Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2009

Doldið sona eftir á!

Nú veit ég af hverju blóðið þýtur hraðar í æðum mér þegar ég hugsa um pólitík og hvað mætti betur fara hjá einstökum slíkum kónum.

Sjálf er ég nefnilega ekki rassgat skárri en hver annar pólitíkus!

Mér finnst sennilega þegar ég hugsa um pólitíkusa og þeirra gjörðir bara eins og ég sé að hugsa um eigin ófarir og ónytjungshátt. Það vantar ekki að ég fæ góðar hugmyndir. Alveg svoleiðis brjálæðislega margar og sumar svo góðar og æsilega spennandi að ég get kannski ekki einu sinni sofið á nóttunni.

En ég klikka alltaf þegar kemur að framkvæmdinni - hljómar soldið svona kannski aðeins eins og pólitíkusarnir - ikke?

Til dæmis er einhver gaukur á Blönduósi búinn að prófa hugmynd sem ég fékk fyrir u.þ.b. 4 árum. Aðeins önnur útfærsla reyndar en skuggalega áþekk minni. Hann klúðraði reyndar og fór á hausinn svo ég gæti alltaf prófað mína ..........

Svo sé ég núna að kona nokkur á Ísafirði er búin að stofna fyrirtæki með nákvæmlega sama nafni og ein snemmborin en ófullburða hugmynd úr mínum haus hét og heitir reyndar enn.

Dáldið svona aftarlega á merinni og gersamlega vonlaus wannabee-týpa sem ég er og verð sjálfsagt alltaf.

Andskotinn!

xxx
Fía litla


Getur það verið ?

Vitiði, ég er nú bara svo mikið kjánaspott að ég trúi því að þegar fjöldinn leggur saman hugi sína þá geti hlutir gerst.

Eins og til dæmis þegar múgurinn kveikir á óteljandi mörgum kveikjurum á tónleikum og ástin og samhyggðin verður þykk og áþreifanleg allt um kring, allir viðstaddir draga til sín kraftinn og hughrifinn í gegnum andardráttinn og svitaholurnar. Þeir sem ekki eru með kveikjara eru fljótir að gleyma því og færa hendurnar upp líkt og þeir væru með sjálfan ólympíueldinn og vildu fátt annað frekar á þeirri stundu en að leyfa öllum að njóta ylsins og birtunnar af honum með sér.

Svona gerðist það að Ísland og Íslendingar urðu að beiningarmönnum og ómerkingum haustið 2008.

Þá var fjöldi þess fólks sem mat eigin hagsmuni og völd meir en hagsmuni þjóðarinnar orðinn svo mikill að hlutir tóku að gerast. Eldarnir sem sá fjöldi kveikti brenna nú upp heimilin og fyrirtækin í landinu.

Óheilindin, valdasóttin og peninngagræðgin tóku að móta hægt vaxandi spíral sem skrúfaðist niður í lægstu lægðir mennskunar þar sem ljótt hittir fyrir ljótt og útkoman getur ekki orðið önnur en eyðilegging og eymd.

Þetta ferli var löngu byrjað. Við höfum margar vörður að líta til ef við viljum rekja slóðina aftur á bak.

Ein er sú sem reis og hverfur aldrei úr íslensku landslagi, þegar tveir einstaklingar ákváðu fyrir hönd allra Íslendinga að þeir skyldu gerast aðilar að svívirðilegri styrjöld gegn varnarlausri alþýðu í annarri heimsálfu svo vinir þeirra í vestri fengju þá olíu sem þeir girntust.

Önnur var hlaðin þegar örfáir valda- og peningasjúkir einstaklingar ákváðu að selja vinum sínum og vildarmönnum þjóðareignir á borð við bankana fyrir smáaura, því þeim fannst svo gaman að geta með því snuprað óvildarmenn sína og pólitíska andstæðinga sem þóttu orðið helst til umsvifamiklir á viðskiptasviðinu.

Ennú ein reis svo hleðslumönnunum til ævarandi háðungar þegar formenn tveggja stærstu stjónmálaflokkanna þá um stundir ákváðu að stjórna bara landinu okkar tvö ein - leyfa kannski veika manninum í Svörtuloftum að vera með á bak við tjöldin en engum öðrum. 

Þau rúluðu og drottnuðu, töluðu ekki við hlutaðeingandi embættismenn eins og til dæmis ráðherra bankamála á sínum tíma og fóru svo bara í einkaþotu út í heim að ljúga að útlendingum að allt væri í stakasta lagi hér heima þegar eldarnir voru í raun kviknaðir.

Ykkur er alveg guðvelkomið að mistúlka þá hugmynd mína og efast um geðheilsu mína líka þegar ég segi: Gæti það hreinlega verði einhvers konar forsjá eða náttúrlegt mótvægis-element sem var að verki þegar allt þetta vesalings fólk fékk alvarlega sjúkdóma sem kippti því út af borðinu þegar allt kraumaði og sauð?

Nei, ég er ekki að tala um guðlega refsingu! Ég er kannski geðveil en ég er ekki fáviti!

Getur ekki verið að nógu margir hafi hreinlega verið með sinn kveikjara á lofti heima í stofu í ástarbæn til Íslands og samferðafólks síns svo að svo fór sem fór?

Allt þetta fólk lifir jú og mun vonandi lifa góðu lífi áfram - utan stjórnsýslunnar takk! En því var sannarlega kippt út á ögurstundu. Það er tæplega tilviljun.......... (þau ykkar sem viljið endilega misskilja mig og væna þá væntanlega um að óska fólki ills, gjörið svo vel - það skrifast á ykkar eigin takmarkanir ...).

Getur ekki bara verið að við, fólkið, höfum verið að verki án þess að vita það?

GEÐVEIKAR ástar- og saknaðarkveðjur

xxx

Fía litla  


Vill einhver eiga 41 árs gamla konu?

Nú er svo komið að ég er pólitískt munaðarlaus kona.

Ég er félagshyggjumaður, hlynnt jöfnuði í bland við þá sjálfsögðu kröfu að menn njóti í meginatriðum erfiðis síns í réttu hlutfalli við framlegð og ég veit ekki betur en ég sé líka feministi.

Ekkert af því sem er í gangi í íslenskum stjórnmálum í augnablikinu fullnægir þessum kröfum mínum. Það eru reyndar ennþá innan um einstaklingar sem ég get bæði verið sammála um margt og þá um leið treyst til stórra verka.

Hins vegar er flokkakerfið með þeim hætti að einstaklingar skipta litlu sem engu. Raddir þeirra fáu sem mögulega er hægt að kalla hugsjónafólk drukkna í stefnuyfirlýsingum og tilheyrandi vanefndum á þeim frá degi til dags.

Í grundvallaratriðum liggur vandinn í því að ég skil ekki lengur hver stendur fyrir hvað og hverjir ætla að standa við hvað og þá ekki heldur hvað stendur til að svíkja.

Mér sýnist ég verða að skila auðu í næstu kosningum (já það hljóta að fara að bresta á kosningar).

Allt er á hvolfi í mínu pólitíska sálarlífi í augnablikinu. Til dæmis get ég sagt ykkur að sennilega verð ég að kjósa Sjálfstæðisflokkinn í næstu bæjarstjórnarkosningum í Hveragerði.

Já, ég sagði Sjálfstæðisflokkinn.

Þannig háttar nefnilega til á þeim bæ að bæjarstjórinn okkar, Aldís Hafsteinsdóttir, er nákvæmlega manneskjan sem ég vil hafa þar sem hún er núna. Öll aðkoma hennar að bæjarmálum upp á síðkastið vitnar um djúpstæðan skilning á því hvað það er sem lítill svefnbær á borð við Hveragerði þarf á að halda til að geta þrifist. Menning og aftur menning er það sem málið snýst um. Fáir ef nokkrir sem staðið hafa í bæjarpólitíkinni í Hveragerði svo lengi sem ég man hafa haft jafn heilbrigða sýn á það sem Hveragerði er og þarf að vera. Nefnilega garðyrkjubær og heitur reitur - í víðum skilningi.

Ég vona svo sannarlega að ekki komi til þess að ég þurfi að kjósa Sjálfstæðisflokkinn í landsmálin líka til þess að landið mitt verði ekki gert að útnáradeild í Evrópuskrýmslinu. Sú stofnun stefnir hraðbyr að því að gera Evrópu að eins konar sambandsríki með vaxandi miðstýringu.

Dugi þetta ekki til að skýra hversu týnd ég er þá veit ég ekki hvað ég get gert meir.

xxx

Fía litla 


En mamma, ég er samt stór inn´í mér!

Fátt ef nokkuð finnst mér eins hjákátlaegt og merkjasnobb og fylgispekt við ríkjandi tískustrauma!

Ég vorkenni fólki sem er upptekið af merkjum og merkimiðum á efnislegum hlutum. Ennþá meira vorkenni ég þó fólki sem er upptekið af merkimiðum á andlegum sviðum lífsins. Ef fullorðin manneskja stundar aðeins tómstundir og samverustundir með fjölskyldunni í samræmi við það sem er pólitískt rétt og viðurkennt þá stundina þá á hún mikið mikið bágt.

Ég á við svona fólk sem þarf stöðugt að vera að láta aðra vita af því hvað það gerði um helgina og hvað það er með í stofunni hjá sér. Undantekningalaust er hvoru tveggja eitthvað sem er fullkomlega inn það og það misserið.

Þannig fór viðkomandi ekki í golf um helgina af því að það sé það sem nærir sálina mest heldur af því að það er trendí í augnablikinu. Gera má því skóna og jafnvel heilu stígvélin, að aumingjans pésinn hafi verið rétt gallaður á vellinum.

Þetta sama fólk segir manni gjarnan eitt og annað um hönnuði og seljendur dótsins sem það hefur í stofunni (eldhúsinu reyndar ekki síður nú undanfarin ár). Það gerir það alveg óviðkomandi því hvort þú, gesturinn, hafir einhvern áhuga á slíku eða ekki.

Allt þetta pot og puð leggur fólk á sig til þess að ekki komist upp um smæð þess og lítilmennsku. Það skilur einfaldlega ekki að ef þér - gestinum eða vininum, þykir ekki nógu mikið til viðkomandi koma án merkjadraslsins þá er hann sjálfsagt ekki þess verður að púkka upp á hvort eð er.

Það sorglegasta er að allt þetta streð öskrar út í tómið svo það fer ekki framhjá nokkurm lifandi manni: ÉG ER AÐ DREPAST ÚR MINNIMÁTTARKENND!

Dóttir mín var ekki nema 4 ára þegar hún áttaði sig á því að þótt hún sé fádæma lítil manneskja líkamlega þá er hún samt ,,stór inn´í sér"

Vonandi lærist Íslendingum það núna þegar við höfum ekki efni á merkjum og uppbótarviðhengjum.

xxx

Fía litla

 


Að vera lítill í stórum heimi - eða að vera stór í litlum heimi..........

Í gærkvöldi kláraði ég að lesa Tengdadótturina, skáldsögu eftir Guðrúnu frá Lundi.

Þessi kona var snillingur held ég bara. Ekki það að stíllinn er mjög fyrirsjáanlegur og þreytandi á köflum (sko, jafnvel heilu kaflarnir alveg að drepa mann) en önnur eins persónusköpun er sjaldséð bæði fyrr og síðar.

Hún smíðar karaktera (sem reyndar má finna aftur og aftur undir ólíkum nöfnum í ólíkum verkum höfundar) sem eru algerlega trúir sjálfum sér út í gegn. Þú veist að þessi eða hinn gaukurinn muni bregðast svona eða hinseginn við misdramatískum aðstæðum hverju sinni. Þroskasögu-elementið er ekki að þvælast neitt fyrir Guðrúnu frá Lundi nema síður sé - gaman að því!

Sagan er alltaf hádramatísk, nánast átakanleg, og brostnar vonir + afneitun eigin langana eru eins konar stef í þessum bókum. Að bera harm sinn í  hljóði er gríðarlega sexý persónueinkenni höfuðpersónanna og Gróa á leiti er fastagestur á þriðju hverri síðu.

Svo eru þetta bara svo magnaðar þjóðlífslýsingar!

Mæli með þessu í fríið!

Nú eða bara Guðmundi G. Hagalín ef ekki vill betur....... (sko, ljóðunum - mér er annt um ykkur)

xxx

Fía litla 

 


Kannski hættir maður bara aldrei að verða gapandi hlessa..........

Alveg á ég ekki eitt einasta orð yfir því að það fyrsta sem ég rekst á í fjölmiðlum núna þegar ég er komin heim eftir tveggja vikna kreppuhlé í Danmörku, skuli vera athugasemdir fólks um það hvort Davíð Oddsson ætti að stíga inn á sviðið aftur eða ekki.

Það er ekki í lagi með ykkur kæru landar!
Það er allt að hruni komið og Davíð - Davíð, af öllum kvikyndum jarðarinnar - er það eina sem ykkur dettur í hug!

Hjáááááálp!
xxx
Fía litla


Höfundur

Soffía Valdimarsdóttir
Soffía Valdimarsdóttir
Bara ég sjálf hvort sem ykkur líkar það betur eða verr!
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband