Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2009

Á kannski bara að leggja niður Alþingi?

Njörður P. Njarðvík var einn af gestum Egils Helgasonar í Silfrinu í gær.

Hann skrifar stundum greinar um þjóðfélagsmál í blöðin. Reyndar líka um íslenskt mál en það er önnur saga. Venjulega finnst mér hann skýra hlutina frekar en hitt. Ég er oft sammála honum. Hann segir hluti sem aðrir hafa kannski sagt áður en þegar Njörður fer um þá höndum verða þeir skiljanlegir og gegnsæir.

Undanfarið hefur hann rætt stöðu lýðræðis á Íslandi. Hann segir að það sé ekki til staðar. Það er rétt.

Í lýðræðisstjórnskipulagi eða þingræðis kannski öllu heldur á framkvæmdavaldið að fylgja eftir og koma til framkvæmda ákvörðunum löggjafarvaldsins. Þannig er það ekki í dag og hefur ekki verið lengi.
Alþingi er í raun eins og stór skrifstofa sem vinnur úr því sem framkvæmdavaldið réttir þar inn á borð hverju sinni.

Í þessu ljósi eru nýtilkomnir aðstoðarmenn alþingismanna óþarfir. Sú fyrirskipan er hlægileg sé raunverulegt vægi þingsins og þá um leið þingmannanna athugað.

Þingið hefur áður verið í sömu stöðu.

Allt frá einveldistökunni 1662 og fram til loka 18. aldar var það afgreiðslukontór og samkomuhús heldri manna. Þegar Alþingi var lagt af á sínum tíma var svo komið að menn sinntu ekki einu sinni mætingarskyldu. Á síðasta þinginu sem haldið var á Þingvöllum voru samankomnar örfáar hræður til skrafs og ráðagerða. Ástand Lögréttu var með þeim hætti að ekki var þar líft vegna dragsúgs þannig að Magnús Stephensen stóð upp og tilkynnti að hann væri farinn heim og þeir sem vildu hafa eitthvað um afgreiðslu eftirstandandi mála þingsins að segja gætu komið með sér ef vildu.

Þá var þingið aðeins afgreiðslustaður og umsagnaraðili.
Konungur og embættismenn hans voru framkvæmdarvaldið. Alþingi hafði samkvæmt hefð eitthvert málamyndalöggjafarvald.

Svona er þetta líka í dag. Það eina sem er öðruvísi er að þinghúsið heldur vatni og vindi og að kóngurinn er ekki erlendur. Við höfum reyndar ekki einn sýnilegan kóng en hirðin er vissulega bæði til og mjög sýnileg.

Eigum við ekki bara að leggja niður Alþingi?
Skiptir þessi sýndarmennska einhverju máli?

xxx
Fía litla


Til hvers?

Þessa dagana fæ ég mig ekki til að skrifa um kreppu á Íslandi.
Ég finn mig heldur ekki í því að tjá mig um barnsmorð á Gaza. Mig brestur kjark í báðum tilfellum.

Í fyrra tilfellinu finnst mér ekki nægileg ástæða til.
Í hinu síðari eru ástæðurnar nægar en ég of lítil.

Hins vegar finnst mér ekki úr vegi að tala um það til hvers við gerum og erum.

Til hvers er ég og hvaða tilgang hefur tilvera mín yfirleitt?

Hef ekki hugmynd.
Veit þó að það hefur eitthvað með heilindi og kærleika að gera.
Læt ykkur vita ef ég kemst að niðurstöðu.

Sennilega er tilgangur hverrar manneskju sá sannastur að lifa í náungakærleika frá degi til dags. Ekki bara á tillidögum eða rétt á meðan samviskan er friðuð með gjöfum í góðgerðastarf.

Ég veit um eina konu sem ekki lifði til einskis.
Hún hét Bergþóra Árnadóttir og sendi frá sér dásamlegar texta- og tónsmíðar. Um slíkt veit ég ekki mikið en ég veit að diskurinn sem ég gaf sjálfri mér í jólagjöf endurvarpar sannri manngæsku og heilindum til mín í hvert skipti sem hann fær að hljóma.

Ég held áfram að leita...........
xxx
Fía litla


Í dag er þetta helst

Gat illa vaknað í morgun - börnin of sein í skólann - ergó=nýtt ár, sama móðurómyndin!

Bjarni Ármannsson skilar klinkinu - so?

Samtök kristinna trúfélaga biður fólk að láta ljósin loga - alveg sjálfsagt, já já já.

Mogginn í dag: Þáttur um landbúnað og byggðastefnu vs. Evrópusambandið skreyttur með íslensku lopapeysunni.

Lestur annarinnar hefst fyrir alvöru í dag - umfangið er ævintýri líkast og þó er ég ekki farin að líta einu sinni í áttina til lesefnis framhaldsnámskeiðsins um ævintýri og samfélag.

xxx
Fía litla


Árið!

Gleðilegt ár þið öll þarna úti og takk fyrir það gamla!

Ég nenni bara ekki fyrir mitt litla líf að blogga þessa dagana, sorry!

xxx
Fía litla


« Fyrri síða

Höfundur

Soffía Valdimarsdóttir
Soffía Valdimarsdóttir
Bara ég sjálf hvort sem ykkur líkar það betur eða verr!
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 21
  • Frá upphafi: 56308

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 21
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband