Leita í fréttum mbl.is

Og þess vegna er ég vinstri maður!

Hin annars hundleiðinlega fræðigrein sagnfræði býr yfir einu stórskemmtilegu verkfæri.

Það er aðferðafræði sem kölluð hefur verið á íslensku Einsögulega aðferðin. Hún er að sjálfsögðu sprottin upp úr félags-sagnfræðinni sem er tilraun annars örmagna fræðasamfélags á sínum tíma til að færa örlítið líf og um leið vit í fræðin.

Einsögulega aðferðin gerir ráð fyrir að hægt sé að rýna í hið smá í því skyni að skilja stóra samhengið.
Þannig hafa með einsögulegum aðferðum annars nær ónýtanlegar en um leið stórmerkilegar heimildir verið teknar með í leikinn. Hér er ég að tala um dagbækur, sjálfsævisögur og fleiri slíkar heimildir einstaklinga sem jafnan hafa verið taldar ómerkilegar en eru nú einhver eftirsóttasti efniviður fræðimanna víða um heim.

Löngum hafa sagnfræðingar og ýmsir aðrir fræðimenn leitast við að skoða hlutina ofan frá. Standa uppi á pöllum og horfa yfir viðfangsefnin. Sú aðferð verður alltaf gangnleg á sinn hátt en niðurstöðurnar og framsetningin hafa tilhneigingu til að verða líflausar. Það vantar eitthvað!

Það sem vantar er hið persónulega sjónarhorn. Fólkið sjálft. Lífið eins og það bærist í hjörtunum.

(Að sjálfsögðu fjallar þjóðfræðin um nákvæmlega þetta, annars hefði ég ekki tollað)

En það er önnur saga, ég var að tala um einsöguna.
Með því að skoða - ja segjum lítið þorp í 40 ár í stað þess að skoða ríkið sem það er hluti af í þessi sömu 40 ár, nú eð aheiminn allan, má samkvæmt einsögulegu aðferðarfræðunum allt eins gera sér grein fyrir því hvernig stóra samhengið virkar og veltist.

Ég nýt þess kannski vafasama heiðurs að hafa öll þau 40 ár sem ég hef lifað búið meira og minna á sama stað, í Hveragerði. Fór í bæinn og einhverja mánuði í Búðardal auk tæps árs í Noregi en annars bara heima er best.
Samkvæmt ,,stóru,, fræðunum gerir þetta mig heimska í merkingunni heimaalin og fáfróð.
Samkvæmt einsögunni gerir það mig hins vegar að sérfræðingi.

Um 10 ára aldurinn fékk ég þvílíkan brennandi áhuga á því hvernig samfélaginu væri háttað og stjórnað. Ég átti mikið góðan og mjög svo pólitískan móðurafa sem var Marx-Lenínisti frá því hann vaknaði á morgnanna og þar til hann - ja - vaknaði á morgnanna líklega. Við hann reifst ég um pólitík frá sennilega 12 ára aldri. Hann missti sjónina og á sennilega 2 ára tímabili fór ég u.þ.b. einu sinni í viku til afa og ömmu eftir skóla og las fyrir hann Þjóðviljann. Það var nú ekki allt fallegt skal ég segja ykkur. Sennilega og örugglega beindi þetta mér þó í átt til vinstri.

En hvað um það. Á þessum sama tíma eða þegar ég var 13 ára fór ég að vinna fyrir mér eins og allt almennilegt fullorðið fólk. Bjó auðvitað heima hjá mér og allt það en var sem sagt í alvöru vinnu eins og margir krakkar á þessum tíma. Í þessari minni fyrstu vinnu kynntist ég manni sem mér lærðist með tímanum að þykja vænt um. Hann var mikill Sjálfstæðismaður allt til dauðadags. Blessi hann og allt það.

Á vinnustaðnum hitti hann oft aðra Sjálfstæðismenn til skrafs og ráðagerða. Auðvitað hitti hann aðra en þá en bæði reglulega og í tíma og ótíma ræddi þessi vinnuveitandi minn mislengi við kollega sína í pólitíkinni.
Ósjaldan mátti ég færa þeim kaffi og með því. Það vakti snemma furðu mína hvernig þessir menn töluðu um samfélagið sem ég vissi ekki betur en að ég og mínir deildu með þeim. Auðvitað var ég bara 13-15 ára en ég var ekki vitlausari þá en ég er núna og ég skildi það fljótlega að þeir töldu sig eiga eitt og annað og hafa rétt á einu og öðru sem ég hafði sem sagt haldið að við ættum öll saman.

Það er skemmst frá því að segja að alla þessa menn þekkti ég sjálf þá þegar eða síðar að einhverju leyti. Þeir voru meira eða minna Hvergerðingar. Þeir voru eins misjafnir og þeir voru margir auðvitað.
En eitt áttu þeir sameiginlegt á einhvern undarlegan hátt.
Það var eins og þeir ætluðust til þess að til þeirra væri sérstaklega tekið - þeir væru á einhvern hátt merkilegri en annað fólk!

Eftir því sem árin liðu og stúlkan stækkaði áttaði hún sig á því að nákvæmlega þetta er það sem hún ekki getur sætt sig við í hugmyndafræði og fari Sjálfstæðismanna á Íslandi almennt.

Það er þessi óljósa en þó svo yfirþyrmandi aðkenning að mikilmennskubrjálæði sem einkennir þessa hjörð.
Við erum betri en þið.
Við erum forréttindahópur.

Og þannig fæddist og mótaðist sú skoðun í mínum kolli sem ég mun deyja með, að það er jöfnuður í menningarlegu tilliti sem máli skiptir.
Efnahagslegur jöfnuður er draumsýn.
En við erum öll jöfn þar fyrir utan.

Þótt einhver geti borgað einhverjum fyrir að færa sér kaffi þá er sá ekki meiri maður fyrir vikið.
Um þetta snýst vinstri pólitíkin í mínum huga - um réttlæti og jöfnuð - því við erum öll jöfn þegar upp er staðið.

xxx
Fía litla


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Soffía Valdimarsdóttir
Soffía Valdimarsdóttir
Bara ég sjálf hvort sem ykkur líkar það betur eða verr!
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.4.): 5
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 19
  • Frá upphafi: 56237

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 18
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband