Leita í fréttum mbl.is

Ef ekki fyrir sjálfan þig þá fyrir gestina

Gefið ykkur 5 mínútur til að lesa þennan pistil yfir og helst með skilningarvitin vakandi. Sko! Þegar ég hugsa um Breiðumörkina (í Hveragerði) þá sé ég hana fyrir mér eins og súluna innan í hitamæli eftir að hringtorgið kom á þjóðveginn. Þannig er hringtorgið kúlan þar sem rauði vökvinn er og gatan sjálf svo súlan. Ef allt væri eðlilegt ætti hitinn að stíga eftir því sem ofar dregur í súlunni. Þannig ætti þessi aðalbraut bæjarins að draga fólk inn í bæinn miðjan og þegar komið væri að litla hringtorginu við Hótel Ljósbrá ætti hámarks hita að vera náð. Þar þyrfti að vera eins konar hot spot.

En það er nú öðru nær. Gangstéttirnar eru brotnar og hver skelfingin á fætur annarri verður á vegi þeirra sem þarna fara um. Á þessari stuttu leið eru margir dauðir punktar sem ég kýs að kalla svo. Tökum dæmi: Planið fyrir utan gamla Gaggó er eins dautt og frekast getur verið. Þar er lélegt malbik eða slitlag (ég veit ekkert hvað þetta heitir en þig vitið hvað ég meina). Hvergi blóm eða tré, enginn bekkur, ruslafata eða nokkuð annað það sem bíður fólki að hafa þar viðdvöl. Húsið sjálft er svo í því sorglega ástandi sem hverjum manni má vera ljóst. Hinu megin við götuna er stórt gróðurhús með drullupollaplani fyrir framan. Gjörsamlega dauður punktur sem enginn á erindi um. Áfram er haldið og við taka tvö einbýlishús sitt hvoru megin við götuna. Ekkert um þau að segja svo sem en næst tekur við bakaríið sem að mínu mati og margra annarra er með bestu bakaríum á landinu. Þar er svo sem ekki yfir neinu að kvarta þó alltaf megi gera betur. Hinu megin er svo húsið hennar Binnu gömlu á Akri og auða svæðið þar neðan við. Sá reitur er gersamlega berstrípaður og bíður eiginlega bara eftir að safna drasli, vona að ég eigi ekki eftir að lifa það að sjá þarna bílhræ og ruslagáma hreinlega.

Næst tekur við Blómaborg og húsin þar á móti. Svæðið í kringum VÍS er snyrtilegt og fínt og húsið hennar Stínu gömlu Jóns er til fyrirmyndar. Blómaborg má auðvitað muna fífil sinn fegri en gæti svo sem verið daprari. Hins vegar er ömurlegt að horfa á þennan grunnskratta þarna við endan á gróðurskálanum áratugum saman sem ekkert er gert við. Reyndar verður að segjast að vegna þess hve það svæði er opið sést betur inn í Þórsmörkina og fallegasta húsið í bænum fær að njóta sín. Hér á ég auðvitað við húsið hennar Gunnu á Grund. Við Breiðumörkina sjálfa stendur svo húsið þeirra Gunnu og Bigga Blómaborgarmegin og svo gamla hreppstjórahúsið þar á móti. Eigendur þessara húsa eiga heiður skilinn fyrir sína viðleytni. Bæði húsin eru svolítið sérstök og gefa þannig lífinu lit.

Nú taka við fjögur fyrirtæki; tannlæknastofan, Tían, Kaupþing og Ólasjoppa. Allt í góðu þar. Þá er það gamli Kvennaskólinn sem hefur fengið einhverja þá vafasömustu andlitslyftingu sem ég hef á ævinni séð á nokkru húsnæði. Hræðilegt bara. Gamla pósthúsið er svo sem ekki hrunið ennþá og hýsir skátana sem er fallega hugsað en ytra umhverfi bíður ekki upp á íveru af nokkru tagi frekar en aðrir reitir þessarar sorglegu aðalgötu okkar Hvergerðinga.

Það sem eftir er er þó sorglegast af öllu. Hvar sem litið er má sjá annað hvort niðurníðslu eða ljotleika nema hvoru tveggja sé. Gamla kaupfélagshúsið er auðvitað bara ljótt hús hvort sem það er lagað eða ekki. Ég skil vel þá þörf sem er á að nýta húsið vegna nálægðarinnar við skólann og allt það en ytra útlit og umhverfi gerir ekkert fyrir svæðið nema síður sé. Gamla-gamla kaupfélagshúsið sem hýsir skólaselið er svo kannski ekkert í verra ásigkomulagi en það hefur verið frá því að ég man eftir mér en aðkoman og umhverfið er ömurlegt. Drullupollaplan með ömurlegu útsýni. Hverjum ætti nokkurn tíma að detta í hug að leggja bílnum og fara út úr honum þarna? Svo er það Heilsugæsluhúsið. Ljótt, ljótt og ljótt. Punktur. Og svo rúsínan í pysluendanum, Hótel Ljósbrá. Maður grætur nú bara í hljóði yfir þeim hryllingi.

Þetta er stórt hús með ennþá stærri sál. Þarna höfum við mörg aðhafst eitt og annað misgæfulegt reyndar um dagana. HVERS VEGNA KEYPTI BÆRINN EKKI ÞETTA HÚS Á SÍNUM TÍMA? ÉG skil ekki þessa skammsýni og skort á skilningi þegar kemur að menningarlegum verðmætum hérna í þessum bæ. Ég meina Kjörís og Ás eru góð og gegn fyrirtæki sem hafa gert bænum margt gott en það er fleira í Hveragerði en ís og gamalmenni. Hvernig líður ykkur kæru Hvergerðingar að horfa á þetta hús nánast molna niður fyrir augunum á ykkur? Mér líður ekki vel.

Nú er ég alls ekki að skrifa þetta til þess að níða náungann (ekki það að ég hafi ekki gaman af því líka á köflum). Minn tilgangur er sá einn að reyna að fá fleiri til að hugsa um þessa hluti. Þetta skiptir svo miklu máli. Við þurfum nauðsynlega að eignast einhvern miðpunkt sem við getum stolt gengið um og boðið gestum að sjá og njóta.
Hugsið ykkur allan þann fjölda utanbæjarmanna sem fer þarna um á hverju ári. Allir sem fara inn í dal keyra þessa leið. Og það eru margir. Allir sem fara í golf, í göngur, að sjá Grýlu, í hesthúsin o.s.fr.

Verðum við ekki að fara að taka til hendinni? ÉG væri alveg til í að bretta upp ermarnar og vinna þarna sjálboðavinnu af einhverju tagi. Hvað með þig ágæti meðborgari, er þér kannski drullusama?

Ég veit ekki með ykkur en heima hjá mér er það alla vega þannig að þótt stundum sé nú mishuggulega aðkoman þá tek ég að minnsta kosti ærlega til þegar von er á gestum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hulda Bergrós Stefánsdóttir

Sammála, það er blóðleysi í Hveragerði og því veitir ekki af pumpa gæðablóði í æðarnar svo það lifni yfir bænum OKKAR

Hulda Bergrós Stefánsdóttir, 14.3.2008 kl. 15:27

2 Smámynd: Heimir Eyvindarson

Trúmann sagði okkur nú í gamla daga að Belgar hefðu það fyrir sið að spyrja nágranna sína álits áður en þeir máluðu húsin sín. Líklega hefur hann logið því kallinn , en það er engu að síður ekki svo galinn siður.

Annars finnst mér sorglegt hvað ráðamenn hér hafa í gegnum tíðina verið skammsýnir. Auðvitað átti bærinn að kaupa Ljósbrá! En ekki hvað? Húsið stendur í miðjum bænum, og sveitarfélagið er svo að segja landlaust! Sama má segja um Fagrahvammstúnið, sem ég hef heyrt að bænum hafi staðið til boða á slikk á sínum tíma. Væri nú ekki nær ef nýtt íþróttahús rysi þar, í nágrenni við skólann og sundlaugina, heldur en upp í dal?

Væri ekki líka ágætt að eiga tívolíhúsið núna? Það fór nú á klink.  

Og svo mætti lengja telja. Ég man t.d. hvað mér fannst alltaf frámunalega bjánaleg aðkoman að Hveragerði í gamla daga. Að taka á móti gestum með mismunandi ljótu iðnaðarhúsnæði, og tilheyrandi rusli, er alveg ótrúleg della. Væri gaman að vita hverjum datt sú snilld í hug! Á ekki bærinn spildu hinum megin við þjóðveginn? Gat ekki einhverjum dottið í hug að planta iðnaðarhúsunum þar? En svo kom Hótel Örk, og hvað svo sem má segja um það ævintýri allt þá lagaðist ásýnd bæjarins altént heilmikið með tilkomu þess.

Heimir Eyvindarson, 18.3.2008 kl. 11:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Soffía Valdimarsdóttir
Soffía Valdimarsdóttir
Bara ég sjálf hvort sem ykkur líkar það betur eða verr!
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 56438

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband