Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2008

Sjálfstæði sjálfstæðisins vegna - eða hvað?

Ég hallast æ meir að þeirri hugmynd að sjálfstæði sé meira en lítið afstætt í tilfelli Íslendinga. Höfum við einhvern tíma verið sjálfstæð?
Var það sjálfstæði þegar nýtt lýðveldi þáði og gerði sig háða bæði miklum fjárgjöfum og hernaðarlegri nærveru erlendrar þjóðar?

Hafa Íslendingar nokkurn tíma verið í raun sjálfstæðir nema þessa mánuði sem liðnir eru frá brottför ameríska herliðsins úr Keflavík?

Hvað felst í því að vera sjálfstæð þjóð?
Er það eftirsóknarvert eða yfirleitt gerlegt fyrir 300.000 þúsund manna samfélag?
Eigum við að sækjast eftir því að vera sjálfstæð hvað sem það kostar?
Hvað þýðir sjálfstæðismissir?

Hvað þýðir orðið sjálfstæði eitt og sér? Kannski að standa sjálfur. En þá væntanlega um leið einn og jafnvel óstuddur, eða hvað? Þannig er okkar sjálfstæði alla vega háttað í dag. Við erum svo sannarlega ein og óstudd sem aldrei fyrr.

Eigum við kannski bara að biðja Danmörku að eiga okkur svo Bretarnir taki okkur ekki?
Kannski ekki alveg ónýt hugmynd miðað við það að Færeyjar frændur okkar fá um 400 milljónir danskra króna á ári til vaxtar og viðhalds síns góða samfélags.

Nei ég segi svona - samt kannski eitthvað sem er hollt að skilgreina og hugsa um hver fyrir sig svo við vitum hvað við viljum.
xxx
Fía litla


Lifi byltingin!

Ef við horfum algerlega framhjá því hvaða einstöku einstaklingar verma sæti stjórnar Seðlabankans og skipa stöður Frjármálaefitrlitsins þá er morgunljóst að þetta fólk verður að víkja!

Báðar þessar stofnanir eru rúnar trausti ekki aðeins hérna heima heldur líka meðal annarra þjóða. Það síðarnefnda skiptir í raun meira máli ef við hættum að þverskallast og viðurkennum að við erum ekki eyland nema í landfræðilegum skilningi. Viðhorf og meiningar viðskiptavina okkar um allan heim skipta núna meira máli en stolt okkar og vilji. Svo einfalt er það.

Þess vegna verður að skipta um mannskap í þessum stofnunum. Og það þarf helst að gerast með svolitlum hvelli. Þannig er sett fram ákveðin yfirlýsing þess efnis að festa sé í áformum um að betrumbæta það sem ranglega hefur verið gert.

Bankastjórnirnar urðu að víkja, Seðlabandastjórn og Fjármálaeftirlitstopparnir verða að víkja og sanniði til ríkisstjórnin mun líka víkja frekar fyrr en seinna því hún tekur ekki á málum eins og brottvikningu þeirra sem verða og eiga skilirðislaust að víkja. Ef ekki með góðu þá með illu.

Lifi byltingin!
xxx
Fía litla


Ég elska Pál Óskar!

Hafið þið séð auglýsinguna frá BYR þar sem Páll Óskar sýnir fólki símann sinn?

Í henni segist hann hafa átt sama símann árum saman og sé ekki á þeim buxunum að skipta. Best gæti ég trúað að hann segði þetta satt.

Ég á alla vega verulega erfitt með að sjá hann fyrir mér gera sig ómerkilegan fyrir peninga.
Hann er að mínu mati einn heilsteyptasti þekkti Íslendingurinn - jafnvel fyrr og síðar. Það er búið að vera stórskemmtilegt að fylgjast með honum verða fullorðinn, gera öll mistökin sem við þurfum öll að gera á þeirri leið og aldrei aldrei aldrei bregða út af því hver hann er og fyrir hvað hann stendur.

Þegar fólk saup hveljur yfir Dr. Love og bersögli Palla í kynferðismálum sló ég mér á lær og stappaði í hann stálinu upphátt og í hljóði. Hann gerði gagn og vildi vel. Enginn Íslendingur hefur unnið réttindabaráttu samkynhneigðra jafn mikið gagn og Palli, ekki einu sinni Hörður Torfa.

Málið er að hann var þá og er ekki síður núna ákveðið kennivald meðal unglinga og er í því hlutverki gulls ígildi því hann er frábær fyrirmynd.

Hann lætur engan segja sér hvað eða hvernig hann á að vera
þess vegna elska ég Pál Óskar og óska honum alls hins besta

xxx
Fía litla


Hvað í veröldinni eru þingmennirnir okkar 63 að gera þessa dagana?

Eins og frægt er orðið sagði forstjóri Volo einhverju sinni sem svo að hann treysti sér fyllilega til að stjórna Íslandi í hjáverkum eftir vinnu. Á milli klukkan 5 og 7 þótti honum álitlegur tími sem verkefnið ætti að taka.

Öllu skemmtilegri finnst mér þó sagan af því þegar Siggi nokkur stórbóndi á Vatni í Dölum svaraði því til aðspurður hvort hann hefði tíma frá búskapnum að vera að vinna út í bæ að sauðfjárbúskapur ætti ekki að vera meira mál en að fóðra tvo hamstra!

Með þetta hugarfar ættu þessir tveir að geta komið í stað þeirra 63 sem fara svo afskaplega hægt og hljótt þessa dagana.

xxx
Fía litla


Jólagjöfin í ár.

Einhvern tíma var það Draumalandið eftir Andra Snæ.

Núna er það Brevis Commentarius.

Verkið skrifaði Arngrímur lærði Jónsson gegn ýmsum þeim rangskrifum erlendra manna um Ísland og Íslendinga sem honum þóttu svaraverð. Bókin var gefin út í Kaupmannahöfn undir lok 16. aldar en sú kenning hefur einnig verið á lofti að hún sé skrifuð sem vopn í baráttu Dana við Hansakaupmenn.

Þetta er málið núna. Þurfum að fá smá pepp og það vill svo til að hún er á tilboði hjá Sögufélaginu í Fishersundi einmitt þessa dagana

xxx
Fía litla


Andskotans viðbjóður!

Þegar ég í mesta sakleysi hratt upp útidyrahurðinni í morgun á leið í skólann í blásvartri nóttinni og kvaddi mann og annan í sömu svipan og ég reyndi að detta ekki um einhverja skóna í gangveginum og varna því að gleraugun dyttu aftur á hnakka og þaðan beina leið í gólfið, blasti við mér hálfétin mús á tröppunum beint fyrir utan dyrnar.

Anskotans helvítis viðbjóður þetta kattahald.

Ekki nóg með að þetta sé sporandi allt út hjá manni heldur er allt í hárum og ógeði. Svo kemur þetta veiðieðli í ofanálag.

Um daginn gekk ég inn í myrkvað húsið og skildi ekkert í því af hverju gólfið var hálfþakið fiðri. Þá hafði hann helvískur drepið fugl og skilið eftir á miðju stofugólfi. Og svo núna síðustu vikur hafa þrír músarassar ratað upp að dyrum, hinn helminginn étur bölvaður kötturinn.

Svo vill þetta ógeð upp í rúm til manns og sleikja á manni lappirnar!

Ef kolsvartur köttur verður á vegi ykkar í efra þorpinu þá í guðanna bænum ekki sveigja bílnum framhjá.........
xxx
Fía litla


Bjarni segir af sér!

HA ???????????????

xxx
Fía litla


Dugmikill aðstoðarmaður

Bjarni Harðar skrifar bréf um meinta slæmsku flokkssystur sinnar. Hann sendir það aðstoðarmanni sínum en þaðan á það að fara nafnlaust í fjölmiðla. Fær svo bakþanka en það er of seint - bréfið er farið.

Valgerður segir voða sár og svekkt að það sem sé aðalmálið hérna sé það að Bjarni skuli hafa ætlað að villa á sér heimildir með nafnleysinu.

Bíddu! Er þetta eitthvað nýtt?
Hvarflar að einhverju að þetta séu ekki viðtekin vinnubrögð í pólitík?

Gerði Bjarni ekki bara það sem fyrir honum hefur verið haft en slysaðist svo bara til að láta koma upp um sig?

Spurning hvort aðstoðarmennirnir eru að koma í bakið á þingmönnum með því að vera vinnusamari en þeir sjálfir?
Ja maður spyr sig......
xxx
Fía litla


Soldið sona kannski ekki alveg neitt svakalega einbeitt núna

Ekki svo að skilja að í mig vanti kraftinn þessa dagana.

Nei nei. Sko ef við reiknum með að vikan byrji á sunnudegi þá hef ég það sem af er þessa vikuna prjónað einn peysupol, hálfan vettling, sett saman bol og ermar á peysu, heklað ótrúlega krúttleg stelpuarmbönd - tvo stykki (reyndar er annað svo asskoti laglegt að ég hugsa að ég setji á það loppeysuhnapp og eigi það bara sjálf), Prjónað stroff og þæft til að setja neðan á gallabuxur sem hafa alltaf verið of víðar á dóttur mína og svo núna þegar hún er loksins að byrja að fylla upp í þær að einhverju marki eru þær að verða of stuttar. Á reyndar eftir að sauma þau á en þetta lofar mjög góðu.

Þetta er það sem hefur komið til framkvæmda - ætla ekki að þreyta ykkur á öllu því sem mér hefur dottir í hug frá því í gærmorgun.

Hins vegar hef ég bara skrifað 1 blaðsíðu af ritgerð og fundið 3 frumheimildir með miklum erfiðismunum í skúmaskotum Þjóðskjalasafns vegna annarar ritgerðar sem bíður á hliðarlínunni

Annars bara farin að hlakka til jólanna eins og það komi málinu eitthvað við..............
xxx
Fía litla


Spennandi tímar!

Þið verðið að fyrirgefa mér það kæra fólk að ég er eitthvað svo spennt innan í mér yfir ástandinu.

Mér finnst ekki ósennilegt að þessi efnahagslægð eigi efti að leysa úr læðingi mikla krafta sem hingað til hafa ónýst vegna ístrusöfnunar húðlatrar og nýríkrar þjóðar.

Ekki það að ég haldi að ég sé einhver spámaður. Það eru fordæmi fyrir slíku áður. Til að mynda ef ég er ekki alveg búin að gleyma rekstrarhagfræðinni minni, varð síðasta heimskreppa til þess að módelið sem Vesturlönd tóku upp í efnahagsstjórnun og síðar nær allur heimurinn varð til.

Það er auðvitað í dauðateygjunum núna en gerði sitt gagn eins og allir hlutir einhvern tíma.

Núna er allt í einu fullt af nánast heiladauðu fólki farið að hugsa hratt og mikið um allt mögulegt. Þetta hlýtur að vera ákveði frjómagn inn í samfélagið.

Spennadi..........
xxx
Fía litla


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Soffía Valdimarsdóttir
Soffía Valdimarsdóttir
Bara ég sjálf hvort sem ykkur líkar það betur eða verr!
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (15.5.): 0
  • Sl. sólarhring: 7
  • Sl. viku: 19
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 19
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband