Leita í fréttum mbl.is

Adios amigos

Vegna ráðningar Davíðs Oddssonar á Moggann mun ég ekki blogga oftar hér á þessum vettvangi.

 Sá maður er líkastur krabbameini líkt og Sjálfstæðisflokkurinn sem uphaflega var stofnaður til góðra verka en er nú orðinn eins og eitlakrabbi sem teygir anga sína um innstu kima samfélagsins leynt og ljóst með ófyrsjánlegum afleiðingum fyrir þá sem ekki geta varist.

Þessi ráðning kom ekki á óvart. Ekkert kemur lengur á óvart úr þessari átt. Valdfrekja og lífshroki þessa samfélagshóps er óendanlega djúpstæður. Ég sagði Mogganum upp á dögunum og get ekki bloggað undir þessum kringumstæðum.

Oft verið gaman en grínið er búið, sjáumst síðar annars staðar.

Takk fyrir samveruna

xxx Fía litla


Hollvinaráð í kreppu

Allan minn aldur hef ég látið mig dreyma um að vera eðlileg - sko þegar kemur að mat og matarvenjum. Helst dreymir mig um að graðka í mig grænum hlutum í ólíkum formum. Broccoli til dæmis er svona dót sem ég kaupi og kaupi og kaupi af því að ég vil svo mikið að ég geti hugsað mér að borða það.

Svo dagar það uppi í ískápnum og byrjar að springa út í gulum blómum. Þá vilja sumir meina að það sé ónýtt. Það er einfaldlega kjaftæði.

Þá gerir maður broccolisúpu:

Saxaðu broccolihaus eða tvo með stilki og öllu. Saxaðu stóran lauk eða tvo, hálfan til einn blaðlauk, sellerístöng eða tvær ef þú átt þær, 2-4 kartöflur eftir stærð og eina til tvær gulrætur ef þeim er farið að leiðast í ískápnum.

Allt í pott + dass af olíu og steikja létt í smá stund. Þá 1-2 tsk. karrý útí og steikja með. Svo 1 1/2 lítra af vatni + tvo stóra kjúklingateninga og tvo litla nautakraftsteninga + ögn af chilidufti. Sjóða í 20 mínútur.

Mauka svo með töfrasprota og sigta í annan pott ef vill. Endurhita og dassa með allt að 250 ml. af matreiðslurjóma.

Þetta er svo borið fram með hafrabollum sem eru góðar og kosta ekkert og maður gerir einhvern vegin svona:

Taktu 2 dl af haframjöli og settu í skál. Helltu 2 dl af sjóðandi vatni yfir og láttu kólna að mestu.

Á meðan seturðu 2 dl af heitu vatni í hrærivélarskálina + 1 af kaldri mjólk + 1 msk af hunangi + 2 bréf af þurrgeri. Hrærðu aðeins saman og bíddu í korter.

Nú er gerið farið að freyða svolitið og þá seturðu hafragrautinn útí + brauðhveiti eins og þarf (lítið í einu og sjá til) + 2 tsk salt.

Kveiktu á ofninum og stilltu hann á 200.

Láttu vélina hnoða þetta um stund og passaðu að hafa deigið ekki of þurrt. Láttu nú deigið hefast á hefðbundinn hátt í u.þ.b. 40 mín. Þá mótarðu bollur og raðar á bökunarpappírsklædda plötu. Gleymdu þeim svo þar í smá stund á meðan þú gengur frá eftir baksturinn og leggur á borð.

Svo er bara að henda bollunum inn í ofn, stilla á blástur og muna að setja vatn í skál inn í ofninn. Bakið svo í 12-18 mín. eftir því hvað bollurnar eru stórar.

Þetta klikkar ekki og kostar næstum ekki neitt nema það að nenna að taka til í ískápnum

Verði ykkur að góðu
xxx
Fía litla

E.s. Þetta er allt of mikið af bollum. Þá er bara að frysta rest. Þegar maður hitar þær svo upp er málið að hafa ofninn vel heitann og hafa bollurnar stuttan tíma í ofninum svo þær þorni ekki.


Það kom að því

Nú áttar fólk sig á því að það þýðir ekkert að vola bara og væla eins og hippar á endalausri naflaskoðunar-sjálfshátíð heldur þarf að bretta upp ermarnar og starfa.

xxx
Fía litla


mbl.is 600% aukning í sölu hannyrðabóka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kjarnakonur - já og ein afmælisstelpa

Vitiði, ég þekki svo mikið af dugmiklum kjarnakonum að ég veit þið bara trúið því ekki. Ég er bókstaflega umkringd þessum valkyrjum hvar sem ég fer.

Ég ætla ekki að nafngreina þær, nema eina af því að hún á afmæli í dag. Það er hún Tóta mín. Til hamingju með daginn ef þú lest þetta. Hún kallar ekki allt ömmu sína og hefur þann sess sem henni sæmir.

Í gærmorgun hitti ég á göngu minni konu sem hefur söðlað um svo um munar.
Hún hefur fram að þessu unnið sína vinnu samhliða því að ala upp og gefa Íslandi 4 góða og gegna samfélagsþegna. En nú sem sagt er konan komin í skóla. Ég varð léttari í spori hreinlega því ég samgladdist henni þar sem hún ljómaði öll með skólatöskuna á öxlinni í innkeyrslunni á leið í skólann.

Ein vinkona mín, einstæð tveggja barna móðir, var að byrja í masternámi ofan á sína vinnu og heimili. Hún kom eignalaus heim frá útlöndum á sínum tíma með tvö börn og rippaði sér í gegnum 4 ára háskólanám með sóma.

Önnur sem er líka ein með barn tók sitt nám með bleyjuskiptingum og næturvökum. Hún tók sig svo upp og fetaði draumaslóðina í öðru landi þar sem hún ein og óstudd kom þeim mæðgum inn í öll þau kerfi sem nauðsynleg eru til að lifa í nútímasamfélagi.

Ein til lét ekki barlóm og kreppu buga sig heldur skundaði til Noregs í góða vinnu og fríðindi a la 2007 frekar en að liggja heima vælandi í samdrætti og skuldasúpu.

Enn önnur tók ábyrgð á lífshamingju sjálfrar sín og barnanna sinna, pakkaði saman og færði sig um set. Hún gerði það alein og brosandi.

Ekki búið enn. Ein er þeirri gáfu gædd að hún bjargar því sem bjarga þarf hvað sem á dynur. Ég heyrði um hana sagt í gær: Sko hún er alveg ótrúleg konan, hún er bara búin að redda þeim húsnæði og mögulega vinnu líka! Þessi kona er sennilega vinsælasta manneskja sem ég þekki og það er ekki af engu.

Eina þekki ég sem vinnur vinnuna sína mikið betur en henni ber miðað við greitt starfshlutfall. Hún er stöðugt vakin og sofin yfir því sem gæti komið skjólstæðingum hennar að notum og til góða enda elskuð af þeim og aðstandendum þeirra svo eftir er tekið.

Annarri vinnusamri konu hefur mér borið gæfa til að kynnast og starfa með. Hún gerir allt vel sem hún gerir yfirleitt og það er ekki fátt. Handbragð og árangur verka hennar er að spyrjast út hægt og örugglega til hagsbóta fyrir marga.

Ein er jarðbundin, traustur klettur sem alltaf er hægt að stóla á að sjái björtu hliðarnar í stöðunni. Hún heldur fallegasta heimili sem ég kem á, látlaust og stílhreint en samt hlýtt og bjóðandi. Hún er vinmörg og vinsæll starfskraftur. Hún gefur kraft með nærveru sinni og eldmóði.

Sú síðasta er valinkunn sómakona sem hefur kannski stíft yfirbragð en er rómuð fyrir raungæsku. Skjólstæðingar hennar senda henni jólagjafir og þakkarkort árið um kring.

Allar þessar konur eru sjálfskapaðar. Það er að segja, þær hafa allar tekið af skarið í sínu lífi á einn eða annan hátt og bætt umhverfi sitt með því að vera ábyrgar fyrir eigin lífshamingju.

Þær eru allar sístarfandi og gefa ríkulega til samfélagsins.
Þær hafa allar hafnað eymd og volæði.

Þær eru mínar fyrirmyndir og ég er þakklát fyrir þær allar
xxx
Fía litla


Afmæli og ekki afmæli

í dag hefði bróðir minn, Siggi, átt afmæli hefði hann lifað.
Ég hugga mig við það að hann væri orðinn kall og það er ekkert víst það hefði farið honum vel.

Hann var 25 ára þegar hann fór eins skyndilega og hann kom (ekki alveg viss um að mamma taki undir þetta).
Í dag væri hann 44 ára - kannski með skalla en örugglega gráhærður.
Hljómar fáránlega!

Annars er þetta bull!
Þeir sem fara eins og við segjum, fara nefnilega ekki eitt eða neitt heldur eru þeir með okkur sem eftir lifum alla daga allan ársins hring hvort sem okkur líkar það betur eða verr.
Þannig er nú það.

En svo kynntist ég stelpufífli sem ég kalla vinkonu mína.
Hún á einmitt afmæli í dag.
Hún er eiginlega orðin kelling bara - til hamingju með það ef þú lest þetta gamla mín!

xxx
Fía litla


Hvað verður það næst?

Nú þegar ekki er lengur inn, eða mögulegt vegna aðstæðna, að flokka fólk og dæma að ágætum eftir efnahagslegum forsendum eða tilvísunum eins og til dæmis bílaeign, mun öðrum aðferðum verða beytt í því skyni.

Ég spái því að HEILSU- og ÚTLITSFASISMI muni taka við enda ekki ókunnug hugmyndafræði a Fróni.

Ekkert við því að gera.
Heimska fólkið verður alltaf að hafa eitthvað við að vera - eitthvað sem það ræður við.

xxx
Fía litla


Því lætur þú ekki í þér heyra?

Hvort sem hlutaðeigandi aðilar vilja horfast í augu við það núna eða ekki þá er ljóst að söguskoðun síðari tíma mun leiða í ljós og staðfesta að á fyrsta áratug 21. aldar skullu á íslensku þjóðinni, af fullum þunga, afleiðingar gríðarlegra mistaka sem félagasamtök og einstaklingar í ráðandi stöðu árin á undan gerðu - sjálfsagt óviljandi að einhverju leyti - í trausti þess að sú hugmyndafræði sem þeir aðhylltust væri góð og gegn.

Að sjálfsögðu munu verða sagðar fleiri en ein saga - allt eftir því hver borgar fyrir að láta skrifa hverju sinni.

Það breytir ekki því að ákveðinn sannleikur mun koma fram.

Þið sem bloggið gerið ykkur kannski ekki fulla grein fyrir því hversu mikilvæg heimild skrif ykkar kunna að verða þótt síðar verði.

Kerfisfræðingar og aðrir sérfræðingar í varðveislu hvers kyns gagna deila reyndar um það hvort tölvugögn muni varðveitast endalaust á því formi sem þau eru núna.

Hvað sem þvi líður mun sjálfsagt eitthvað af því sem við skiljum eftir okkur núna verða aðgengilegt áfram.

Það sem við ræðum hér mun því verða innlegg í söguna - það mun verða hægt að lesa beinlínis eða á milli línanna hver líðan þjóðarinnar og viðhorf voru á þessum ólgutímum. Það er hægt að gera minna gagn en það.

Það sem ég skrifa er ekki sérstaklega til þess gert að lifa mig mín vegna. Alls ekki. Ég er bara sandkorn á ströndinni eins og við öll.

Ég hins vegar geri mér fulla grein fyrir því að það sem ég segi hér og held fram frá degi til dags hefur bæði þýðingu og að því fylgir ákveðin ábyrgð. Hana er ég tilbúin að axla.

Ég trúi því staðfastlega að með því að rausa hér og ragnast sé ég að gera gagn - annað hvort í núinu eða þá síðar. Þetta snýst ekki á nokkurn hátt um það hvort einstaklingurinn/persónan ég hafi rétt fyrir mér eða ekki. Mín skoðun og mín líðan skiptir máli. Mín rödd skiptir máli.

Það gerir þín rödd líka,
þú skiptir máli!
xxx
Fía litla

E.s. Ég hef áður sagt ykkur að ég nota þessa síðu beinlínis sem geðlosun. Það hentar mér vel. Að sjálfsögðu hefur ýmsu verið kastað hér fram sem einhverjum kann að þykja óviðeigandi eða ekki eiga heima nema á blaði í ruslakörfu. Ég er sammála því. Hins vegar á ég því láni að fagna að taka sjálfa mig ekki hátiðlegar en svo að ég er tilbúin að láta þetta allt flakka. Allt - og þá meina ég hvert einasta orð sem ég hef slegið hér inn meinti ég fullkomlega á þeim tíma sem ég lét það frá mér fara. Það er það sem skiptir máli - í því liggur heimildagildið/verðmætin.


Veistu svarið?

Hvað haldiði að það sé langt þar til Ingibjörg Sólrún stígur fram á sviðið aftur?

Hvort ætli hún taki við af útkeyrðri Jóhönnu eða fari í ESB-vinnuna?

Geta hún og Steingrímur unnið saman?

Verður framtíð okkar og barnanna okkar fórnað á stalli pólitískrar valabaráttu eina ferðina enn?

Geta flokkspólitískir og þjóðhagslegir hagsmunir einhvern tíma farið saman yfirleitt?

Hvað heldur millistéttin lengi út að borga brúsann?

Hvað gerist þegar millistéttin getur ekki meir?

Ég veit það ekki
xxx
Fía litla


Allir undir árar!

Ég veit ekki með ykkur kæru landar mínir og meðbloggarar en ég held að það séu straumar að verki í samfélaginu sem séu alvarlegri og illupprætnalegri en þeir sem voru á iði í vetur sem leið.

Í vetur höfðum við nefnilega ákveðinn spennulosunarventil, þ.e. laugardagsfundina og fréttir af þeim. Þeir sem sátu heima fundu samhygðina og kraftinn í gegnum skjáinn og það einhvern veginn sefaði fólkið.

En núna er ekkert í gangi í nafni fólksins sjálfs.

Reiðin og örvæntingin er þó síður minni en í vetur. Ég held hún sé meiri.

Á hverjum degi berast fréttir af meiri skít og fleiri glæpum sem framdir voru í nafni frelsis og athafnasemi.

Þær fréttir hleypa illu blóði í fólkið. Ég er til að mynda mikið reiðari núna en ég var í vetur. Það er öðruvísi tilfinning. Hún er líkamlegri, stærri og dýpri en hún var.

Ég óttast að borgararnir muni rísa upp með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Ég treysti mér ekki til að lofa því að ég rói ekki með.

Ég er svo reið!
Mér er svo misboðið!

Þegar Hótel Valhöll brann var ég stödd í Danmörku á námskeiði og sá lítið fréttir. Einhver sagði: Nei, sjáiði, Valhöll er að brenna! Það hvarflaði aldrei að mér annað en að um væri að ræða Valhöll Sjálfgræðgismanna í FLokknum og ég skal segja ykkur það alveg satt að á þeirri stundu flaug mér í hug eitthvað á þá leið að svona táknrænn atburður hlyti að hafa æðri merkingu og tilgang.

Lítilmennska mín og smæð kann að stinga ykkur sem lesið en ég trúi því að það sé hollt fyrir heildina að við séum sönn og segjum frá því sem hrærist með okkur á örlagatímum sem þessum.

Ég hef þess vegna aldrei farið í felur með inngróið ógeð mitt á karlakirkjunni sem hefur stjórnað þessu lýðveldi meira og minna frá stofnun þess.

Mig svíður að sjá formann og forkólfa Sjálfstæðisflokksins níða skóinn af þeim sem sitja undir árum núna og róa lífróður. Hvort sá róður nægir stórefast ég um.

Hvort róið er alltaf í rétta átt veit ég ekkert um.
Ég trúi því þó að mönnum gangi gott eitt til og vilji breyta til batnaðar.

Héti ég Bjarni Ben eða Illugi Gunnarsson til dæmis héldi ég helvítis kjafti, bæði afsökunar á því offari sem kollegar mínir hefðu staðið fyrir undanfarin ár, bretti upp ermarnar og settist undir árarnar með vinstrilúðunum.

Héti ég Sigmundur Davíð einhvers-son (eru nokkuð fleiri í Framsóknarflokknum?) færi ég þegjandi og hljóðalaust að taka til á kaffitofunni á Alþingi og skúraði svo ljósritunarherbergið hátt og lágt áður en ég færi heim í fótabað.

En ég er hvorugt.
Ég er vinstrimaður.

Það eina sem ég get gert er að vera heil í mínu og vona að félagshyggjuhugsjónirnar nái að draga að einhverju leyti úr þeim skaða sem sjálftökustefna í nafni frjálshyggju hægri manna hefur valdið landinu mínu og fólkinu sem byggir það enn sem komið er.

Ef ekki, er ég viss um að blóð muni renna og hallir brenna.

Við skulum vona að til þess komi ekki
xxx
Fía litla


Næsta síða »

Höfundur

Soffía Valdimarsdóttir
Soffía Valdimarsdóttir
Bara ég sjálf hvort sem ykkur líkar það betur eða verr!
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband