Leita í fréttum mbl.is

Kjarnakonur - já og ein afmælisstelpa

Vitiði, ég þekki svo mikið af dugmiklum kjarnakonum að ég veit þið bara trúið því ekki. Ég er bókstaflega umkringd þessum valkyrjum hvar sem ég fer.

Ég ætla ekki að nafngreina þær, nema eina af því að hún á afmæli í dag. Það er hún Tóta mín. Til hamingju með daginn ef þú lest þetta. Hún kallar ekki allt ömmu sína og hefur þann sess sem henni sæmir.

Í gærmorgun hitti ég á göngu minni konu sem hefur söðlað um svo um munar.
Hún hefur fram að þessu unnið sína vinnu samhliða því að ala upp og gefa Íslandi 4 góða og gegna samfélagsþegna. En nú sem sagt er konan komin í skóla. Ég varð léttari í spori hreinlega því ég samgladdist henni þar sem hún ljómaði öll með skólatöskuna á öxlinni í innkeyrslunni á leið í skólann.

Ein vinkona mín, einstæð tveggja barna móðir, var að byrja í masternámi ofan á sína vinnu og heimili. Hún kom eignalaus heim frá útlöndum á sínum tíma með tvö börn og rippaði sér í gegnum 4 ára háskólanám með sóma.

Önnur sem er líka ein með barn tók sitt nám með bleyjuskiptingum og næturvökum. Hún tók sig svo upp og fetaði draumaslóðina í öðru landi þar sem hún ein og óstudd kom þeim mæðgum inn í öll þau kerfi sem nauðsynleg eru til að lifa í nútímasamfélagi.

Ein til lét ekki barlóm og kreppu buga sig heldur skundaði til Noregs í góða vinnu og fríðindi a la 2007 frekar en að liggja heima vælandi í samdrætti og skuldasúpu.

Enn önnur tók ábyrgð á lífshamingju sjálfrar sín og barnanna sinna, pakkaði saman og færði sig um set. Hún gerði það alein og brosandi.

Ekki búið enn. Ein er þeirri gáfu gædd að hún bjargar því sem bjarga þarf hvað sem á dynur. Ég heyrði um hana sagt í gær: Sko hún er alveg ótrúleg konan, hún er bara búin að redda þeim húsnæði og mögulega vinnu líka! Þessi kona er sennilega vinsælasta manneskja sem ég þekki og það er ekki af engu.

Eina þekki ég sem vinnur vinnuna sína mikið betur en henni ber miðað við greitt starfshlutfall. Hún er stöðugt vakin og sofin yfir því sem gæti komið skjólstæðingum hennar að notum og til góða enda elskuð af þeim og aðstandendum þeirra svo eftir er tekið.

Annarri vinnusamri konu hefur mér borið gæfa til að kynnast og starfa með. Hún gerir allt vel sem hún gerir yfirleitt og það er ekki fátt. Handbragð og árangur verka hennar er að spyrjast út hægt og örugglega til hagsbóta fyrir marga.

Ein er jarðbundin, traustur klettur sem alltaf er hægt að stóla á að sjái björtu hliðarnar í stöðunni. Hún heldur fallegasta heimili sem ég kem á, látlaust og stílhreint en samt hlýtt og bjóðandi. Hún er vinmörg og vinsæll starfskraftur. Hún gefur kraft með nærveru sinni og eldmóði.

Sú síðasta er valinkunn sómakona sem hefur kannski stíft yfirbragð en er rómuð fyrir raungæsku. Skjólstæðingar hennar senda henni jólagjafir og þakkarkort árið um kring.

Allar þessar konur eru sjálfskapaðar. Það er að segja, þær hafa allar tekið af skarið í sínu lífi á einn eða annan hátt og bætt umhverfi sitt með því að vera ábyrgar fyrir eigin lífshamingju.

Þær eru allar sístarfandi og gefa ríkulega til samfélagsins.
Þær hafa allar hafnað eymd og volæði.

Þær eru mínar fyrirmyndir og ég er þakklát fyrir þær allar
xxx
Fía litla


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hulda Bergrós Stefánsdóttir

Ég þekki eina konu, þegar ég hitti hana fyrst var eins og ég hefði alltaf þekkt hana, hún hefur ekki veigrað sig við því að skunda í skóla með töskuna á annari öxlinni og fjöslkylduþarfirnar á hinni.

Hún hikar ekki við að blása til veislu þó svo hún þurfi að skila verkefni daginn eftir, hún er vinur vina sinna

Hulda Bergrós Stefánsdóttir, 19.9.2009 kl. 13:37

2 identicon

Ástarþakkir fyrir góða kveðjur mín kæra frænka. Mikið tek ég undir með þér varðandi fjölda magnaðra kvenna sem ég þekki og þú þar með talin, knús á þig! Ég skil alls ekki þegar konur segja að konur séu konum verstar, ég reiði mig á konur, þær eru ankerin í lífi mínu og ég hefði aldrei geta komist í gegnum þessi 41 ár án þeirra allra. ÉG ELSKA KONUR:-)

Þórhildur (IP-tala skráð) 22.9.2009 kl. 13:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Soffía Valdimarsdóttir
Soffía Valdimarsdóttir
Bara ég sjálf hvort sem ykkur líkar það betur eða verr!
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.4.): 3
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 17
  • Frá upphafi: 56235

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 16
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband