Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2008

Abb babb babb

Þarna gabbaði ég ykkur . Það er auðvitað ekki neitt framhald af sögunni um ráðherrann.
Ég var bara að draga upp myndrænt hvernig ég sé fyrir mér að náungi eins og þessi tiltekni ráðherra íslenskur (sem þið hljótið að vita hver er) svipljótasti maður íslenskra stjórnmála, fari að því ða álykta sem svo að hann þurfi nú endilega að láta til sín taka í lagaumhverfi fjárhættuspila á borð við póker þegar mál eins og kynferðisbrot gegn börnum lúta fyrningarákvæðum eins og önnur afbrot,

Ég sé ekki hvernig slíkt getur verið þvílíkt þjóðþrifamál að grípa þurfi til aðgerða hið snarasta. Og þess vegna sé ég svona farsakenndar senur eða myndir þegar ég reyni að átta mig á vitleysunni.

En ég er auðvitað bara vesæl kvensnift og veit ekki meir - kannski er dómsmálaráðherrann okkar æðislega fínn gaur og bara allt að gerast í hausnum á honum...............


Ráðherrann og réttvísin - örsaga í a.m.k. tveimur hlutum

Það var dumbungsmugga yfir borginni þegar ráðherrann settist við morgunverðarborðið þennan morgunn. Hann vafði þéttar um sig sloppnum. það var einhver hrollur í honum, þó átti hann sér einskis ills von - hvorki í dag né aðra daga. Hann hafði sofið svefni hinna réttlátu allt þar til klukkan hringdi enda var hann æðsti klerkur réttvísinnar. Það læddist lítið bros... eða kannski örlítil brosgretta öllu heldur, út í hægra munnvikið á honum við tilhugsunina um vekjaraklukkuna sína (hann var alltaf eitthvað stífur í því vinstra). Já hún hafði kostað sitt. En á hverjum morgni þegar hún vakti hann blíðlega með hressilegum hergöngumarsi þá vissi hann að hún hafði verið hverrar krónu virði. (konan á flóamarkaðinum hafði hvíslað því að honum að akkúrat þessi klukka hefði einu sinni gegnt því ábyrgðarfulla hlutverki að vekja akkúrat einn ákveðinn einræðisherra í landi sem er alveg eins og kvenmannsstígvél í laginu. Klukkan hafði aldrei brugðist og því gekk einræðisherrann stundvíslega til sinna þörfu verka á hverjum einasta morgni. En ráðherrann hafði engum sagt það. Þetta leyndarmál áttu þau saman hann og þessi vinalega sölukona - já, og svo auðvitað látni einræðisherrann).

Ráðherrann hryllti sig aftur og ók sér undan einhverjum óræðum óþægindum í sætinu. "Nú hana, hvað er þetta?" tautaði hann. Ótætis nærbrókin var þá bara eitthvað að angra hann. "Rót mín" kallaði hann hátt og það var gremja í röddinni. "Ég hélt við hefðum orðið sammála um að þessa brækur þarna úr Bónus væru ómögulegar og best væri að henda þeim. Gleymdirðu þvi góða mín?". "Hvaða læti eru þetta Bangsi minn" andvarpaði Rót á leiðinni inn í eldhús. Hún hafði skotist rétt sem snöggvast fram á bað enda var kaffið komið á brúsann, eggin og beikonið kúrðu í hitafatinu, nýkreisti greip- og mangósafinn stóð tilbúinn í glasinu inn í ískáp, Mogginn lá á borðinu og bæði Fréttablaðið og 24 stundir voru komin út í ruslatunnu nágrannans hinu megin við götuna. "Ég er bara rétt að koma væni minn. Nei svona sestu góði, ég skal færa þér kaffið". "Ég ætlaði nú bara að fara og skipta um brók. Þú ræður nú væntanlega við kaffið góða?!"

Þegar ráðherrann hafði lokið við að borða allt nema beikonið sem var "heldur ofsteikt góða mín" ýtti hann frá sér disknum og breiddi Morgunblaðið á borðið fyrir framan sig. Það kumraði í honum af vellíðan og velþóknun. Málgagnið megnaði dag hvern að ylja honum um hjartarætur. Hann hafði lokið við leiðarann og skannaði nú ánægður og velmegandi yfir ýmsar smáfréttir af dugandi fjármálaséníum, mistækum kommúnistabjánum á landsbyggðinni og ýmsum fyrirhuguðum breytingum í skipulagsmálum höfuðborgarinnar.

En hvað var nú þetta?! "Þingmaður Framfaraflokksins, Bjarkar Grjón, handtekinn fyrir þátttöku í pókerspili um liðna helgi. Græddi 18.000 krónur á ólöglegu fjárhættuspili"! Ráðherrann reis svo hastarlega úr sæti sínu að eldhússtólinn valt um koll og Rót kom hlaupandi fram í eldhúsgættina með þvottakörfuna á höfðinu. "Hvað gengur á Bangsi minn, hvað hefur komið fyrir"? "Svona skiptu þér ekki af því kona" sagði ráðherrann og ruddi sér leið út úr eldhúsinu og fram í forstofuna. "En almáttugur, er þetta alvarlegt Bangsi minn"? "Alvarlegt og alvarlegt" þrumaði ráðherrann. "Það er enginn tími til að velta sér upp úr smáatriðum. Ég gegni ábyrgðarstöðu í þjóðfélaginu. Ég hef verk að vinna." Við svo búið snaraðist ráðherrann út úr dyrunum. Hann gekk fumlaust og ákveðnum skrefum út í ráðherrabílinn. Bílstjórinn beið með opna bílhurðina. Hann hafði líklega lesið málgagnið enda var það hluti af hans embættisskyldum að fylgjast með þjóðarpúlsinum. Það síðasta sem Rót sá til ráðherrans þennan hryssingslega morgunn var hofmannleg sveiflan þegar hann sló saman hælunum í kveðjuskyni, bar höndina upp að kaskeytinu og að lokum festulegur vangasvipur hans sem speglaðist í rúðunni þegar bifreiðin geystist út í hringiðu borgarinnar sem aldrei hélt vöku sinni.


Regluleg óregla (frá konu til konu)

Vitiði! Ég þrífst á óreiðu.

Mörgum sinnum hef ég gert alskyns áætlanir í þá veru að fara nú að lifa skipulegra lífi en ég geri. Það er allt frá því að ákveða að fara á svipuðum tíma að sofa á kvöldin og reyna að hafa fótaferð líka reglulega (glætan!!!) til þess að gera heiðarlega tilraun til að skrifa dagbók (að ég minnist nú ekki á að lesa og læra jafnt og þétt yfir önnina - maður lifandi!)

Þetta bara gengur ekki hjá mér. Það er alveg sama hvað ég skipulegg mörg/fá atriði sem ég ætla að koma reglu á - allt kemur fyrir ekki. Svo get ég alls ekki farið eftir uppskriftum, fylgt umferðarreglum, málað eftir númerum, saumað eftir munstri, mætt í skipulagða leikfimitíma og alls ekki prjónað peysu án þess að gera á henni breytingar.

Er í lagi með mig - er ég kannski eitthvað lasin - er þetta kannski bara það að vera kvenkyns?

Ég meina er það eðlilegt að koma málum þannig fyrir, vísvitandi, að í einni og sömu vikunni þurfi maður að skrifa 15 síðna heimildaritgerð, skila tveimur verkefnum öðrum, taka á móti gestum í tvígang í mat, mæta á danssýningu hjá dóttur sinni, halda einn 20 mín. fyrirlestur, fara í klippingu og strípur, fara með tvö börn til tannlæknis, lesa fyrir skólann, vera mamma og eiginkona og - by the way - reyna að myrða engan í fjölskylunni.

Sko þetta geri ég sjálfri mér alveg ein og hjálparlaust skal ég segja ykkur. Og það sem meira er ég þrífst á þessu stressi og geðveiki. Ég áorka svoleiðis bjrjálæðislegum fjölda atriða á svona álagspunktum að það hálfa væri nóg.
Það sem gerist þess á milli er hins vegar vandamálið. Þá er ég sem lömuð af framkvæmdakvíða og frestunaráráttu að ég bókstaflega get varla andað. Svo þegar ég ryðst af stað þá nýt ég ekki þess sem ég er að gera.

Kannast einhver við þetta - hvað er til ráða?


Hver ert þú?

Á öskudag klæða krakkar sig upp og fara þannig í eitthvert tiltekið hlutverk eina dagsstund. Síðastliðinn öskudag var dóttir mín 10 ára lifandi öskupoki. Ég hafði eitthvað verið að reyna að fræða krakkalinginn minn og hún vildi taka þetta örlítð lengra. Hún skrifaði með penna á gulan efnisbút: Komum gömlu siðunum í gang!

Ég veit ekkert hvað varð um bleðilinn en þetta lýsir henni svo vel - hvatvís og hrifnæm eins og mamma sín þessi elska.

Jæja, en svo er það sonur minn, nýorðinn 13. Hann sagðist ætla að taka þátt. Eitthvað var hann samt áhugalítill um búninga þetta árið. Þegar ég gekk á hann með það hvað hann ætlaði að vera sagði hann: Ég ætla að vera Þórir!
Málið er að hann ætlaði að vera hann sjálfur - nefnilega Þórir.

Skemmtilegir þessir krakkaskrattar!


Laun heimsins

Í dag er ég í vinnunni minni í Listasafni Árnesinga. Ég sit yfir og tek á móti gestum. Það finnst mér gaman, þ.e.a.s. bæði að sitja og að fá gesti - helst bæði í einu. Fyrir þetta fæ ég lítil laun en aftur á móti get ég notað dauðu tímana til að læra.

En svo eru það önnur öllu óræðari laun sem ég tel mig fá í vinnunni minni. Það eru samskiptin við allt fólkið sem ég myndi annars ekki hitta. Þetta er alls konar fólk. Sumt er héðan annað þaðan og sumt virðist bara koma nánast eins og af himnum ofan. Allt þetta fólk á það sameiginlegt að það hefur á einhverjum tímapunkti ákveðið að eyða einhverjum x-tíma í að koma í safnið og skoða það sem þar er til sýnis. Það ætlar sem sagt að upplifa og sjá eitthvað sem einhverjum öðrum hefur þótt nógu frambærilegt og áhugavekjandi til að hafa það til sýnis.

Sumt af þessu fólki er vant að skoða list. Sumt ekki. Sumir vilja segja mér hvað þeim finnst. Aðrir ekki. Sumum er mikið í mun að ég viti að það hefur vit á list. Öðrum ekki. Svo eru sumir sem þekkja listamennina eða eiga verk eftir þá og vilja að það komi fram. Aðrir ekki.

Þetta skiptir mig engu máli. Hitt er að það er svo gaman að spá í fólkið og á hvaða forsendum það er að eyða þessari stund. Það hlýtur að vera eitthvað sem dregur fólk á listasafn. Augljósa ástæðan væri auðvitað listaverkin. En ég held að þetta sé pínulítið flóknara en það. Sumir eru kannski að koma svo þeir geti sagst hafa komið eða verið allt eftir því hvað við á. Aðrir hafa kannski bara komið að lokuðum dyrum í Eden. Svo eru kannski einhverjir sem hafa heyrt af því að það sé svo skemmtilegt að fara á listsýningar og vilja prófa.

Þetta skiptir mig heldur engu máli.

Það sem skiptir mig máli er að allt þetta fólk verður á vegi mínum. Í því fæ ég tækifæri til að spegla mig og skilgreina í rólegheitunum. Svo er bara svo gaman að spjalla við margt af þessu fólki. Það veit svo margt sem ég veit ekki - og það eru líka laun í sjálfu sér.


Í tilefni komandi dags - konudags

Svona bara til gamans þá datt mér í hug að setja hérna inn nokkur atriði sem mér finnst hægt að flokka sem turn-off/turn-on:

Turn-off:

Karlmenn í fullkomlega úthugsuðum klæðnaði frá toppi til táar (ég æli á menn í merkjasokkum - sérstaklega þegar þeir gera sér far um að láta sjást í merkið þar sem þeir sitja í mikilfengleik sínum innan um annað fólk).

Karlmenn sem reyna að kommentera á gáfnafar kvenna sem þeir eru að reyna að komast yfir (við vitum allar að sæmilega velgefnar konur og upp úr virka ógnandi á flesta karla - og að gáfnafar hefur lítið að gera með bólfimi kvenna sem er akkúrat það sem þeir eru að sækjast eftir)

Karlmenn sem þekkja ilmvatnið þitt (Halló! ertu kall eða kona???)

Karlmenn sem reyna að hefja samræður við mann á mannamótum um stöðu kvenna og réttindi eins og þeim sé málefnið eitthvert hjartans mál (fyrirgefiði ef ég get ekki í eigin persónu staðið vörð um mín réttindi þá þarf ég ekki hjálp frá einhverjum ókunnugum kalli út í bæ - sjálfstyrkingarnámskeið væri nær lagi)

Karlmenn sem bjóða manni í glas (þetta er bara búið)

Karlmenn sem með tilgerðarlegum klæðnaði eða líkamsstöðu reyna að láta glitta í vöðvana (Jú jú, voða sætar vöðvakúlur en er eitthvað meira þarna???)

Þorgrímur Þráinsson (þarf að útskýra það eitthvað nánar?!)

Turn-on:

Karlmenn með nógu mikið sjálfstraust til að vera bara þeir sjálfir - með göllum og öllu

Karlmenn sem hafa í alvörunni áhuga á að tala um það sem rætt er hverju sinni eða skipta kurteisislega um umræðuefni ef svo er ekki

Karlmenn sem klæða sig eftir sínum smekk (ekki verra ef eitthvað er verulega misheppnað - þá gæti kona hugsanlega fengið svolitla móðurtilfinningu fyrir greyinu og hugsað með sér að hann þyrfti kannski smá aðstoð)

Karlmenn sem kunna og gera heimilsverkin óumbeðnir (þarf að útskýra það eitthvað nánar???)


Should I stay or should I go ?

Undanfarið hef ég haft miklar áhyggjur af mínu litla bæjarfélagi Hverageði. Eins leiðinlegt og mér finnst það þá sýnist mér allt vera að fara í hundana hér. Þetta fallega þorp er að rembast við að vera bær og lyktirnar verða sennilega þær að úr verður ormlaga vegasjoppa að amerískri fyrirmynd. Sanniði til, með þessu áframhaldandi verður komið bílaumboð við þjóðveginn ef svo heldur áfram sem horfir.

Samkvæmt nokkuð áreiðanlegum heimildum er fjárhagsstaða bæjarins með eindæmum erfið. Endurskipulagning stendur yfir að því er mér skilst og meðal annars hefur staða æskulýðsfulltrúa verið felld niður. Reyndar má kannski segja að farið hafi fé betra í þessu tilfelli en eftir stendur málaflokkurinn berstrípaður í þessum bæ sem gefur sig út fyrir að vera fjölskylduvænn vaxandi smábær í fallegu umhverfi.

Fallegur, smár en vaxandi - jú vissulega - en fjölskylduvænn? Það held ég varla. Ekki nema þó að því leytinu til hvernig samfélagið sjálft heldur utan um sína. Og það hefur ekkert með bæjarsjóð eða bæjarstjórna að gera.
Sonur minn sem er nýorðinn 13 ára getur ekki beðið eftir því að það verði tekið á móti atvinnuumsóknum hjá fyrirtæki einu hér í bæ - Dvalarheimilinu Ás/Ásbyrgi. Hann segir mér það að hann geti haft 50 - 60 þúsund á mánuði og svo sé bónus í sumarlok fyrir þá sem mæta vel og vinna vel.

Þetta er einn af þeim kostum sem smábærinn eða öllu heldur þorpið býr yfir. Þetta er ein af þeim ástæðum sem gera það að verkum að maður er ekki fluttur. En hvað er það sem er svona frábært við þetta gæti einhver spurt?
Jú nefnilega það að krakkar hafa hvað sem öllum alþjóðasamþykktum líður bara gott af því að vinna. Fyrir því er einnig rík hefð á Íslandi að krakkar vinni á sumrin og reyndar svo sterk að til skamms tíma var kennsluár skóla í landinu algerlega miðað við þarfir atvinnulífsins, nefnilega landbúnaðarins.

Það sem skiptir þó mestu máli er uppeldislega gildið sem þetta hefur fyrir einstaklinginn sem fær að njóta slíkra forréttinda að vinna fyrir launum. Sú tilfinning að maður sé að gera gagn og að frammistaða manns skipti einhverju máli er undirstaða persónulegrar velgengni og vellíðan að mínu mati. Þetta er eitthvað sem ég efast um að margir nenni að andmæla. En nákvæmlega þetta er eitt af því sem er bara ekki innbyggt í borgarsamfélög en blómstrar oft á tíðum í dreifbýlinu. Það er að segja að í borgarsamfélagi verða sjálf fyrirtækin kannski fjarlægari fólkinu. Hérna í Hveragerði eru aftur á móti 3-4 nokkuð stöndug eða alla vega rótgróin fyrirtæki sem skynja mikilvægi sitt í heildarmyndinni. Stjórnendur og eigendur þessara fyrirtækja eru stórmenni og það er þeim að þakka að hér er ekki allt á vonarvöl - það er svo sannarlega ekki rifrildis-óróa-ég-vil-ráða-hvað-sem-það-kostar-fólkinu sem hefur setið í stjórn þorpsins míns undanfarin allt of mörg ár.

Við höfum andskotinn hafi það ekki efni á því að vera að rífast þetta alltaf hreint og standa í málaferlum hvert við annað bara til að geta öskrað út í vindinn: ég vann, ég hef rétt fyrir mér - minn er mátturinn og dýrðin!!!

Hver er dýrðin? Áttum okkur á því hvert og eitt og vinnum saman af heilindum í því að bjarga því sem eftir lifir af þorpinu og þorpurunum í Hveragerði. Mitt innlegg eru þessi blogg þar sem ég meina ekkert nema gott af því að ég elska þorpið mitt og svíður að sjá það blæða.

Lifið heil


Sælt veri fólkið

Ég hef ekki bloggað neitt á þessum vettvangi áður heldur á öðrum stað sem hentar mér ekki lengur (eða réttara sagt tölvunni minni). Eins og fram kemur í því sem ég segi um sjálfa mig hér á svæðinu - um höfundinn - þá forðast ég að berast með straumnum og þess vegna er ég með Makka en ekki PC tölvu.

Já ykkur er velkomið að hlægja að tölvuvandræðum mínum. (Þótt mig gruni að þig hlægið að grunnhyggni minni umfram tölvuvandræði - það er jú hún sem kom mér í þessi vandræði). Mér finnst þetta hins vegar misfyndið satt að segja. Auðvitað þurfti ég að fjárfesta í Makka á sínum tíma sem var helmingi dýrari en hefðbundin PC tölva. Þetta gerði ég auðvitað af því að allir hinir eru með PC. En það kostar stundum að vera með þetta sérlundarheilkenni sem ég þjáist af. Í þessu tilfelli kostar það mig til dæmis að ég get ekki, þegar ég skrifa texta í bloggumhverfi, notað íslenskar gæsalappir svo eitthvað sé nefnt. (sko ég get ekki lært á þennan vélbúnað - auðvitað er þetta hægt - ég bara get ekki fundið út úr því og enginn sem ég þekki kann neitt á Makka og ég þori ekki að hringja oftar í Apple-búðina, þeir halda nú þegar að ég sé ekki með fulla greind). Það fer brjálæðislega í taugarnar á mér þar sem ég er auðvitað jafn ferköntuð og ég er sérlunduð og held því þess vegna fram (eða trúi því allavega) að ég sé betri manneskja ef ég reyni að fylgja íslenskum reglum varðandi málnotkun og ritun.

En sum sé; nú skelli ég mér út í stóru laugina með ykkur hinum hérna á moggablogginu og sé til hvert það leiðir mig - það er að segja ef tölvan leyfir..........


Höfundur

Soffía Valdimarsdóttir
Soffía Valdimarsdóttir
Bara ég sjálf hvort sem ykkur líkar það betur eða verr!
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband