Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, október 2008

Vont að vera ærulaus

Tilfinningalegar grunnþarfir hverrar manneskju óháðar tíma og rúmi eru: Öryggi, ástúð, virðing og traust.

Það sem hefur gerst í samfélaginu núna er að við höfum skyndilega verið svipt þeirri tilfinningu og trú að grunnþarfir okkar séu og verði virtar og uppfylltar.

Við getum ekki lengur treyst stjórnvöldum samanber það að nú virðist það vera að gerast að stjórnmálaflokkarnir tveir sem mynda sitjandi ríkisstjórn séu að skipta feitu bitunum í hinum nýju bönkum á milli flokksgæðinga sinna. Endilega kíkið á bloggið hennar Láru Hönnu og skoðið samantekt hennar um málið. Þið finnið hana hér í bloggvinadálknum.

Þetta er að gerast á sama tíma og fólk er að missa veraldlega sjóði sína og jafnvel eigur á borð við húsnæði. Að ég tali nú ekki um þá sem óttast um atvinnu sína líka.

Það vitnar ekki um virðingu gagnvart almenningi að á hann sé aldrei hlustað. Skoðanakannanir hafa sýnt vilja þjóðarinnar varðandi stjórn Seðlabankans. Við viljum hana út - núna!
En það er ekki hlustað og reynsluvísindin segja okkur að það verður ekki hlustað.

Þetta kann ekki góðri lukku að stýra.
Það er í raun örstutt síðan íslensk þjóð (já ég sagði þjóð, því fyrirbrigðið er sannarlega til þótt svo mikil tíska sé nú um stundir að afneita því) lifði í samfélagi blóðhefndar sem snerist í grunninn um mikilvægi þess að endurheimta ævinlega skerta æru í hverjum þeim deilum sem upp kunnu að koma milli manna.

Við skulum alls ekki gera lítið úr hefðum. Þær eru mun ríkari þáttur í þjóðarvitundinni en augljóst kann að þykja.
Íslendingar hafa verið sviptir ærunni -
Nú viljum við blóð!

En við erum ekki villimenn og því tilbúin til að sætta okkur við ígildi blóðs.
Davíð Oddsson burt úr Seðlabankanum væri fín byrjun!

xxx
Fía litla


Það má vel vera að Bretar hafi fellt Kaupþing en bankinn hlaut þó að falla.

Nú spyrja margir sig að því og eru sárreiðir, hvernig standi á hinum og þessum ráðleggingum ráðgjafa bankanna síðustu vikurnar. Hvort þeir hafi ekkert vitað um stöðuna?

Það stendur einfaldlega þannig á þeim að þessu fólki hefur verið uppálagt að selja ákveðna hluti hvað sem það kostar. Um söluvarninginn veit svo hver og einn ráðgjafi kannski mjög lítið meira en hinn almenni viðskiptavinur úti í bæ hverju sinni.

Það eru haldnir einhverjir málamynda kynningafundir eða örnámskeið um nýja vöru/þjónustu og svo eiga þeir sem námu að fara og messa yfir hinum starfsmönnunum í útibúunum.

Varan getur verið þjónustulína eins og til dæmis Vöxtur hjá Kaupþingi eða kreditkort eða áskrift að sjóðum af einhverjum toga.

Það skiptir engu máli hvernig viðkomandi vara kemur við kúnnann - bara ef bankinn græðir. Þetta er staðreynd!
Þetta er bara söluherferð og þú skalt selja hvað þú lifandi getur. Svo færðu auðvitað þóknun fyrir hvern húkkaðan kúnna.

Maður var ekki alltaf vinsælasti gaukurinn í búrinu þegar maður mótmælti og lagði sig ekki eftir því að halda til dæmis debetkortum að 11 ára viðskiptavinum af siðferðisástæðum eða neitaði að mæta á starfsdag Kaupþings í Laugardalshöll þar sem fram fór ekkert annað en múgsefjunar-hallelúja-ofsatrúar-messa yfir lýðnum.

Á þeim tæpu 6 árum sem ég vann í bankanum hét hann 4 nöfnum og hafði nokkrar kennitölur. Maður fann og vissi að þar voru viðhöfð ódrengileg vinnubrögð og að græðgin og metorðagirndin var eini drifkraftur þeirra sem stjórnuðu. Samstarfsfólks míns vegna sem ég kunni vel við hefur mér ekki fundist einhvern vegin gott að tala um þetta á blogginu mínu. En auðvitað vita allir hvernig þetta var rekið og að þar sem er skítalykt er jafnan skítur ekki langt undan.

En það veit sá sem allt veit að ég er innilega glöð og ánægð að vera ekki lengur þátttakandi í þessu ógeði. Ég gleymi aldrei þeim blendnu tilfinningum sem geisuðu í hugskotinu þann 30. september 2004 þegar ég var búin að segja upp. Ég vissi að ég myndi sakna samstarfsfólksins og launatékkans en mér var svo létt á sálinni að ég get ekki líst því. Mér hafði nefnilega lengi fundist ég ekki starfa eða lifa af heilindum vitandi vits hvernig vinnuveitandi minn hegðaði sér og ætlaðist til að ég gerði líka.

Ég vona svo sannarlega að fyrrum starfsfélagar mínir og aðrir starfsmenn á gólfi í bönkunum missi eki vinnuna núna. En ég verð að vera alveg hreinskilin og segja að ég græt ekki Kaupþing. Bankanum var ekki viðbjargandi þvi innviðirnir voru bæði fúnir og sviknir.

xxx
Fía litla


Hvað í andskotanum er eiginlega að hérna???

Nú eru bæði forsætisráðherra og kalldruslan hann Davíð komnir með lífvarðasveit sér til varnar af því að hvorugur þeirra getur unnið vinnuna sína svo dugi.

Og við bara brosum og borgum eins og einhverjar helvítis undirlægju-gólftuskur!

Ég skal hundur heita ef þessi heimska þjóð mín kýs ekki meira að segja eina andskotans ferðina enn þessa drullubleðla yfir sig og samborgara sína. Ætli Flokkurinn fái ekki á milli 35 og 40% í næstu kosningum eins og venjulega? Ég veit ekki hvað gæti komið í veg fyrir það!

Sjálfstæðisflokkurinn í skjóli taumlausrar frjáls- og markaðshyggju er meinsemnd í litla landinu okkar. Hana þarf að uppræta með skurðaðgerð ef ekki vill betur. Svo er einnig með kallinn í brúnni. Að hætti meinsemda hefur hann legið í láðinni um langa hríð og ekkert til hans sést eða frést. Svo bara allt í einu þegar síst skyldi gýs hann upp og veldur tjóni sem ekki verður bætt.

Og þetta veljið þið aftur og aftur á meðan þrönga litla gluggalausa veröldin ykkar rúllar áfram alveg hreint eins og glerkúla á stofuborði.

17 ár af þessum graut og þið eruð ekki södd enn elsku hjartans fávitarnir mínir.
Hvað þarf til svo þið sjáið að þetta er orðið gott í bili?
Vildi að ég gæti hjálpað ykkur.............
xxx
Fía litla


Ljósið í myrkrinu

Núna þegar allt er fallvalt og fátt í hendi getum við huggað okkur við að svo virðist sem maður þurfi ekki lengur að lúkka vel til að vera skilyrðislaust success.

Bæði Davíð Oddsson og vinur hans Kjartan Gunnarsson eru algert success og totaly untouchable - og báðir með eindæmum forljótir. Ef við bætum félaga þeirra Birni Bjarnasyni við og að ekki sé nú talað um Árnann í Eyjum, sjáum við það í hendi okkar að hinir ljótu - já og jafnvel þeir feitu líka eiga séns í veröldinni.

Jibbíííí
xxx
Fía litla


Burt með kallana!

Hvar eru: Jón Ásgeir, Hannes Smárason, Björgólfsfeðgar og Þorsteinn Már?

Ég bara veit það ekki. Veit hins vegar alltof vel að þeir eru ekki hér að taka til eftir sig og ég efast um að þeir séu að selja eignir í útlöndum til að koma með afraksturinn heim og takmarka skaðann sem þeir hafa valdið.

Hitt veit ég svo líka að Auður Capital er eina fjárfestingafélagið á Íslandi sem ekki er í djúpum skít. Þar eru konur við völd sem beita kvenlegu innsæi við daglegar ákvarðanatökur og stjórn félagsins.

Ég vil konur í allar meiriháttar stjórnunarstöður á Íslandi í náinni framtíð. Það veit sá sem allt veit að nóg er til af klárum konum í landinu.

Kona sem tekur að sér ábyrgðarstarf ann sér ekki hvíldar fyrr en hún hefur komist til botns í því hvernig best er að haga tilteknu verkefni. Hún leggur dag við nótt og tekur að lokum þá ákvörðun sem minnsta áhættu hefur í för með sér fyrir þá sem hún hefur sagst muni vernda og gæta.

Svona rekum við konur heimilin - svona á að reka hið opinbera.

Karlar eru ófærir um að stjórna nema meiriháttar aðhaldskerfi sé slegið utan um þá.

Því segi ég:
Burtu með kallana - inn með konurnar!

xxx
Fía litla


Það er núna skiluru!

Má ég benda ykkur á það elsku besta fólk að tími Jóhönnu Sigurðardóttur er kominn.

Það sem sagt kom að því þrátt fyrir allt.............
xxx
Fía litla


Biðjum okkur friðar og blessunar

Á meðan þessi orð eru rituð er Yoko Ono að kveikja á friðarsúlunni í Viðey í tilefni þess að Lennon hefði átt afmæli í dag. Það gerir hún í nafni friðar.

Ef þú lest þetta gefðu þér þá endilega augnablik og biddu það sem þú leggur traust þitt á að stuðla að friði meðal þjóðanna - líka þeim sem vilja ekki lána okkur pening eða hafa beitt á okkur hryðjuverkalöggjöf sinni.

Það veitir ekki af
xxx
Fía litla


Engin innistæða!

Helstu rök íhaldsmanna í öllum flokkum fyrir því að réttlætanlegt sé að ríkið haldi uppi þjóðkirkju eru þau að slík stofnun sé einn af máttarstólpum samfélagsins - sameiningarmáttur hennar sé mikilvægur og ótvíræður jafnt á gleðistundum sem í erfiðleikum.

Nú brennur Ísland stafnana á milli og fólk á öllum aldri er kvíðið og þarfnast huggunar.

Hvar er þjóðkirkjan núna?
Ég hef ekki heyrt eða hnusað einn einasta fret úr þeim fúla rassi..................

Guð blessi Ísland og Íslendinga
xxx
Fía litla


Skömm er óhófs ævi......

........tuldruðu menn í hálfum hljóðum og sín á milli þegar þeir horfðu á eftir Hrafnkeli Freysgoða þegar hann snáfaðist burt frá Aðalbóli eftir háðuglega úrtreið og dóm á Alþingi.

Hann hafði farið offari í viðskiptum við sveitunga sína. Hann hafði sett sig ofar öðrum og sýnt af sér hroka og óbilgirni. Bændur slógu því upp miklu karnivali eftir að hafa fengið dónann dæmdann alsekan á Alþingi. Henging Hrafnkels var sviðsett en fátt var svíðingslegra á Þjóðveldistímanum en að hengja menn nema ef vera skyldi að vera hengdur.

Nú erum við smælingjarnir í sporum bændanna sem horfa upp á höfðingjana sneypta og smánaða. Hins vegar ætlum við ekki að hengja neinn, ekki einu sinni í þykjustunni. Þess þarf ekki.

Þeir fáu tugir einstaklinga sem bókstaflega eiga sök á því hvernig komið er fyrir íslensku þjóðarbúi hafa sjálfir svipt sig ærunni. Lýðurinn semur og flytur gamanvísur, brandara og myndasögur þeim til ævarandi háðungar. Þessir textar varðveitast að einhverju leyti og þótt landinn sé fljótur að gleyma þá eru þessar sakir of stórar til að þær geti gleymst.

Við Íslendingar erum nefnilega enn í dag uppteknir af heiðri og æru líkt og forfeður okkar voru. Á miðöldum var ekkert verðmætara en mannorðið eða orðstírinn eins og segir í Hávamálum:

Deyr fé
deyja frændr,
deyr sjálft it sama;
en orðstírr
deyr aldregi
hvem er sér góðan ger.

Deyr fé
deyja frændr,
deyr sjálfr it sama;
ek veit einn
at aldri deyr:
dómr um dauðan hvern.

xxx
Fía litla


Breytt dagskrá

Við hjónin höfðum hugsað okkur að lúra svolítið frameftir í fyrramálið, fara kannski í bakaríið og svo á bókasafnið og upp í sumarbústaðarland með nokkrar hríslur til niðurholunar.

En við höfum nú látið af þessum fyrirætlunum þar sem heyrst hefur að þingmaðurinn Árni Johnsen muni verða til skrafs og ráðagerða, meðal annars um efnahagsmál, á opnu húsi Sjálfstæðisfélagsins í Hveragerði.

xxx
Fía litla


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Soffía Valdimarsdóttir
Soffía Valdimarsdóttir
Bara ég sjálf hvort sem ykkur líkar það betur eða verr!
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (4.5.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 21
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 21
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband