Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júní 2008

Halló, halló!

Ekki halda eitt augnablik að ég hafi ekki nennt að blogga að undanförnu. Óekki. En tölvuóbjóðurinn minn hefur verið með uppsteit. Hélt reyndar á tímabili að hún væri dáin en svo sprelllifnaði hún við aftur bara sisona.
Já svona getur lífið verið dásamlegt.

Mig sundlar og verkjar þegar ég hugsa um allt það sem ég hefði getað æst mig yfir þessa hæglætisdaga sem liðu við tölvuleysi. Þess vegna sleppi ég því bara.

Annars langaði mig bara að segja ykkur að það er ekki ísbjörn í bakgarðinum hjá mér svo ég viti og að Samfylkingin var sko ekki komin í ríkisstjórn þegar áformaðar virkjanaframkvæmdir voru negldar svo það er sko ekki þeim að kenna að af þeim mun verða bæði hratt og örugglega.
Svo kannski bara svona í gamni af því að ég veit að ykkur finnst það skipta svo miklu máli, þá langar mig að minna ykkur á að allra heitasta og merkilegasta fyrirbærið í allri veröldinni akkúrat núna er ÍMYNDIN.

Hvað sem þið gerið (að ég tali nú ekki um það sem þið hugsið) þá bara munið mig um það að gæta að ÍMYNDINNI. Ef þið þurfið að skríða, selja ykkur, setja upp allt-í-gúddí-spari-brosið þrátt fyrir það að þið séuð í sjálfsmorðshugleiðingum, þá bara umfram allt og í öllum bænum gerið það strax og án þess að kvarta. Við drepumst hvort eð er ég og þú - en ímyndin selur minninguna um okkur langt langt inn í eilífðina.

Og er ekki minningin um að sem einu sinni var alltaf betri en það sem er?
Það held ég
xxx
Fía litla


Æ...

....ég ætlaði auðvitað að segja lýðræði en ekki lýðveldi en þið eruð löngu búin að átta ykkur á því ekki satt?

Ertu nú alveg viss?

Er Ísland lýðveldisríki?
Eða kannski heldur: Er lýðveldið virkt á Íslandi?

Hvað er lýðveldi? Hvað þýðir þetta orð?
Það þýðir að lýðurinn eða meirihlutinn ráði. En ráði hverju þá?

Við kjósum okkur fulltrúa á Alþingi. Það stjórnmálaafl sem skorar hæst fær svo stjórnarmyndunarumboð. Svo hefjast þreifingar. Allur gangur er á því hvernig það gengur og þið vitið framhaldið er það ekki?

Sem sagt: Það er engin trygging fyrir því að sigurvegarar kosninga verði við völd heldur er það reglan um meirihluta, þ.e. 32 þingmenn eða fleiri saman í stjórn alveg burt séð frá því hver fékk hvað í kosningum.

Ókei - þetta eru bara vangaveltur. En svo er það ýmislegt fleira.
Til dæmis má spyrja sig hvort það sé lýðræði að 63 manneskjur eða kannski bara 32 ef þannig stendur á taki meirháttar ákvarðanir fyrir 300.000 manns. Er það lýðræði? Ég er ekki viss.

Erum við hin 299.968 einhverntíma spurð beint um það hver sé okkar vilji í einstökum stórum málum?

Er það kannski satt að það séu í rauninni nokkur hundruð manns sem skiptast í einskonar ættar- eða lénskerfi sem stjórna öllu á Íslandi og eigi um leið hvert tangur og tetur af öllu sem hrærist á klakanum?

Getur það verið að til dæmis Baugsmálið sé birtingarmynd þess að þeir sem einu sinni áttu allt draslið voru orðnir hræddir um að eitthvað vinstrapakk væri að seilast óþægilega innfyrir þeirra eignar- og yfirráðasvæði?

Getur verið að Baugur og sá vængur allur hafi unnið?
Getur verið að fréttir af lækkun Krónunnar og Bónus á matarverði frá í vikunni séu ekki gleðifréttir heldur ennú frekar váfréttir?
Erum við leiksoppar umpólunar á valdastrúktúr sem hefur ekki riðlast mikið í raun síðan á Þjóðveldistímanum?

Mitt svar er mörg já og nokkur nei. Ekki það að ég geti sannað neitt af þessu eða að mér líði eitthvað betur með að halda þetta eða að ég haldi að einhver sé verri en annar.
Nei þetta er bara svo augljóst að það öskrar á mann. Enda ég ekki fyrsta og áreiðanlega ekki síðasta manneskjan sem spyr sig þessara spurninga og fær svipaða niðurstöðu.

xxx
Fía litla


Kominn tími á sumarfrí - ikke???

Ég er svo hrædd!
Ég er búin að ryksuga 18 milljón 7 hundruð og 14 flugur og skorkvikyndi upp í mína eigins heimilisryksugu hérna í vinnunni í dag. Sum voru lifandi eða með grunsamlega litlum lífsmmörkum. Ég er viss um að þær voru lifandi

Það er heilt vistkerfi að hreiðra um sig í ryksugupokanum núna í þessum töluðu orðum.
Ég er mjöööööög hrædd!

ÉG veit að þessi helvítis kvikyndi eiga eftir að lifna við og stofna sitt eigið samfélag sem snýst mest um að koma fram hefndum. Þær munu örugglega ráðast á mig og drepa mig að næturlagi.
Þetta er allt ykkur að kenna. Þið látið mig vera hérna aleina alla daginn með flugum og pöddum.

Nei! Þetta er Huldu að kenna!
Hún var með mér þegar ég labbaði hérna framhjá um árið og ákvað að ég skyldi vinna hérna á meðan ég væri í skólanum. Eða Guðbjörg - eða þær báðar, ég man það ekki.
Örugglega þær báðar.
Joke - það eru pottþétt þær báðar sem standa fyrir þessu - þær unnu með konu stjórnarformanns safnsins á þessum tíma!
Nei annars - rugl - það var Magga vinkona sem vann með henni hjá Intrum.

Helvítis tíkurnar! Þær eru allar með í þessu.
Það vita allir hvað það eru margar flugur í listasöfnum. Þær voru ekki að ýta við mér og láta mig hugsa þetta til enda. Og nú á ég að deyja bara fjörtíu ára gömul - verð étin af flugum!!!

Þið eruð ekki boðnar í jarðarförina mína!
Og ég sem er búin að treysta Huldu fyrir því að ég verði brennd af því að familían mín hlustar aldrei neitt á mig. Glætan að hún geri það.
Lætur mig drepast út af flugum og vera svo grafin og étin aftur, nema núna af ormum.

Ég dey - úr einmannakennd og vinaleysi áður en fluguógeðin ná að drepa mig

Far vel fagra veröld
xxx
Fía litla


Sælar elskurnar mínar!

Vitiði, það er bara búið að vera alveg arfavitlaust að gera hjá mér í að svara kommentum undanfarinn sólarhring út af þessu með mannlífið í Hveragerði og allir bara æstir í að setja í þetta pening.
Gaman að þessu.

Ég var svo þrekuð eftir þetta puð að ég ákvað bara að mæta klukkutíma fyrr í vinnuna og fara út með skærin. Já, sko - að fara út með skærin þýðir að labba um bæinn með blá föndurskæri og leita að huggulegu illgresi í vasana í Listasafni Árnesinga.

Það gekk fínt. Hitti líka Hannes og Sibbu, Sibbu Söru, Guðrúnu Eiríku, Lindu og Lindu-mömmu.
Fann svo fimm föngulegar og frambærilegar tegundir af passlega útsprungnu illgresi í þremur litatónum. Haldiði að það verði ekki bara smart?
Endilega komið og kíkið á það - opið til 6 - og svo er líka myndlist, þið vitið, enda listasafn og allt það. Ekki vera feimin. Koma svo!

Sjáumst
xxx
Fía litla


Well, around here we.........

Þegar maður fer til útlanda eða bara í ferðalag hér heima leitar maður alltaf í miðbæinn og vill helst án þess kannski að vita af hverju sjá og ekki síður finna eða skynja hvernig localinn lifir og virkar.

Alveg hreint verð ég nú að játa það þótt ég sé nánast grátklökk yfir þeim ágætu úrbótum sem gerðar hafa verið á ásýnd Breiðumerkur undanfarið (og takk fyrir það) að ekki get ég ímyndað mér hvar og þá hvaða mannlíf ferðamaðurinn á að berja augum hér í Hveragerði.

Það er enginn miðbær.
Það er ekkert eiginlegt kaffihús.
Það er enginn localpöbb.
Það er enginn menningarmiðstöð.
Það er engin túristainformation eftir kl. 16.30 held ég örugglega.
Afsakið munnsöfnuðinn á mér - en það er eiginlega ekkert MANNLÍF í Hveragerði!

Þetta er ekki illa meint.

Hvað gerum við eftir vinnu?

Við ríslum okkur í garðinum, sumir fara í sund, kannski einhverjir í göngutúr o.s.fr. Allt er þetta alveg súpergott eitt og sér eða hvað með öðru eins og hver vill. En þetta hefur sama og ekkert samfélagslegt gildi. Þetta eru allt meira og minna einstaklingsmiðaðar athafnir nema þá kannski sundferðirnar.

Hvert förum við Hvergerðingar til dæmis ef okkur langar í almennilegt kaffi á kvöldin?

Ekki förum víð í EDEN því það veit sá sem allt veit að þar er kaffið hvorki gott né umhverfið boðlegt svo ég sé nú bara kurteis aldrei þessu vant.
Ekki förum við á Kidda Rót því þar er risastór sjónvarpsskjár mann lifandi að drepa með einhverju sorpi meira og minna öll kvöld. Samt skásti kosturinn og það get ég svarið að hvergi nokkurs staðar á gjörvöllu Íslandi er að finna aðra eins dásemdar hamborgara og þá rómantísku hjá Kidda.
Ekki förum við á Pizza - tja - ég veit eiginlega ekki almennilega af hverju (endilega ef þú veist það þá segðu það)

Við getum farið í heimsókn - ja... en bara ef við erum svo heppin að vera ekki utanbæjarfólk eða nýflutt eða svo drulluóvinsæl að enginn vill þekkja okkur.

Hvað getum við gert í þessu?
Ég er mjög ánægð með samkeppnina um miðbæjarskipulag fyrir bæinn og hlakka mjög til að sjá það allt.
En veist þú um eitthvað sniðugt?
Áttu einhvern pening?
Eigum við að slá saman?
Ég skal vinna dag og nótt ef þú vilt hjálpa mér með peningahliðina - ég lofa að fara vel með þá en ég kann bara ekki að búa svoleiðis til.

Heyrumst
xxx
Fía litla


Vild´ég væri Pamela í Dallas........

En það er ekki í boði svo ég ætla bara að vera Crystal Carrington eða þarna þessi dökkhærða unga sem er að digga við bílstjórann.

Er í alvörunni að spá í að reyna að fara að haga mínu lífi þannig á virkum dögum að ég geti horft á Dynasty. Sá á dögunum 5 mínútur og svo aftur 5 mínútur á mánudaginn. Þetta er ekki fullnægjandi. Verð að reyna að sjá heilan þátt - í það minnsta annað slagið. Veit til dæmis ekki hvað sú dökkhærða heitir þótt ég viti að hún sé Carrington. Ekki gott.

Þetta vekur hjá mér mjög svo blendnar tilfinningar allt saman. Hristir fram endurminningar um þríhyrnt samband mitt, mannsins míns og vinkonu minnar; Sólhildar Svövu Ottesen. Þannig er að í gegnum árin hafa þau iðkað mjög svo eftirtektarverða heilaleikfimi bæði saman og í sundur og þá jafnvel notast við símalínur í því skyni. Þau hafa átt í nokkurs konar samkeppni um það hvort þeirra muni nöfn fleiri celeb-persóna. Skiptir þá engu hvort heldur er um að ræða tónilstarspírur eða kvikmyndastjörnur.

Á tímabili hvað svo ramt að þessum ófögnuði að keyrði um þverbak. Einu sinni (að mig minnir á ágústkvöldi) hringdi Sólhildur mjög tendruð og gáskafengin og spurði eftir Óla. Ekki vildi hún aðspurð tala neitt við mig sérstaklega heldur ítrekaði óþolinmóð að erindið væri að ná tali af húsbóndanum. Jú ég sagðist halda að hann væri á líkamlega viðstaddur en treysti mér ekki til að fullyrða nokkuð um andlega viðveru á þeirri stundu.

Þegar mér hafði tekist að hala betri helminginn upp úr draumarugli sínu í stofusófanum gekk hann um gólf með símann og virtist ábúðarfullur. Eftir almennar kurteiskveðjur hrópaði hann hátt og snjallt: Charlene Tilton!

Ekki veit ég í smáatriðum hver viðbrögðin voru hinu megin á línunni en hef fyrir satt að mjög hafi konan verið hrifin af þessari visku eiginmanns míns.

Þökk sé síbatnandi fjarskiptatækni hefur brottflutningur Sólhildar Svövu til Danaveldis ekki haft það í för með sér að þetta vitsmunalega örvandi og að sjálfsögðu algerlega platónska samband þeirra Óla hafi rofnað. Ekki eru nema fáir dagar síðan hún hringi og þurfti nauðsynlega að ná í manninn. Mun það hafa verið nánast lífsnauðsynlegt og snúist í kjarnann um nafn tiltekins manns af engilsaxnesku málsvæði sem kvað hafa verið meðlimur hljómsveitar sem mér skilst að hafi borið nafnið Hewie Lois and the News (sel það ekki dýrara en ég keypti það, engin ábyrgð borin á stafsetningu eða öðru þessu viðvíkjandi).

Mér finnst ég skilin útundan alveg eins og þegar mér fannst ég útundan í hvert skipti sem Pamela í Dallas beraði barminn og veifaði augnhárunum.
Ég vil líka vera sæt
Ég vil líka vera með í celeb-gettu betur
Þetta er skítalíf
Ég hata ykkur öll - vona að þið fáið krabbamein, í hausinn..............

xxx
Fía litla


Halló pappakassar!

Ég held að kreppukrílið sem er hugsanlega í gangi í þessum töluðu orðum einhvers staðar á bak við eitthvað af 600.000 króna flatskjáum Íslendinga verði ekki banamein lýðveldisins eins og við þekkjum það. Þaðan af síður held ég að erlendir fjárfestar muni ná að fella það.

Nei ég held að alveg örugglega muni banameinið nú þegar hafa hreiðrað um sig í þjóðarlíkamanum og að það muni hægt en örugglega drepa skrímslið innan frá. Það er pólitísk rétthugsun, ótamin ný-frjálshyggja og almennur fávitagangur sem mun að öllum líkindum standa að verkinu.

Í gær kom í safnið til mín þjóðþekktur maður á sjötugsaldri. Hann notaði orðið SÓLHEIMAGLOTT í ótilgreindu samhengi. Ég meig næstum niður af hrifningu og æsingi.

Af því að ykkur langar svo að misskilja mig þá er líklega rétt að taka það fram að mér finnst Sólheimar í Grímsnesi líkastir því sem ég ímynda mér að Himnaríki geti verið í útópískum heimi. Ég elska Sólheima í Grímsnesi.

En burt séð frá því er það almennur talháttur þegar vísað er til meints fávitagangs að segja viðkomandi bera SÓLHEIMAGLOTT á vör. En það má auðvitað ekki skrifa það eða segja neins staðar opinberlega frekar en ÞROSKAHEFTUR eða VANGEFINN eða neitt annað svona sem gæti gefið til kynna að við Íslendingar séum fordómafullir. Þetta er nákvæmlega eins með alla orðnotkun um fólk af erlendum uppruna að ég tali nú ekki um fólk af öðrum kynstofni.

Hræsni og teprugangur er eitthvað það almest ósexý sem hægt er að hugsa sér. Þegar slíkt hefur smitað heila þjóð er ekki von á góðu. Slík bæling veldur því óhjákvæmilega að eitt og annað brýst fram í vægast sagt gróteskir framkomu á þeim stundum þegar margir eru saman komnir og losað er um hömlurnar með til dæmis vímugjöfum. Hvar í heiminum er til dæmis mest gróska í klámiðnaði nú um stundir? það ku vera í Þýskalandi skilst mér og sagði mér ólyginn að þar á bæ hafi bæling á öllum sviðum kynferðismála talist til mestra mannkosta um áratugaskeið.

Ekki benda á fólkið sem barði mann og annan, nauðgaði húsdýrum og áfengisdauðu kvenfólki á Bíladögum eða einhverri útihátíðinni. Líttu frekar í eigin barm og samborgara þinna. Er allt með felldu þar? Talið þið um hluti sem brenna á ykkur? Sussar þú á barnið þitt þegar það segir niggara-brandara eða hlærðu með og ræðir svo málið? Veltir þú því yfirleitt einhvern tíma fyrir þér hvað þér finnst um grundvallaratriði daglegs lífs, siðferði og skiptingu veraldlegra gæða til dæmis? Horfist þú í augu við eigin fordóma?

Ert þú pappakassi?


Hafið mig afsakaða á meðan ég æli!

Ég þóttist ekki ætla að blogga meira um bangsamálið í dag - en ég get bara ekki hamið mig :) :)

Svona í alvöru talað með þennan hvítabjarnasirkus, finnst ykkur þetta flókið?

Hvítabjarnarsirkus I: Hvítabjörn gengur laus. Fólk drífur að. Dýrið hörfar og heldur í átt til fjalla. Þoka að skella á. Dýrið er fellt áður en það hverfur í þokuna.
(áætlaður kostnaður nokkrir hundraðþúsundkallar)

Hvítabjarnarsirkus II: Hvítabjörn gengur laus við ströndina. Étur heila kynslóð æðarfugla í þessu tiltekna varpi í semi-fljótandi formi. Menn hyggjast svæfa og fanga björninn. Heimkynni hvítabjarna eru ís/sjór = hræddur hvítabjörn snýr heim, leggur þá væntanlega til hafs og drukknar. Þórunn Sveinbjarnardóttir flýgur heim frá Osló. Tveir Danir koma til landsins með svefnlyf, búr og einn krakka sem enginn vildi passa. Dýrið er fellt.
(áætlaður kostnaður nokkrir tíumilljónkallar)

Og hvernig skyldi svo standa á þessum vandræðagangi öllum saman?

Jú það er ekki gott fyrir ímynd okkar að fella hvítabirni - Öryggisráðið og Evrópusambandið - skiluru ekkert í þinn haus eða.................

Er gott fyrir ímynd okkar að láta alltaf í minni pokann? Er æðavarp ekki séreinkennandi fyrir okkar menningu og í útrýmingarhættu rétt eins og hvítabirnir? Eru starfshættir í landbúnaði og fiskvinnslu ekki menningarverðmæti í útrýmingarhættu? Eru hugsjónir og sjálfstæð ákvarðanataka íslenskra pólitíkusa ekki í útrýmingarhættu?

Við þorum ekki að veiða hval lengur vegna aumingjaskapar og undirlægjutendensa valdhafa á Íslandi. Af sama meiði eru ákvarðanir um að virkja allt sem rennur í landinu - sérfræðingar og bezzervisserar í útlöndum segja að það sé betra en eitthvað annað- og þá bara gerum við það. Hvenær hættum við að veiða fisk vegna þess að aumingja litlu fiskakrílin gætu meitt sig í munninum?

Hvenær fara karlmenn í pólitík á Íslandi að míga sitjandi og kellingar liggjandi?

Mér býður við þessum aumingjaskap. Þetta er ekkert annað en pólitískt vinsældakapphlaup og þá ekki síst Samfylkingarinnar því vitum að Sjálfstæðismenn hafa verið, eru og munu sjálfsagt alltaf verða pólitískar hórur. Skammist ykkar bara og flytjið til Stokkhólms öll saman í hóp!

Og þið sem bloggið - gerið ykkur grein fyrir því að við erum 5. valdið - NOTIÐ ÞAÐ!!!


mbl.is Ísbjörninn að Hrauni dauður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvítabjarnarblús

Menn koma engu til leiðar nema vera virkir þjóðfélagsþegnar - Menn verða að þora að taka sjálfstæðar ákvarðanir!!!

Þetta sagði yfir-geðluðran og norsarinn Geir H. Haarde meðal annars í gær í tilefni dagsins.

Ja heyr á endemi! Er þetta ekki sami forsætisráðherrann og sá sem situr í þeirri sömu ríkisstjórn sem lét allt annað en eigin sjálfstæðu ákvarðanir og almennt hyggjuvit stýra sér og sínum í Hvítabjarnarsirkus I og II ???

Fyrr munu nú held ég háfar hlaupa á land og frómar jómfrúr fæða fimmbura en að þessir hugsjónalausu vesalingar í sjálfstæðis-samfylkingar-grátkórnum ógurlega taka sjálfstæða ákvörðun um nokkurn skapaðan hlut.

Ég skammast mín hreinlega fyrir að vera Íslendingur í dag. Verð að segja að mér fannst hjákátlegra en allt sem hjákátlegt getur orðið að þessi fíflagangur skyldi eiga sér stað á mesta pappakassadegi allra pappakassa -
17. júní.

Hvaða SJÁLFSTÆÐ þjóð lætur allt og alla aðra segja sér hvernig hún eigi að leysa vandamál sem koma upp í hvunndeginum? Hvaða heilvita manni dettur í hug að bíða eftir erlendum sérfræðingum sem fá ekki pössun fyrir krakkana sína til að afgreiða yfirstandandi vanda eins og þennan með þennan hvítabjörn þarna í gær? Hvers vegan dregur ekki eitthvað af þessu fólki sem fær laun fyrir að stýra og stjórna, hausinn út úr rassgatinu á Evrópusambandinu og NATÓ og tekur sjálfstæðar ákvarðanir svona einstaka sinnum?

Segi ekki fleira í bili. Er svo þrekuð eftir að fylgjast með miðaldra sænsk-sósíal-demókratískri stjórnmálakonu með íslenskt ríkisfang og rauðan makka sem sannar norrænan/keltneskan víkingauppruna hennar (því annað gerir það ekki) gera sig að örlagafífli fyrir framan alþjóð.


Næsta síða »

Höfundur

Soffía Valdimarsdóttir
Soffía Valdimarsdóttir
Bara ég sjálf hvort sem ykkur líkar það betur eða verr!
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 16
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 15
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband