn þess ágæta starfsmanns - sem ég hef reyndar aldrei talað við því svörin voru:

Ah - hún er reyndar aðeins upptekin
Ah, öh hún er upptekin í augnablikinu
Heyrðu ég held hún hafi aðeins skroppið frá
Já, nei hún er bara aðeins upptekin núna
Og svo að lokum þegar ég hafði tjáð undrun mína yfir önnum þessa mikilvæga starfsmanns sem starfsmenn á þjónustuborði virtust ekki þekkja betur til en svo að ég var send á Selfoss í upphafi:

Já nei heyrðu - hún tekur ekki símann í dag!!!

Það var nefnilega það - 5 símtölum síðar allt í allt kemur þetta - og má ég nefna það svona til skemmtunar að það var sama manneskjan á skiptiborðinu sem svaraði mér í öll skiptin þannig að ekki var nýr og nýr starfsmaður skýringin á því að ég var látin hringja öll þessi símtöl í manneskju sem ætlaði sér ekki að tala við mig!

Ég hef frekar lítið toleranse fyrir svona fávitagangi þannig að nú geri ég bara það sem ég lærði heima hjá mér: Tala bara strax við kónginn! Þess vegna sendi ég þetta bréf í dag, hvort það virkar eða ekki er aukaatriði - það er prinsippið sem skiptir máli:

Ágæti Talsmaður neytenda

Mig langar að benda á að Íslandspóstur rukkar sama gjald fyrir sendingar á rúmfrekum bréfum hvort sem sent er til byggðarlaga þar sem slíkar sendingar eru keyrðar heim eða ekki. Það þýðir að sá sem greiðir hefur í öllum tilfellum greitt fyrir tiltekna þjónustu sem er svo bara veitt á ákveðnum stöðum. Þannig er jafnræðisréttur brotinn á sendanda. Þau svæði þar sem ekki er boðið upp á heimkeyrslu rúmfrekra bréfa (eða á póstsendingum yfirleitt) fá þá í raun ekki þá þjónustu sem búið er að greiða fyrir. Svo til að bæta gráu ofan á svart auglýsir fyrirtækið þessa þjónustu grimmt í sjónvarpi og víðar sem er svo ekki innt af hendi nema því henti það. Það getur ekki staðist lög að rukka fyrir auglýsta þjónustu sem er svo vísvitandi og með skipulöguðum hætti ekki innt af hendi.

Bestu kveðjur með von um viðbrögð
Soffía Valdimarsdóttir


Kallinn og krakkarnir orðnir of þurftafrekir?

Þannig er mál með vexti að kettlingarnir hennar Klöru hafa bara haldið áfram að stækka og stækka.

Nú er svo komið að þeir líta út eins og kisur en ekki loðnir kjúklingar. Svo eru þeir líka farnir að leika sér á milli þess sem þeir sofa og drekka. Þeir kútveltast hver um annan þveran í kassanum og mamma þeirra stendur hjá og gefur frá sér eitthvert hljóð sem ég ímynda mér að eigi að tjá ánægju eða eitthvað álíka. Þetta er ekki mjálm eða hvæs eða breim heldur eitthvað sem mér finnst geta kallast kumr - hvað sem það nú þýðir.

Voða krúttlegt allt saman. En það er farið að fara um mig. Klöru, þessari þriggja kisu mömmu virðist vera farin að leiðast vistin við barnauppeldi og þvotta. Hún situr um hvert tækifæri til að laumast út. Já þetta er háalvarlegt mál! Hvert tilkynnir maður grun um svona vanrækslu á ungviði? Hver á að taka við umönnun hinna vanræktu? Hvað gerist ef ég einn daginn stend mig að því að taka þessi kvikyndi upp og.............

Nei mér líst hreint ekki á blikuna, það segi ég ykkur alveg eins og ég meina það.

En viljið þig ekki fá ykkur eina litla kisulóru á heimilið? Þetta er voða hollt fyrir börn og karlmenn. Og þetta er að vissu leyti hagkvæmt fyrir húsmæður. Það þarf nefnilega ekki að sinna altso kalli og krökkum eins mikið þegar svona lagað er á heimilinu. Það er eins og kisuklapp og knús dragi úr athyglissýki og hvers kyns relli hjá minnimáttar.

Já nei nei það er alveg óþarfi að æsa sig - það er staðreynd að kallar og krakkar eru minnimáttar þegar inn á heimilin er komið - þar rúlum við konur án mikilla undantekninga. Það er vel hægt að leyfa köllum að halda að þeir ráði einhverju en við í pilsunum vitum betur.

Þannig að ef þú ert kona og átt kall og krakka þá hafðu samband og ég skal útvega þér eina litla hjálparhellu.
Það veit sá sem allt veit að ekki veitir af.

Baráttukveðjur

Fía litla


Svo er maður að hafa áhyggjur........

..........af smámunum eins og verðbólgu og barnaníðingum!

Ég sé það núna að það er óþarfi - það er fólk þarna úti sem hefur raunverulegan metnað og áræði til að gera heiminn að betri stað að búa á!


mbl.is Ásdís Rán í Playboysetrið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað á að gera við barnaníðinga? - Ókeypis sparnaðarráð handa örþrota þjóð

Dæmið alla þá sem finnast sekir um barnaníð í ævilangt fangelsi án möguleika á náðun og vistið á deildum með harðsvíruðustu glæpamönnum á hverjum tíma.

Þetta mun spara útgjöld samfélagsins gríðarlega þegar allt er tekið með og fram líða stundir.

Níðingurinn mun ekki skemma fleiri börn = þetta óeðli verður alltaf til en þessi tiltekna orsakakeðja kynferðisafbrota slitnar með tilheyrandi lækkun á samfélagslegum útgjöldum vegna málarekstrar, meðferðar fórnarlamba og gerenda, fíknimeðferða fórnarlamba og gerenda o.s.frv. o.s.frv.

Annað er að samfangar ku vera miskunarlausir gagnvart barnaníðingum af því að margir afbrotamenn eru einmitt fórnarlömb kynferðisafbrotamanna = fangar fá geðlausn = hugsanlega minni kostnaður við geðhjálp fyrir þá (nú ef ekki þá er þeim það ekki of gott greyunum að hafa einn eða tvo perra til að pynda)

Það græða allir á því að loka þessi skrýmsli inni. Og nóg er af þeim þannig að um meiriháttar ávinning er að ræða.

Hvernig er það líka verjandi að maður á borð við Steingrím Njálsson gangi alltaf laus annað slagið?

Myndir þú vilja bera ábyrgð á því?

Eitt að lokum: horfðu í augun á fólki áður en þú treystir því fyrir börnunum þínum. Ef þú sérð eða finnur eitthvað sem vekur minnsta vafa af einhverjum toga hættu þá við. Þú þarft engum að segja hvað þú skynjaðir eða hvað þú heldur - eða heldur að þú haldir - það varðar engan um það. En láttu innsæið ráða og börnin alltaf njóta vafans.


ÞJÓÐ-kirkja er það málið?

Venjulegur skattgreiðandi greiðir ákveðið gjald til Þjóðkirkjunnar árlega nema að hann hafi skráð sig í annað trúfélag eða utan trúfélaga. Opinbera skýringin á þessu gjaldi er sú að með því sért þú að greiða fyrir vist í garði - heitir kirkjugarðsgjald held ég. Þetta er eitthver skiterí en samt.....

ókei!
Þegar þú svo verður fyrir þeirri ógæfu að einhver á þinum snærum deyr er þessi skattur gleymdur og grafinn. Vissulega fær hinn látni gröf í garði en þú þarft að taka upp veskið og borga fyrir gröftinn. Sjálfsagt er það misjafnt eftir prestum en í sumum tilfellum þarftu svo líka að borga prestinum fyrir að þrugla yfir kistunni. Það gera þeir misvel en það er ekki óalgengt að fólk kvarti yfir því að rangt hafi veri farið með jafnvel grundvallaratriði í lífi þess látna. Þannig eru börn rangt feðruð eða bara ekki talinn með í systkinahópnum og fleira í þessum dúr.

Allir geta gert mistök en mann grunar að ekki sé nógu vandað til verksins þegar maður fer í 2 jarðarfarir hjá sitt hvorum prestinum í röð þar sem svona er staðið að málum. Það grófasta sem man eftir sjálf var þegar presturinn marg fór rangt með nafn hins látna. Fyrr má nú vera helvítis handvömin ef ekki er hægt að hafa það rétt.

En þetta er ekki það sérkennilegasta heldur það að á meðan við tórum þurfum við að greiða prestinum sérstakt gjald persónulega og prívat fyrir hvert verk sem við þiggjum af hans hendi. Skírn, ferming, gifting og svo jarðarförin.

Hvernig stendur á því að hinn almenni borgari þarf að taka upp veskið og borga opinberum starfsmanni aukalega fyrir að mæta í vinnuna?

Af hverju lætur fólk bjóða sér þetta möglunarlaust?

Af hverju rekur ríkið trúfélag?
Skilur það einhver?

Ég spurði einn af frambjóðendum Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi fyrir síðustu Alþingiskosningar hvar hann stæði í sambandi við aðskilnað ríkis og kirkju. Jú sjáðu nú til sagði hann drýgindalega (ég hata karlmenn sem tala við mig eins og ég sé fáviti !!!) Þetta er nú svona eitt af því sem almennt samþykki ríkir um hjá þjóðinni að sé þjónusta sem hið opinbera eigi að bjóða upp á!

Já er það sagði ég þá og gerði mig eins fávitalega og ég gat (fólk fær það sem það biður um)
Og hvenær hefur þjóðinni verið gefið tækifæri til að tjá þá samstilltu skoðun sína?

Ekkert svar auðvitað..........

Og ég er enn að spyrja því ég fæ ekki svör og ég trúi því ekki að vitiborið fólk vilji reka þetta batterí með núverandi fyrirkomulagi.

Ef það verður sannarlega lýðræðisleg niðurstaða þjóðarinnar á einhverjum tímapunkti að ríkið eigi að reka trúfélag fyrir þegnana þá mæli ég með að sú starfsemi verði boðin út. Það reynir þá á köllun klerkanna því sjálfsagt eru þeir ´kölluðustu´ til í að taka verkið að sér fyrir slikk.


Fagráð í kynferðisafbrotamálum INNNA Þjóðkirkjunnar!!!

Ætli þetta sé ekki arfur frá þeirri tíð þegar menn tróðu hvor annan undir við að þagga niður perraskap biskupsins hérna um árið? Hann slapp með skrekkinn helvískur enda landsliðið í þöggun kvenna á bak við hann. Hvað með fagráð Þjóðkirkjunnar í kynferðisbrotamálum UTAN hennar - ætli það sé til???

Það dettur engum í hug að einkavæða þessa bölvuðu peningahít en svo sefur ekki einn einasti nýfrjálshyggjusnati á Íslandi væran blund af áhyggjum yfir því að það kosti að bjóða þegnunum mannsæmandi heilbrigðisþjónustu og veita börnum grunnmenntun.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Soffía Valdimarsdóttir
Soffía Valdimarsdóttir
Bara ég sjálf hvort sem ykkur líkar það betur eða verr!
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband