Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2008

Fokkjú-ismi eða ég-ismi

Í dag upplifði ég það hvoru tveggja í senn að vera mjög stolt af mínu fólki og svo að skammast mín ofan í rassgat.

Þannig var að ég var stödd á Rey-Cup fótboltamótinu, nánar tiltekið á verðlaunaafhendingunni. Puttinn minn hann Þórir og hans lið - Hamar/Ægir, unnu sinn riðil og þess vegna var ég stolt. Reyndar var ég líka og ekki síður stolt af þeim fyrir það að þeir höfðu að sögn eins besta þjálfara sem mín börn hafa haft í íþróttum fyrr og síðar, Ásgeirs Kr. Guðmundssonar (kallinn hennar Sædísar vinkonu minnar) hagað sér með eindæmum vel alla daga mótsins og verið samheldnir og kátir krakkar.

Til hamingju Hamar/Ægir og Ásgeir bestaskinn!!!

Hins vegar fór fyrir brjóstið á mér sá einkennilegi dónaskapur sem fólk almennt lætur spyrjast um á sig á öllum mannamótum núorðið án þess að svo mikið sem roðna. Þetta er sá ljóti ósiður að bera ekki næga virðingu fyrir náunganum og heildinni til þess að sitja til dæmis út athöfn af þessu tagi. Bæði fullorðnir og svo börn auðvitað líka því svo læra börnin sem fyrir þeim er haft, ruddust úr sætum sínum um leið og grillti í endann á athöfninni. Þrjú síðustu liðin stóðu á pöllunum og veittu verðlaunum viðtöku á meðan fólk flykktist út úr stúkunni í Laugardalnum eins og það ætti lífið að leysa. Þar að auki átti eftir að slíta mótinu formlega en það tók nákvæmlega 35 sekúndur þannig að það hefði ekki átt að drepa neinn að hinkra eftir því. Það neyðarlegasta var kannski að fyrirliði eins gestaliðsins, frá Bretlandi held ég, stóð eins og illa gerður hlutur með míkrafón í andlitinu í því skyni að þakka fyrir sig og sína félaga á meðan að æstur skríllinn þusti framhjá honum eins og hann væri ekki til.

Hver andskotinn er að fólki eiginlega???

Ég veit að það var klukkutími eftir af opnunartíma Kringlunnar og Smáralindar en svona dónaskapur nær ekki nokkurri átt. Þessi Ég-ismi er að verða að einum alsherjar Fokkjú-isma sem engin leið er að spá um hvernig endar.

Ég vil fá nýja bylgju gegn ríkjandi kerfum og venjum - núna væri það bara til bóta því siðrofið í íslensku samfélagi er slíkt að andófið getur ekki annað en bætt stöðuna.

Mannasiðapönkbylgju núna takk!


Hugsaðu rautt!

Þið munið eftir prjónakonunni sem átti pabbann með krabbameinið.

Ég man ekki hvort ég sagði ykkur það en eftir að konurnar í online-prjónaklúbbnum höfðu beðið fyrir honum hver með sínu lagi komu niðurstöður úr öllum testum þannig út að læknirinn talaði um kraftaverk. Þetta er hreina satt. Svo núna er prjónakonan búin að jafna sig heilmikið enda prjónaði hún frá sér allar áhyggjurnar. Svo er hún líka búin að fara á alveg hrikalega endurnærandi prjónakonumót í rómantískri villu úti í sveit með öllum prjónavinkonum sínum. Þið sem fylgist eitthvað með vitið auðvitað að það er fyrir svona vinkonuhitting sem við konur lifum bæði lengur og betur en karlar.

En hvað um það. Það sem er helst að frétta núna er að að prjónakonan hefur biðlað til prjónavinkvenna sinna að prjóna nú eitthvað rautt handa pabba hennar. Hún sér það fyrir sér hvernig hann verður umvafinn einhverju rauðu frá öllum þeim konum sem báðu fyrir honum og ráku krabbann burt.

Ég er viss um að það verður teppi úr alls konar afgangaferningum.

Bíð spennt
Læt ykkur vita hvernig fer..........
xxx
Fía litla


Beðið eftir andaktinni í kirkju sem stendur við vitlausa götu og vera sögð skrítla sem er of fyndin til að vera hlægileg en verður í staðinn grátleg.

Á laugardaginn var fór ég í alveg ferlega skemmtilegt og vel heppnað brúðkaup. Það var um margt sérstakt. Brúðurin er ættuð frá Fillipseyjum en brúðguminn aftur íslenskur. Þess vegna var ýmislegt framandi og öðruvísi bæði í sjálfri athöfninni og eins í veislunni.

Til dæmis brúðardansinn. Hann fór þannig fram að karlkyns gestum bauðst að dansa við brúðina að því tilskyldu að þeir nældu fyrst peningaseðli í slörið. Konurnar gerðu svo það sama við brúðgumann nema þar urðu jakkafötin að duga.

Það sem var þó kannski skrítnast og fyndnast við þetta allt saman var það sem presturinn rakst á í bókum sínum við undirbúning hjónavígslunnar.

Það vildi nefnilega svo skemmtilega til að akkúrat þennan sama dag fyrir réttum tuttugu árum síðan hafði þessi sami maður gifst sinni fyrrverandi og sami prestur séð um þá athöfn líka. Brúðguminn gasalegi mundi bara ekkert eftir því.

Þetta gat hún móðir mín ekki stillt sig um að segja mér þegar við vorum sestar í kirkjubekkinn. Þarna sat ég sem sagt og beið eftir að marglofuð andaktin kæmi yfir mig í þessu tiltekna guðshúsi sem stóð og stendur við Háleitisbraut en ekki Grensás eins og ætla mætti af nafninu, þegar hún dengdi þessu á mig.

Þar fór andaktin..........
xxx
Fía litla


Skoffín,Skuggabaldur og Urðaköttur

Fyrir ykkur kæru áhangendur sem eruð orðin leið á að sitja við gluggan og bíða eftir Kreppunni ætla ég að benda á eftirfarandi svo þið getið leyft ykkur að verða hrædd við eitthvað sem er í alvörunni.

Þrjár eru þær óvættir sem hafa þá sömu náttúru að ekkert verður þeim að aldurtila nema eigin spegilmynd eða skot úr silfurhnöppum og þarf þá að þríkrossa fyrir byssukjaftinn áður en hleypt er af.

SKOFFÍN er ein þeirra. Sú skepna skríður úr hanaeggi en þeir verpa gjarnan einu mjög smávöxnu á gamalsaldri.
SKUGGABALDUR er önnur. Það er kynblendingur kattar og tófu, aðrir segja kattar og hunds.
URÐARKÖTTUR er sú þriðja. Sá hefur lagst á ná og verið samfleytt þrjá vetur neðanjarðar í kirkjugarði.

Engin skepna hvorki menn né málleysingjar mega standast augnaráð þessara meinvætta og liggja þegar dauðir er þeir verða fyrir tilliti þeirra.

Þessa visku fékk ég að láni í Þjóðsagnasafni Jóns Árnasonar og heyrst hefur að silfurhnappa getið maður helst nálgast á flíkum betri bænda og annarra efnamanna. Verst er að slíkir eru jafnan varir um sig og sín auðæfi og því ekki auðfengið nema að þeim látnum og gröfnum. Hafið þó varann á ykkur því ég hef það fyrir víst að margir gerist fépúkar eftir dauðann og séu ófúsir að skiljast við auðlegðina. Eitt get ég þó sagt ykkur svona að lokum til varnaðar og hægðarauka að jafnan logar bláleitur vafurlogi yfir fólgnu fé í jörðu.

Gangi ykkur allt í haginn.
xxx
Fía litla


Bara hún litla ég

Í dag er rigning.

Ég er einhvern vegin hljóð, hæg og döpur innan í mér. Veit ekki af hverju. Búin að reyna súkkulaði. það virkar ekki.

Kannski er það bara rigningin..............

xxx
Fía litla


Það er gott að búa í Noregi - #%$&/(=#"!

Ef maður spyr til vegar í þéttbýli í Noregi inniheldur leiðarlýsingin alltaf a.m.k. einu sinni orðið BEDEHUSET (Bænahúsið) alveg nákvæmlega sama hvar maður er staddur það skiptið. Skondið!

Ef maður ætlar að kaupa í matinn í Noregi rekur mann í roga. Rétt sem snöggvast heldur maður að manni hafi verið hleypt út úr vélinni á vitlausum stað. Það er nefnilega ekkert ferskmeti til í búðinni og ekkert úrval af neinu. ónei! Bara ein ríkistómatsósa og bara brauðmolahjúpaður úrgangur í líki fisks og kjöts. Æ þeir eru svo blankir greyin!

Hvergi í veröldinni er fólk eins sjúklega natið við að troða skoðunum sínum upp á aðra og í Noregi. Ef þið eru einhvern tíma stödd á hlykkjóttum strandvegi hátt uppi yfir sjávarmáli um miðbik Noregs eða þaðan af norðar, þá lesið vandlega á klettaveggina á meðan þið lúsist framhjá. Sanniði til að ekki óvíða þar sem ekki er nokkur möguleiki að ímynda sér að nokkur maður eigi erindi út úr bílnum eða komist yfirleitt fyrir utan bíls vegna kletta og trjáa og umferðar úr gagnstæðri átt, munið þið finna slagorð á borð við: Jesus lever! Gud er din Herre! Jesus elsker dig! Og Jesus er livet! haganlega letruð á klettaveggina.

Ef þú átt erindi í heimahús í Noregi láttu þér þá fyrir alla muni ekki bregða þegar þú hringir bjöllunni. Það er nefnilega sennilegra en ekki að sálmasöngur eða kirkjuklukknaspil taki að hljóma þá þegar. Nei andskotinn!!!

Ef þér er boðið í partý i Noregi skaltu aðeins taka þig saman í andlitinu og átta þig á því að það er ekki sama partý og partý. Byrjaðu á því að skoða heimilisfangið. Gæti það hugsast að BEDEHUSET gæfi eitthvað til kynna um það hvers er að vænta. Gæti það kannski verið klókt af þér að skilja vodkann bara eftir heima og setja upp hárið og fara í kálfasítt pils og svona nokkuð sem í fyrstunni virðist kannski ekki alveg augljóst??? Það held ég nú!


Fagmönnum mistekst líka skiluru!

Krakkakvikyndið hennar systur minnar hann Siggi Heiðar ber þess nú ekki alltaf augljós merki að hann sé sonur uppeldismenntaðrar móður!

Hann puðrar og prumpar markvisst á mig til skiptis, segir mér að fara heim til mín, sendir mér puttann (það er nú reyndar ekki oft), segir mig líga (ljúga) að sér og kallar mig klikkuðustu frænku í heimi þ.e.a.s. þegar ég er ekki brjáluð kelling!!!

Ég skil ekkert í þessu - ég sem er alltaf svo prúð og tilhlýðilega settleg frænka og með eindæmum góð fyrirmynd í alla staði. Skiiiiiiil þetta bara ekki!

Þarf ekki bara að lengja leikskólakennaranámið í 5 ár eða jafnvel 6 ?


Pitt - svalasti köttur í heimi!

Eins og þið munið kannski var mikið kattager á mínu heimili þar til fyrir skemmstu. Þegar verst lét voru það 5 stykki hvorki meira né minna. Viiiiiiiiiiiððbjóður!

Núna er hins vegar bara einn eftir og það er enginn venjulegur köttur skal ég segja ykkur. Það er glæsihögninn Pitt - Brad Pitt! Hann er kolsvartur og hefur óvenju fínlegan líkamsvökst auk þess sem limaburðurinn er hreint tígulegur á að horfa. Það er eitthvað persneskt eða jafnvel Egypskt í honum - sko ekki bara villikattablóð. Samanber hið fornkveðna: Ef það sé úttlenst.......

Hin kvikyndin eru sum farin til kisuhimna en önnur á einhver verðandi ógæfuheimili. Þessi eini varð eftir vegna þess að hann er sá eini sem hlýðir. Valdimar er búinn að hafa hann í skúrnum hjá sér frá því hann var kettlingur og aga hann þannig að það er næstum því gaman að honum helvískum. Og svo er hann bara svo svalur svona svartur og glæsilegur.

xxx
Fía kisukona


Ó æ mig auma.....

......nú er mér allri lokið!

Áður en ég sest við alvöru skriftir á þessum milda degi sem lúrir utan í húsunum í dag ætla ég að skrifta svolítið og biðja þig um að hjálpa mér ef þú getur.

Þannig er mál með vexti að í vinnunni í gær sagði ég (alveg óvart að sjálfsögðu en samt eitthvað svo skelfilega eðlilega) ljótasta orðskrípi allra tíma - KLÁRLEGA. Sko þetta gerðis þannig að það var einhver safngestur að spyrja mig um allt mögulegt sem ég veit auðvitað ekkert um í alvörunni. Þessar spurningar snerust um myndlist almennt og svo verkin sem hanga á veggjunum hjá mér núna. Og ég svara bara sisona eins og ekkert sé eðlilegra: Jú það verða KLÁRLEGA þáttaskil um þetta leyti!!!

Þetta er í annað skipti sem ég segi þetta helvíti bara núna eftir áramót!!!!!!!!!!!!!!!!

Í öllum bænum ef þú heyrir mig segja þetta einhvers staðar þá sláðu mig þéttingsfast á kjammann með krepptum hnefa og ég skal mæta þér á miðri leið og bjóða hinn aldrei slíku vant. Ef þetta dugir ekki þá endilega láttu það eftir þér að snúa mig niður og sparka þessu andskotans ógeði út úr hausnum á mér í eitt skipti fyrir öll.

Nú ef ekkert dugir eða barsmíðarnar verða þess valdandi að ég yfirgef þetta jarðlíf þá vinsamlegast hafið samband við eiginmann minn og sálufélaga vegna útfararfyrirkomulagsins alls nema þó að undanskildum klæðnaðinum. Í þeim efnum ber að snúa sér til Huldu Bergrósar Stefánsdóttur sem rennur þá væntanlega blóðið til skyldunnar. Svo er ég viss um að mamma og Anna baka eitthvað gott handa ykkur þannig að þetta ætti allt að geta orðið hið huggulegasta.

Lifið heil og takk fyrir samfylgdina - mér er KLÁRLEGA ekki viðbjargandi.......
xxx
Fía litla


Karlar! Bara gera eins og við konur - þá lagast allt!

Þessa skemmtilegu tilvísun sótti ég á síðu sem ég kíki stundum á. Konan sem heldur henni úti heitir Jennifer Louden og fæst við mannrækt af ýmsu tagi. (Dáltið svona commercial kannski fyrir minn smekk en allt saman vel meint). Þessi speki er í hrópandi samræmi við það sem ég hef alltaf sagt, að konur hjálpa hvor annarri í gegnum þykkt og þunnt og lifa þess vegna betra lífi heldur en karlar. Sorglegt fyrir ykkur greyin mín en þetta er bara satt.

Retreats are powerful, and retreats with our girlfriends even more so. The famous UCLA study was the first to report that women respond to stress with a cascade of brain chemicals that cause us to seek out and bond with other women.

We don't flee or fight, we "tend and befriend" and it may explain why women consistently outlive men.

Another famous study, The Nurses' Health Study from Harvard Medical School, found that the more friends women had, the less likely they were to develop physical impairments as they aged, and the more likely they were to be leading a joyful life.

Rífið ykkur upp á rasshárunum drengir og gerið eins og við konur. Verið vinir hvors annars og gefið og þiggið þegar þörf krefur. Þá verður allur heimurinn svo miklu betri!

xxx
Fía litla


Næsta síða »

Höfundur

Soffía Valdimarsdóttir
Soffía Valdimarsdóttir
Bara ég sjálf hvort sem ykkur líkar það betur eða verr!
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 12
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 11
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband