Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2008

Hættiði þessu væli!

Mér flökrar hreinlega við þessu bulli um mesta tjón sögunnar í skjálftanum í vor og tali um að það þurfi að setja á stað söfnun fyrir Sunnlendinga sem eiga víst að vera í viðstöðulausu kvíðakasti. Ætli það sé nú ekki mest aðskilnaðarkvíði - menn sakni svo draslsins síns. Tjónið er auðvitað svona mikið í krónum talið af því að fólk Á SVO ALLT OF MIKIÐ AF ÖLLU!

ÞAÐ GERÐIST HREINT EKKI NEITT SKELFILEGT - ÞAÐ ERU ALLIR Á LÍFI - ÞAÐ HAFA ALLIR FENGIÐ HÚSASKJÓL - ÞAÐ ER ENGINN SVANGUR!

Andskotans væll er þetta! Hafiði aldrei horft á fréttir??? Hvað með flóð og fellibyli, stríðsátök og hungur sem er viðvarandi ógn í lífi stórs hluta jarðarbúa? það eru alvöru ógnvaldar sem valda hörmungum og dauða.

Reyndar eru það mest Íslendingar aðrir en Sunnlendingar sem eru að reyna að gera eitthvert drama úr þessum skjálfta. Dæmigert reyndar fyrir fólk sem ekki lifir eiginlegar sorgir að vera ofurupptekið af sorgum annarra. Pínulítið svona ámátlegt finnst mér alltaf þegar fólk sefur ekki vegna ástandsins í Tíbet eða Sómalíu en myndi svo aldrei í lífinu stíga fæti á þær grundir þótt þeim gæfist færi á að taka þátt í einhverju alvöru hjálparstarfi á sjálfum staðnum.

Ég gubba á svona spariklæddar kaffihúsa-mótmælenda-týpur. Miklu heiðarlegara að segja bara satt: Mér er mest umhugað um mig og mína og heimur minn er ekki mikið stærri en sem nemur eiginlegri reynslu minni og þeirra sem ég þekki af eigin raun.

Á mínu heimili kallast svona þvaður: Að tala með rassgatinu!

xxx
Fía litla


Mikið vildi ég að þessi sólar-andskoti færi að taka sér smá pásu!

Þett´er satt! Ég er alveg búin að fá upp í kok af þessum bölvuðu glennulátum alla daga. Maður veit varla lengur hver maður er eða hvaðan maður kemur - sviptur öllu því sem skilgreinir tilvist manns út frá þessum stað. Hvar er rigningin sem mér þykir svo vænt um?

Sennilega þess vegna sem ég nenni ekkert að blogga. Nenni ekki einu sinni að æsa mig yfir smáatriðum sem mér koma ekkert við hvað þá heldur að segja ykkur frá öllu þessu skemmtilega sem á daga mína og minna hefur drifið í sumar. Geri það kannski seinna.

En núna vil ég bara fara að fá almennilegar haustrigningar og myrkur og úlpuveður og kertaljós og rútínu. Maður þrífst ekki í þessum andskota til lengdar.

xxx
Fía litla


Ég sagði ykkur þetta!

Ég vissi það!!!

Kannski eða kannski-ekki krabbameinsveiki pabbi prjónakonunnar fær svona rautt afgangaferningateppi frá henni og öllum hinum prjónakonunum.

Ég kemst ekki yfir þessar prjónakonur. Þær prjóna og prjóna og samt er allt svo krúttlegt og hreint heima hjá þeim . Hvenær ætli þær hafi tíma til að taka til og þrífa? Skil ekki svona atorkusemi og afköst. Nema að þetta séu heimavinnandi húsmæður - barnlausar - já ætli það sé ekki bara málið?!

Svo eiga alveg rosalega margar prjónakonur hunda eða ketti og sumar hvoru tveggja. Skil það heldur ekki alveg. Þarf að hugsa þetta svolítið lengur.

Læt ykkur vita ef ég átta mig..........
xxx
Fía litla


Pilsnermaðurinn.

Einu sinni var maður sem var afskaplega hrifinn af pilsner. Hann var svo hrifinn af pilsner að hann þurfti ekki neitt annað í lífinu. Hann átti ekki hús og ekki bíl og ekki konu og ekki krakka - bara sjálfan sig, örorkubæturnar sínar og pilsner.

Ég veit ekki hvort hann var glaður eða leiður eða hvort hann hafði einhver áhugamál. Hann gaf ekkert til kynna um neitt slíkt með framkomu sinni. En allavega þá vissi ég þetta með pilsnerinn.

Svo var það einu sinni að blár Pripps var á tilboði í kaupfélaginu svo vikum skipti. Nú fékkst kippan á sama verði og 4 pilsnerar áður. Þá brá pilsnermaðurinn á það ráð að fá sér bíl til að flytja pilsnerinn sinn heim.

Og svo veit ég ekki meir.

xxx
Fía litla


Tvífætlur, þrífætlar og fleiri kvikyndi

Rétt í þessu var dauðastríði hrossaflugu númer 29.1147 að ljúka hér í Listasafni Árnesinga.
ja eða svona hér um bil - því nú hreyfir hún skyndilega eina löppina. Bara dauðakippir held ég.

Annars var það nú ekki kannski það sem ég ætlaði að segja ykkur heldur það að ég var að hugsa sisona með mér á meðan ég reyndi að ákveða hvort ég ætti að lengja kaflann um aðferðafræðilegan vanda við rannsóknir á þjóðfræði barna eða hvort ég ætti kannski bara að fara að jeppast í að klára að skrifa þessa ritgerð yfirleitt (voða erfitt allt saman - ég á mjög bágt ef þið vissuð það ekki) - hvað það væri nú heppilegt að vera tvífætlingur. (Anda hérna!!!)

Hugsið ykkur bara að vera hrossafluga eins og þessi dauða hérna með margar lappir og með ekki færri en þrjár eitthvað meira en lítið bæklaðar að því er virðist. Það er ekki alveg útséð með það hvernig það færi ef maður þyrfti að fá aðstoð hjá Tryggingastofnun vegna þriggja bæklaðra fóta - verandi kvenkyns og allt það.

xxx
Fía litla


Þú mátt sjá.......

........draslið mitt - og um leið sérðu ef vel er gáð hver ég er.

Já, á Blómstrandi dögum ætla ég að opinbera mig með þeim skemmtilega hætti að halda flóamarkað. Ekki það að ég sé neitt öðruvísi en annað fólk eða draslið mitt meira spennandi. Efnismenning hverrar manneskju er bara svo lýsandi fyrir þær áherslur sem hver og einn hefur í lífinu að það eitt gerir það þess virði að þvælast um á flóammörkuðum. Það er fátt skemmtilegra. Bæði finnst mér það svo bráðsniðugt að taka til í skápum, geymslum og skúffum og svo ekki síður að taka þátt í dagskránni og leggja þannig mitt af mmörkum til að auka fjölbreytnina með þessum hætti.

Viltu vera með?

Þetta er svo skemmtilegt! Þarna hittir maður alla og með allt öðrum formerkjum en á ballinu um kvöldið. Svo finnst mér bara svo forvitnilegt og spennandi að fólk varpi sér og sínu drasli fram fyrir almenningssjónir svona einu sinni á ári.

Sjáumst.........
xxx
Fía litla


Um það að vera sá sem maður er - og fagna því.

Í dag er Regnbogadagurinn. Samkynhneigðir Íslendingar blása til hátíðar í því skyni að halda upp á tilveru sína yfirleitt. Sú nýbreytni verður skilst mér að þessu sinni að fjölskyldur koma sérstaklega fram og fagna saman.

Það er gott að eiga tvær mömmur heyrði ég haft eftir einni lítilli á rúv í vikunni. Systir hennar sagðist alveg vilja eiga pabba ef út í það væri farið en tvær mömmur væru alveg eins góðar. Sennilega eru tveir pabbar bara fínastaslags líka þótt ég þekki svo sem ekki sérstaklega til neins nema þessa hefðbundna forms - kona, maður krakkar.

Umfram annað held ég þó að best sé að fagna tilvist sinni hvernig svo sem kynhneigð eða fjölskyldumynstri er háttað. Að bera gæfu til þess að vera sá sem maður er á hverjum tíma er mesta hamingjan í lífinu.

Til hamingju öll þið sem fagnið í dag. Ég vildi gjarnan ganga með en er í vinnunni svo ég verð bara með regnbogabarmmerkið og hugsa um hamingju í staðinn og þá gæfu að vera lifandi í landi tækifæranna. Dóttir mín spurði mig í gær af hverju í ósköpunum ég væri að vinna á Gay-pride daginn - hver á þá að fara með okkur í gönguna? Á ég að fara ein eða...?
Svona er lífið, svaraði ég. Þú verður bara að láta þig hlakka til þess að verða nógu stór til að gera allt það sem þig langar til að gera - og gera það!

xxx
Fía litla


Heil 16 ár.

Við Óli eigum 16 ára brúðkaupsafmæli í dag.

En það eru líka 16 ár í dag frá því að við fluttum inn í húsið okkar. Við lögðumst til hvílu um klukkan 2 að nóttu aðfaranótt 8. ágúst 1992 og rifum okkur svo upp aftur kl. 6 að morgni til að mæta hjá ljósmyndara í Reykjavík kl. níu. Það væri svo sem ekki í frásögur færandi nema af því að brúðguminn hafði ekki sofið fullan nætursvefn í fleiri mánuði þegar þarna var komið og var þess vegna dálítið slæptur þegar á hólminn var komið.

Ljósmyndarinn átti í mesta basli við að fá hann til að slaka á í myndatökunni. Það var vegna þess að allt í einu áttaði hann sig á því að hann var að fara að gifta sig. Það hafði bara eiginlega farið framhjá honum einhvern vegin í öllu amstrinu við að tengja klósett og ofna og allt hitt sem þurfti til svo við gætum flutt inn í langþráð húsið okkar.

En ljósmyndarinn dó ekki ráðalaus og skellti freyðivíni í kappann með þeim afleiðingum að minn heittelskaði slaknaði nánast um of þannig að þegar myndatakan var afstaðin var hann í vandræðum með að detta ekki útaf á meðan við biðum eftir sjálfri athöfninni.

Svo hófst þetta allt saman einhvern vegin og varð bara hinn skemmtilegasti dagur. Húsið beið svo eftir okkur og það get ég sagt ykkur að við gerðum okkur enga einustu rellu yfir því þótt við hefðum ekki síma í heila 8 mánuði og það sem meira er, ekki heitt vatn í tæpa þrjá. Skipalakk á gólfum og engin opnanleg fög í gluggunum. Þetta skipti hreint engu máli. Það voru alltaf gestir og ég skúraði ánægjunnar vegna á hverjum einasta degi.

Ég er alveg til í önnur sextán bæði með manninum og húsinu - enda parket í öll horn og heitt vatn í krönum og kallinn hefur bara batnað með aldrinum.

xxx
Fía litla


Gleðilegt síðsumar!

Nú er sumarið að verða búið og ég ekki búin að gera nema svona einn fjórða af því sem til stóð. Ekkert nýtt svosem en kemur samt alltaf jafn mikið á óvart.

Reyndar búið að vera annasamt sumar og skemmtilegt þannig að það er ekki yfir neinu að kvarta. Það sem útaf stendur eru verkefni sem ég ætlaði að vinna svona til hliðar við allt þetta venjulega sem maður gerir á dæmigerðu sumri.

Frí með fjölskyldunni á Arnarstapa og mjög sérstök ferð til Færeyja með Huldu og Frímanni rafvirkja eru tvímælalaust ánægjulegustu viðburðir sumarsins. Ókláruð ritgerð og tætingslegir fataskápar eru hins vegar ekki með í þeim flokki.

En nú er uppáhalds árstíðin mín að byrja, síðsumar og svo haust þannig að það er óþarfi að örvænta. Ef ég þekki mig rétt kem ég miklu í verk fram að skólabyrjun enda fátt dásamlegra en að vaka og dunda sér þegar það er aftur farið að dimma á kvöldin.

Sjáumst í haust
xxx
Fía litla


« Fyrri síða

Höfundur

Soffía Valdimarsdóttir
Soffía Valdimarsdóttir
Bara ég sjálf hvort sem ykkur líkar það betur eða verr!
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 28
  • Frá upphafi: 56228

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 28
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband