Leita í fréttum mbl.is

Ráðherrann og réttvísin - örsaga í a.m.k. tveimur hlutum

Það var dumbungsmugga yfir borginni þegar ráðherrann settist við morgunverðarborðið þennan morgunn. Hann vafði þéttar um sig sloppnum. það var einhver hrollur í honum, þó átti hann sér einskis ills von - hvorki í dag né aðra daga. Hann hafði sofið svefni hinna réttlátu allt þar til klukkan hringdi enda var hann æðsti klerkur réttvísinnar. Það læddist lítið bros... eða kannski örlítil brosgretta öllu heldur, út í hægra munnvikið á honum við tilhugsunina um vekjaraklukkuna sína (hann var alltaf eitthvað stífur í því vinstra). Já hún hafði kostað sitt. En á hverjum morgni þegar hún vakti hann blíðlega með hressilegum hergöngumarsi þá vissi hann að hún hafði verið hverrar krónu virði. (konan á flóamarkaðinum hafði hvíslað því að honum að akkúrat þessi klukka hefði einu sinni gegnt því ábyrgðarfulla hlutverki að vekja akkúrat einn ákveðinn einræðisherra í landi sem er alveg eins og kvenmannsstígvél í laginu. Klukkan hafði aldrei brugðist og því gekk einræðisherrann stundvíslega til sinna þörfu verka á hverjum einasta morgni. En ráðherrann hafði engum sagt það. Þetta leyndarmál áttu þau saman hann og þessi vinalega sölukona - já, og svo auðvitað látni einræðisherrann).

Ráðherrann hryllti sig aftur og ók sér undan einhverjum óræðum óþægindum í sætinu. "Nú hana, hvað er þetta?" tautaði hann. Ótætis nærbrókin var þá bara eitthvað að angra hann. "Rót mín" kallaði hann hátt og það var gremja í röddinni. "Ég hélt við hefðum orðið sammála um að þessa brækur þarna úr Bónus væru ómögulegar og best væri að henda þeim. Gleymdirðu þvi góða mín?". "Hvaða læti eru þetta Bangsi minn" andvarpaði Rót á leiðinni inn í eldhús. Hún hafði skotist rétt sem snöggvast fram á bað enda var kaffið komið á brúsann, eggin og beikonið kúrðu í hitafatinu, nýkreisti greip- og mangósafinn stóð tilbúinn í glasinu inn í ískáp, Mogginn lá á borðinu og bæði Fréttablaðið og 24 stundir voru komin út í ruslatunnu nágrannans hinu megin við götuna. "Ég er bara rétt að koma væni minn. Nei svona sestu góði, ég skal færa þér kaffið". "Ég ætlaði nú bara að fara og skipta um brók. Þú ræður nú væntanlega við kaffið góða?!"

Þegar ráðherrann hafði lokið við að borða allt nema beikonið sem var "heldur ofsteikt góða mín" ýtti hann frá sér disknum og breiddi Morgunblaðið á borðið fyrir framan sig. Það kumraði í honum af vellíðan og velþóknun. Málgagnið megnaði dag hvern að ylja honum um hjartarætur. Hann hafði lokið við leiðarann og skannaði nú ánægður og velmegandi yfir ýmsar smáfréttir af dugandi fjármálaséníum, mistækum kommúnistabjánum á landsbyggðinni og ýmsum fyrirhuguðum breytingum í skipulagsmálum höfuðborgarinnar.

En hvað var nú þetta?! "Þingmaður Framfaraflokksins, Bjarkar Grjón, handtekinn fyrir þátttöku í pókerspili um liðna helgi. Græddi 18.000 krónur á ólöglegu fjárhættuspili"! Ráðherrann reis svo hastarlega úr sæti sínu að eldhússtólinn valt um koll og Rót kom hlaupandi fram í eldhúsgættina með þvottakörfuna á höfðinu. "Hvað gengur á Bangsi minn, hvað hefur komið fyrir"? "Svona skiptu þér ekki af því kona" sagði ráðherrann og ruddi sér leið út úr eldhúsinu og fram í forstofuna. "En almáttugur, er þetta alvarlegt Bangsi minn"? "Alvarlegt og alvarlegt" þrumaði ráðherrann. "Það er enginn tími til að velta sér upp úr smáatriðum. Ég gegni ábyrgðarstöðu í þjóðfélaginu. Ég hef verk að vinna." Við svo búið snaraðist ráðherrann út úr dyrunum. Hann gekk fumlaust og ákveðnum skrefum út í ráðherrabílinn. Bílstjórinn beið með opna bílhurðina. Hann hafði líklega lesið málgagnið enda var það hluti af hans embættisskyldum að fylgjast með þjóðarpúlsinum. Það síðasta sem Rót sá til ráðherrans þennan hryssingslega morgunn var hofmannleg sveiflan þegar hann sló saman hælunum í kveðjuskyni, bar höndina upp að kaskeytinu og að lokum festulegur vangasvipur hans sem speglaðist í rúðunni þegar bifreiðin geystist út í hringiðu borgarinnar sem aldrei hélt vöku sinni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Soffía Valdimarsdóttir
Soffía Valdimarsdóttir
Bara ég sjálf hvort sem ykkur líkar það betur eða verr!
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 27
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 27
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband